15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1357 í C-deild Alþingistíðinda. (4544)

231. mál, efnivörur til skipa- og bátasmíða

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Í frv. þessu er farið fram á að undanþiggja efnivörur til skipa- og bátasmíða innflutningstollum. Eins og kunnugt er, eru smíðuð skip og bátar, sem til landsins flytjast, tollfrjáls. Af því leiðir aftur, að skipa- og bátasmiðir hérlendir eiga erfitt aðstöðu gagnvart hinum erlendu keppinautum sínum, þar sem landið tekur toll af innfluttum efnivið, sem til skipasmíðanna þarf. Til þess að leiðrétta þetta eru til fleiri leiðir en farið er fram á í frv. þessu, t. d. mætti lögleiða toll af smíðuðum skipum og bátum, en við flm. frv. höfum ekki álitið rétt að fara þá leið, heldur hina, að undanþiggja efnivörurnar innflutningstolli. Hér getur ekki verið um mikla upphæð að ræða og því ekki heldur um mikinn tekjumissi fyrir ríkissjóðinn. En tilslökun þessi myndi bæta aðstöðu þeirra manna, sem atvinnu hafa af skipa- og bátasmíði.

Skal ég svo ekki orðlengja frekar um þetta, en óska málinu vísað til fjhn.umr. lokinni.