04.03.1932
Efri deild: 20. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1052 í B-deild Alþingistíðinda. (636)

9. mál, brúargerðir

Halldór Steinsson:

Eins og kunnugt er, flutti hæstv. stj. á síðasta þingi frv. til brúarl. Þetta frv. var lagt hér fram í þessari hv. d., og í samgmn. þessarar hv. d. voru gerðar á því þær breyt., að þær brýr, sem felast í brtt. mínum, skyldu teknar upp í frv., Að öðru leyti kom frv. óbreytt frá n. Þegar svo málið kom til 2. umr. hér í hv. d., komu fram margar brtt. við frv., og voru þær allar samþ. með yfirgnæfandi meiri hluta atkv. dm. Nú leggur hæstv. stj. Þetta frv. aftur fyrir þingið; eru nú teknar upp í það flestallar þær breyt., sem hv. Ed. gerði á frv. á síðasta þingi. En meðal þeirra fáu breyt., sem d. gerði á frv. og ekki eru teknar upp í þetta frv., eru þær 2 ár, sem brtt. mínar fjalla um. Og það er mjög undarlegt, að þeim ám skuli nú vera sleppt, þar sem þær höfðu ekki minna fylgi hér í hv. d. á síðasta þingi en aðrar ár, sem bætt var inn í frv. þá og nú hafa verið teknar upp í það. Og þetta er því undarlegra, þar sem þetta voru einu arnar, sem teknar voru upp í till. n. og hún lagði til, að samþ. væru hér í hv. d.

Ég þarf ekki að taka hér fram mörg rök fyrir þessum brtt. mínum. Ég vil aðeins geta þess, að þessar ár liggja í fjölfarinni sveit og að það er kominn á bifreiðaakstur um sveitina. En aðaltorfærurnar fyrir þann bifreiðaakstur eru þessar ár, og þó sérstaklega önnur þeirra. Það er nú farið í bifreiðum sunnan af Mýrum og alla leið til Ólafsvíkur, en á þeirri leið eru þessar ár, og þó sérstaklega Vatnsholtsá, oft farartálmi, bifreiðar hafa stundum orðið að snúa aftur við hana, en stundum setið fastar í henni. þegar svo eins stendur á og hér og tillit er tekið til þess, að vegurinn um Staðarsveit verður bráðum tekinn upp í þjóðvegatölu, og að það er aðeins tímaspursmál, hvenær það verður gert, þá virðist sanngjarnt, að ríkissjóður kosti brúarbyggingar á þeim vegi. Eins og kunnugt er, hefi ég flutt brtt. um það á síðustu þingum að taka veginn um Staðarsveit í þjóðvegatölu, og þær till. væru fyrir löngu teknar til greina, ef ekki hefði alltaf verið þessi reipdráttur og hreppapólitík um vegamálin hér á hv. Alþingi. Till. um þetta hefir alltaf fengið góðar undirtektir í báðum d., en alltaf strandað á því, að það hafa komið svo margar till. úr öllum sýslum, nærri því að segja öllum hreppum landsins, um að taka vegi upp í þjóðvegatölu, að menn hafa ekki séð sér fært að afgr. málið í heild. En það verður ekki langt þangað til þessi vegur verður tekinn í þjóðvegatölu. Þess vegna mælir öll sanngirni með því, að þessar brýr verði teknar upp í frv. nú eins og á sumarþinginu.