19.02.1932
Efri deild: 5. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (734)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Jón Baldvinsson:

Á nokkrum þingum fyrir 1928 báru fulltrúar Alþýðuflokksins hér á Alþingi fram frv. um einkasölu ríkisins á síld, en frv. Þetta komst aldrei svo langt, að það næði samþykki.

Hinsvegar var á þinginu 1926 samþ. heimild fyrir síldareigendur til þess að stofna með sér einkasölu, en sú heimild kom ekki til framkvæmda. En 1928 flutti ég enn í þessari hv. d. frv. okkar jafnaðarmanna um ríkiseinkasölu, er náði ekki samþykki, en svo var aftur flutt frv. af hv. 2. þm. S.-M. og hv. þm. Ak. í breyttu formi, og varð það að lögum. Mismunurinn á frv. var ekki svo ýkjamikill, en þó verulegur að forminu til, þar sem í mínu frv. var lagt til, að ríkið ætti einkasöluna og ríkistj. skipaði stjórn hennar, en eftir frv. flm. áttu stofnanir utan þings að mynda stjórn fyrirtækisins. Einnig gerði mitt frv. ráð fyrir, að stjórnin hefði aðeins umboð til þess að selja síld fyrir síldarframleiðendur. Gert var ráð fyrir síldarbræðslu einnig í sambandi við einkasöluna. þegar umrætt frv. varð að lögum 1928, lét ég í ljós það álit mitt, að ég væri ekki ánægður með það, en af því að ekki virtust líkur til þess, að annað næði fram að ganga, þótti okkur Alþýðuflokksmönnum rétt að spilla málinu með því að fella frv., þó að við álitum það óhentugra og ófullkomnara en frv. Alþýðuflokksins er ég þá flutti. Síðan hafa þessi lög verið aukin, einkum með meiri heimild fyrir ríkisstj. til að grípa inn í atvinnureksturinn.

Ég ætla ekki að rekja nánar sögu þessa máls; hún hefir hér verið sögð í stórum dráttum, en síðastl. haust gefur svo ríkisstj. út bráðabirgðalög um afnám einkasölunnar og skilameðferð á búi hennar. Með þeim hefst lokaþáttur þeirrar sorglegu sögu þess fyrirtækis, er verða skyldi til bjargar þeim atvinnuvegi, sem nú er aftur fallinn í sama ófremdarástandið og hann var áður í. Það má með sanni segja, að fyrir daga einkasölunnar þótti síldarútvegurinn lélegur og áhættusamur atvinnuvegur og verri en eftir að einkasalan tók til starfa. Að vísu verður því ekki neitað, að illa leit út síðastliðið ár með afkomu einkasölunnar, sem e. t. v. hefir verið að nokkru leyti að kenna rýmkun veiðileyfis á síðasta sumri. Það er auðséð mál, þegar á það er litið, hve þröngur síldarmarkaðurinn er og einnig það, að utan landhelginnar er alltaf veitt mikið af síld, sem keppir við íslenzku síldina á markaðinum, þá muni það hjálpa til að lækka verð síldarinnar, er skilyrði eru gefin fyrir því, að framleiðslan sé aukin. Ég skal játa það, að ég er ekki fremur en hæstv. atvmrh. kunnugur hag eða rekstri Síldareinkasölunnar til neinnar hlítar, þótt ég þykist sjá, að form það, er ég hefi áður stungið upp á, hefði verið hentugra en það, sem varð að lögum. Og ég hefi fylgzt með því, sem um þetta mál hefir verið rætt af fróðari mönnum um það efni. Einn þeirra manna er Böðvar Bjarkan lögmaður, sem stjórnarblaðið Tíminn hældi mikið fyrir að eiga frumuppástungu að úrlausn síldarmálsins, og sem hefir verið trúnaðarmaður stjórnarinnar í þessum efnum. Það lítur út fyrir, að þegar skipuð er skilanefnd í búi einkasölunnar, hafi ekki verið leitað ráða til þessa manns, og hefði þó verið eðlilegt að ætla, að stjórnin leitaði til sinna trúnaðarmanna fremur en annara, eða þá að hún hefir ekki séð sér fært að fara eftir tillögum hans. Böðvar Bjarkan hefir gert grein fyrir skoðun sinni á starfi og hag Síldareinkasölunnar í stjórnarblaðinu Tímanum í síðastl. mán. Ég ætla ekki að rekja efni þessarar greinar, heldur aðeins lesa hér, með leyfi hæstv. forseta, ályktunarorð höfundar, þess manns, er látið hefir sig mál þetta svo miklu skipta, frá því löngu áður en almennt var farið að taka það til athugunar, og setið hefir í stjórn Síldareinkasölunnar síðan hún var stofnuð, og einnig vegna búsetu sinnar hefir betri aðstöðu en við, hæstv. atvmr. og ég, til þess að vera gagnkunnugur þessum efnum. Niðurlagsorð greinar hans eru á þessa leið:

