18.03.1932
Efri deild: 32. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í B-deild Alþingistíðinda. (756)

11. mál, skiptameðferð á búi Síldareinkasölu Íslands

Jón Baldvinsson:

Hv. 1. þm. Reykv. þykist hafa meira vit á síldarmálum en aðrir í þessari hv. d., a. m. k. finnst honum, að hann hafi allt fram yfir mig í heim málum.

Það er alveg víst, að þótt við veiðum árl. 300–400 þús. tunnur síldar, getum við ekki selt nema mjög takmarkað. Síldarframleiðslan eykst ár frá ári. Nýir markaðir hafa ekki opnazt að sama skapi; þvert á móti. Síldveiðar eru stundaðar víðar en hér við land. Samtímis okkar framleiðslu koma á markaðinn milljónir síldartunna frá öðrum löndum. Það er því takmarkað, sem við getum selt af þessari voru, e. t. v. tæpar 150 þús. tunnur árl. Þegar veiðarnar hér eru algerlega frjálsar, eru engin takmörk fyrir því, hve mikið má afla. En birgðirnar, sem þá safnast fyrir, liggja óseldar, og framboðið verður svo mikið, að síldin fellur stórkostlega í verði. Hin stórkostlegu söltunarleyfi voru höfuðsynd Síldareinkasölunnar á síðasta sumri. Það má koma í veg fyrir þetta, en það er ómögulegt, ef allt á að vera komið undir framtaki einstaklingsins, eins og hv. 1. þm. Reykv. vildi vera láta. Því miður er að fara eins um annan aðalatvinnuveg okkan, þorskveiðarnar. Það er líka að verða of mikið af þeirri vöruteg. Það er eins og með framleiðslu viðast hvar um heim. Kaffi er brennt í Brasilíu og hveiti í Ameríku, af því að ekki svarar kostnaði að flytja það í hús. Má vel vera, að að því reki, að við neyðumst til að moka fiskinum í sjóinn, og vist er um það, að stundum hefði borgað sig betur að kasta fiskinum aftur en að hirða hann. Árið 1930 hefir sennilega kostað um 100 kr. hvert skp. af fullverkuðum fiski í Vestmannaeyjum, þótt ekki fengjust nema 40–50 kr. fyrir það. Þannig fer það e. t. v. einnig með síldina frá seinasta sumri. Og oft hefir áður legið við, að moka yrði síld í sjóinn sökum söluörðugleika. Það skal játað, að í fyrra mistókst síldareinkasölunni að koma í veg fyrir þetta, en með einkasölu er það hægt, en á engan hátt, sé verzlunin gefin frjáls. Þetta veit hv. þm., og jafnvel þeir, sem ekki eru málinu eins kunnugir og hann.

Ég ætla að lofa hv. þm. að lifa í þeirri trú, að allir flokkar víðsvegar um heim séu nú að ganga inn á stefnuskrá „frjálslyndu“ flokkanna, en ekki munu margir taka undir það með honum. Sannleikurinn er sá, að þeir eru gersamlega að hverfa úr sögunni og ganga nú ýmist inn í jafnaðarmannaflokkana eða íhaldsflokkana. Þetta er staððreyndin viðast hvar í heiminum. Má glöggt sjá það af atkv.magni þeirra við kosningar og þingmannatölu þeirra, að þeim fer mjög fækkandi. Ég skal ekki deila meira að sinni við hv. þm. um þetta atr., en lofa honum að lifa í sinni sælu trú.