15.03.1932
Efri deild: 29. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1090 í B-deild Alþingistíðinda. (700)

10. mál, Brunabótafélag Íslands

Einar Árnason:

Mér þykir frumkoma hv. 1. landsk. í þessu máli næsta undarleg. Það mun nú vera fullur mánuður síðan frv. Þetta var afgr. til n., og hefir hv. þm. haft málið þar til athugunar allan þann tíma. Nú fyrst kemur hv. þm. fram með það, að frv. sé nú máske tóm endileysa frá upphafi til enda, og vill því stöðva umr. og senda frv. einhverjum sérfræðingi til álita.

Hv. 1. landsk. segist sjálfur enginn sérfræðingur vera á sviði tryggingarmálanna og kveður sig ekkert vit hafa á þessu. Er það vafalaust rétt og mér dettur ekki í hug að heimta slíka þekkingu af honum. En þetta er hv. þm. engin afsökun fyrir framkomu sinni í málinu. Hann er, eins og ég gat um, búinn að hafa heilan mánuð til athugunar á frv. Og frv. er samið fyrir 2–3 árum. Það hefir legið fyrir Nd. og n. þar haft það til athugunar. Og nú fyrst, tveim árum eftir að frv. er samið, og mánuði eftir að það kemur til n., sem hv. 1. landsk. á sæti í, kemur það fyrst upp úr kafinu, að frv. sé tóm endileysa og geti verið hættulegt í mikilsverðum atriðum. Ég segi eins og hv. 1. landsk., að ég hefi ekki sérþekkingu á þessum málum. — En ég taldi mig mega treysta því, að forstjóri brunabótafél. hefði sett sig inn í þessi mál. Og það veit ég, að hann hefir gert. Hann hefir lagt mikla vinnu í frv. og leitað álits margra manna um það. Og ég hugði, að hann myndi kunna að meta áhættuna, þar sem brunabótafélagið er búið að starfa lengi og því fengizt mikil reynsla um, hver áhætta fylgir tryggingunum.

Mér þykir skaði, ef þessi aðferð, að fara nú að fresta umr., verður til þess að stöðva framgang málsins á þessu þingi. Frv. Þetta stefnir áreiðanlega í rétta átt og er sjálfstæðismál fyrir okkur Íslendinga, hvað sem hv. 1. landsk. segir. Það er áreiðanlega horfandi í það fyrir okkur, hvort við greiðum meiri eða minni fjárhæðir til útlendra tryggingarfélaga. Þeir peningar, sem á þann hátt eru greiddir út úr landinu fram yfir það, sem þörf er á, koma aldrei aftur. Er því nauðsyn vegna þess og annara ákvæða frv. að koma þessum málum í lag sem fyrst. Ég stóð ekki upp til annars en þess að láta í ljós undrun mína og óánægju yfir því, að hv. 1. landsk. skyldi ekki nota þann mánaðartíma, sem n. hefir haft málið til athugunar, til þess að leita sér upplýsinga um málið, sem hann þá hefði getað byggt á álit sitt og borið það og brtt. sínar fram við þessa umr., í stað þess að vilja nú tefja fyrir málinu með því að fresta umr.