„Eins og þá stóð, þegar fulltrúafundurinn í Reykjavík veittist að einkasölunni, var ekki kominn fram í henni neinn banvænn sjúkdómur, og fjárhag hennar alls ekki svo komið, að það eitt út af fyrir sig þyrfti að leiða til hins sviplega dauðsfalls hennar. Það er kallað eðlilegur dauðdagi, er menn deyja kristilega og skaplega af völdum sjúkdóma, en hitt voveiflegt, þegar orsökin er hastarlegt slys eða árásir hatursmanna og ofbeldis valda skjótum dauða þess, sem veitzt er að. Eftir þessari skilgreiningu mismunandi tegunda dauðsfalla, má óhætt fullyrða, að Síldareinkasala Íslands hefir dáið voveiflegum dauða“.

það kemur allskýrt fram í þessum niðurlagsorðum þess manns, sem talinn er einna gagnkunnugastur hag Síldareinkasölunnar, að hann álítur, að enginn banvænn sjúkdómur hafi verið fram kominn í henni né fjárhag hennar svo illa komið, að það þyrfti að leiða til þeirra afdrifa, er einkasölunni eru nú búin. En það lítur ekki út fyrir, að stjórnin hafi leitað ráða til þessa manns.

Það kom fram í ræðu hæstv. forsrh. sem ein af ástæðunum fyrir afnámi Síldareinkasölunnar, að stjórnarkosning á síðasta aðalfundi hennar hefði farið í bága við vilja þingsins í þessu efni. Þessi orð þýða það, að kosnir voru í stjórnina tómir Alþýðuflokksmenn, og það var frá sjónarmiði ráðh. mjög sterk ástæða til þess að leysa upp einkasöluna.

Frá mínu sjónarmiði fór því kosning stjórnarnefndar einkasölunnar fram á þann hátt, sem þingið ætlaðist til, þannig að sjómenn og útgerðarmenn skipuðu sína tvo fulltrúana hvor aðili, en stjórnin einn fulltrúann. Ég fæ ekki séð né skilið, að hæstv. forsrh. geti neitt fundið að því, þótt útgerðarmennirnir norðlenzku og vestfirzku kysu Alþýðuflokksmann sem fulltrúa sinn. Það gerðu þeir vitanlega af því, að þeir hafa treyst honum betur en öðrum. Vilji þingsins er eigi á neinn hátt brotinn á bak aftur með því. Kosninguna var vitanlega ekki hægt að binda við neinn ákveðinn stjórnmálaflokk og slíkt var ekki heldur ætlun þingsins. Þetta er því engin ástæða, sem takandi er til greina. Hitt mun sönnu nær, að hæstv. forsrh. sé búinn að fá svo mikla æfingu í að „rjúfa“, að hann grípi jafnan til þess úrræðis, ef þing eða stofnanir verða á móti honum á einhvern hátt. — Mér þótti rétt að sýna rækilega fram á, hve einskisverð þessi ástæða hæstv. forsrh. er, af því mér virtist hann leggja töluvert upp úr henni.

