04.03.1932
Efri deild: 20. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1050 í B-deild Alþingistíðinda. (635)

9. mál, brúargerðir

Frsm. (Páll Hermannsson):

Það er nú rúmur áratugur síðan sett voru lög um brúargerðir, en það var, eins og kunnugt er, gert árið 1919. Breyt. á þeim 1. voru gerðar árið 1925. Eftir 1. frá 1919 og breyt. frá 1925 voru taldar upp um 70 brýr á þjóðvegum landsins, sem ætlazt var til, að yrðu byggðar, þegar ástæður leyfðu, næstu árin á eftir. Nú er svo komið, að af þessum 68 brúm, sem l. náðu til, er búið að reisa rétt um 60 brýr. En á sama tíma hafa verið byggðar um 40 brýr á öðrum vegum. Mönnum kemur saman um, að brúarl. frá 1919 hafi reynzt svo vel, að þau hafi átt mikinn hátt í hinum miklu framkvæmdum, sem orðið hafa á þessu sviði síðan þau voru sett. Og það ár svo á það er litið, að verkefni þau, sem l. lögðu fyrir, mega nú heita tæmd, þar sem ekki eru nema aðeins örfáar brýr eftir óbyggðar af þeim brúm, sem þau gerðu ráð fyrir, þá er það ljóst, að nú muni vera orðin þörf á nýjum brúarlögum.

Ríkisstj. lagði því fyrir vetrarþingið 1931 frv. til brúarl., sem vegamálastjóri hafði undirbúið og, að ég held, samið. Það var samþ. í þessari hv. d. alveg óbreytt, en dagaði uppi í hv. Nd. Aftur á sumarþinginu var samskonar frv. lagt fyrir þessa hv. d. Það náði þá einnig samþ. hér, en með allmiklum breyt., sem allar miðuðu að því að fjölga brúm á þeim ám, sem nefndar voru í frv., og bæta nýjum við. En það fór eins um frv. á sumarþinginu, að það dagaði uppi í hv. Nd.

Ég veit, að það þarf ekki langar umr. um þetta frv. hér í hv. d., það er hv. dm. svo kunnugt. Það má heita, að frv. sé að mestu leyti eins og Ed. gekk frá því á sumarþinginu, aðeins fáeinum brúm sleppt af þeim, sem þá komust inn, sumum af því, að þær eru þegar reistar, en öðrum af því, að svo er litið á, að aðrar ástæður séu þess valdandi, að þær geti ekki komið inn í þetta frv. nú.

Þetta frv. gerir þó ráð fyrir einni breyt. frá því sem verið hefir í frv. á undanförnum þingum og í þeim l., sem gilt hafa um brúargerðir áður. Og breyt. er sú, að frv. ætlast til, að tillag ríkissjóðs hækki til þeirra brúa á sýsluvegum, sem eru dýrari en 8 þús. kr. Áður hefir þessu verið hagað svo, að tillag ríkisins hefir verið 2/3 til byggingar á stærri brúm á sýsluvegum, og ætlast frv. til, að það haldist óbreytt um brýr, sem ekki fara fram úr 8 þús. kr., en svo á eftir frv. tillag ríkisins að fara stighækkandi úr 2/3 upp í 3/4, og gildir það um brýr, sem kosta frá 8–16 þús. kr., en framlag ríkisins verður 3/4 til brúa, sem kosta 16 þús. kr. eða meira, á sýsluvegum.

Samgmn. hefir íhugað þetta frv. og fallizt a, að d. samþ. frv. óbreytt. Þó stendur svo á um einn nm., hv. þm. Snæf., að hann flytur dálitla brtt. við frv. og fer fram á, að bætt verði við 2 brúm, og hefir hann látið þess getið, að fylgi sitt við frv. gæti farið eftir því, hvernig hv. d. tæki í hans brtt. Hér liggur líka frammi önnur brtt., frá hv. 2. þm. Árn. Ég sé ekki ástæðu til að tala um þessar brtt. fyrr en eftir að flm. hafa mælt fyrir þeim. Ég held ég minnist þá ekki á fleira. En ég vil leggja til fyrir hönd meiri hl. samgmn. að hv. d. samþ. frv. óbreytt.