29.03.1932
Efri deild: 37. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (853)

17. mál, bygging fyrir Háskóla Íslands

Dómsmrh. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Hv. 1. þm. Reykv. er það ósköp vel kunnugt, að hvorki hann sjálfur né blað það, er hann hefir yfir að ráða, hafa gert nokkuð til þess að ýta þessu háskólamáli áfram. Og nú ber svo undarlega við, þegar samherjar hans hér á þingi hafa samþ. þetta frv. í 2 ár, þá kemur þessi nýi maður, sem átti að verða til þess að bæta flokkinn, og vill helzt, að málið verði eyðilagt með rökst. dagskrá. Ég hefi lesið blað þessa hv. þm. annað slagið undanfarin ár, og ég minnist þess ekki að hafa séð þessu máli hreyft. En það er álíka gáfulegt af honum að vilja nú eyðileggja þetta mál með rökst. dagskrá eins og ef fellt hefði verið frv. um landsspítalabyggingu á þinginu 1919 eða tafið með slíkri dagskrá. En slík mál sem þessi, þurfa mikinn og góðan undirbúning.

Hv. þm. langar ekkert til, að þetta mál verði leyst á viðunandi hátt, og honum er sama, þó háskólinn sé hér áfram í þessum húsakynnum með götóttum gólfdúkum, þar sem nemendurnir hafa hvergi afdrep til að koma saman, nema í innganginum — ég býst við, að honum þyki þetta gott. Um 3. gr. er það að segja, að hv. þm. ætti að geta séð, að það er eins um háskólann og annað, að það kemur tvennt til greina við húsabyggingar; annað er húsið sjálft, eins og það er gert af mannahöndum, og hitt er lóðin. Eftir að þetta frv. hefir verið samþ., ætla ég, að það kæmi „plan“ fyrir háskólabygginguna, og þessi tegund byggingarinnar, heimavistarhúsið, bíði þá sinnar stundar. Það er líka annað, sem ég býst ekki við, að hv. þm. hafi hugsað um, enda er það langt frá hans verkahring, að eins og ég hefi sagt um ákvæði í 3. gr., þar sem ætlazt er til að reisa heimavist fyrir kennaraefni á heim hluta lóðarinnar, sem ætlaður verður fyrir sjálfsagðar smábyggingar, þá er þetta í byrjun til þess að hægt sé að benda á, að taka eigi upp kennslu í uppeldisvísindum við Háskóla Íslands. Bak við þessa bending liggur ákveðin hugsun, sti, að uppeldisfræði sé ekki ómerkilegri en önnur vísindi, t. d. lögfræði eða málfræði. En ég afsaka hv. þm., þó hann ekki skilji þetta, því hann er bæi áhugalítill og þekkingarlítill í þessu máli. Og þar sem saman fer þekking hans og áhugi í málinu, þá vil ég, að hann sýni það með atkv. sínu, að hann sé á móti því.