Svo var að heyra af orðum hæstv. forsrh., að stj. mundi ekkert bera fram í þessu máli annað en þetta frv. Það er því svo að skilja, að hennar vegna munu skiptin á búi Sídareinkasölunnar ganga sinn gang. Að vísu mætti vera, að aðrir flokkar vildu flytja eitthvert frv. um þetta efni, en ef stj. og flokkur hennar verður á móti, nær það ekki að ganga fram. Það þýðir þá, að það fyrirkomulag, sem var, fellur niður, án þess að nokkuð annað komi í staðinn. Og þótt fyrirkomulag einkasölunnar kunni að hafa verið talsvert gallað, sem það að vísu var, þá hygg ég þó ófært, að ekkert komi í staðinn, sem tryggt geti þennan atvinnuveg.

Ef trúa má orðum Böðvars Bjarkan á Akureyri, sem vitanlega er þessum atvinnuvegi vel kunnugur, þá verður það ljóst, að hæstv. forsrh., sem játar, að hann sé ekki þessum málum sérlega kunnugur, hefir í máli þessu látið undan hatursfullum árásum þeirra manna, er áður létu mest á sér bera í þessum atvinnurekstri, sem þó jafnan fór þeim illa úr hendi. Verkafólk á sjó og landi bar jafnan lítið úr býtum frá hendi þessara manna, sem oftast voru leppar útlendinga.

Það er eðlilegt, þótt sorglegt sé, hve sjómenn báru lítið úr býtum í sumar og enda útgerðarmenn líka. Orsökin til þess liggur í því, að miklu meira var saltað en markaðurinn þoldi. En slíkan ágalla mátti laga síðar, og er ólíklegt, að stj. Síldareinkasölunnar hefði brennt sig á sama soðinu aftur. Hvort síld sú, er einkasalan á nú, er verðlaus sem útflutningsvara, er ég ekki vel kunnugur. Ég veit að vísu, að erfitt er að selja nú. Þess vegna liggur líka mikil síld óseld, sem sýnir, að of mikið var saltað.

Ég vildi leyfa mér að beina einni spurningu til hæstv. forsrh. út af umkvörtun síldareigenda á Akureyri, þeirra, sem millisíld áttu. Þeir munu hafi snúið sér til ríkisstj. og ekki fengið fullkomin svör. Í erindi sínu frá 14. des. f. á. telja þeir réttlátt og gera kröfu um, að þeir fái greitt andvirði fyrir þá tegund síldar og telja, að því hafi jafnan verið haldið sérstöku hjá einkasölunni. Hvað hefir hæstv. stj. gert í þessu máli? Hefir hún gefið fullnaðarúrskurð í því — Í bráðabirgðal. um afnám Síldareinkasölunnar er að vísu ákvæði um, að sú síld, sem veidd er eftir 15. nóv., falli ekki undir ákvæði laganna, en sú síld, sem hér um ræðir, mun hafa verið veidd áður. Ef svo er, að millisíld hefir ávallt áður verið talin standa utan verksviðs síldareinkasölunnar, þá mælir öll sanngirni með, að svo verði gert enn. Er því þess að vænta, að vel verði tekið í kröfur þessara manna um skiptingu verðs. — ég er ekki við því búinn nú að flytja till. út af þessu og vil fyrst heyra, hvernig hæstv. stj. hefir afgreitt þetta mál.

Ég get ekki annað en verið óánægður við hæstv. stj. út af afnámi Síldareinkasölunnar. Styrkist sú óánægja mín líka við álit Böðvars Bjarkans, sem er þessu máli manna kunnugastur, bæði frá fornu fari og sem trúnaðarmaður ríkisstj. í stjórn einkasölunnar. Álit hans, eins og ég hefi þegar getið um, var það, að hagur einkasölunnar hefði eigi verið svo aumur, að ástæða væri að grípa til slíkra örþrifaráða. Hin ástæðan er alveg fráleit, sú, að kosning í stjórn einkasölunnar hafi eigi farið eftir þeim reglum, er þingið setti. Fulltrúar Sjálfstæðismanna gátu fengið fulltrúa í stjórn einkasölunnar, en að vísu ekki meiri hluta, og farið eftir fyrirmælum Alþingis. En hitt hefir hvergi verið lögleitt, að fylgismenn tiltekinna flokka ættu að fara með umboð þetta.