12.03.1932
Efri deild: 27. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (896)

21. mál, geðveikrahæli

Bjarni Snæbjörnsson:

Mér hefði þótt viðkunnanlegra og reyndar alveg sjálfsagt, að hv. allshn. hefði gert einhverjar till. um daggjöldin, því að í lögum þeim, sem hér er verið að nema úr gildi, voru ákvæði um þetta, taxti, og það getur ekki staðizt að nema þau úr gildi, þannig að ekkert komi í staðinn. Ég get þess vegna ekki greitt atkv. með frv. eins og það er úr garði gert, en þó myndi ég í þessu efni hafa látið það nægja, ef hv. n. hefði í umr. látið vilja sinn eða till. koma fram, eða að hæstv. stj. hefði á sama hátt lagt eitthvað til málanna, en þar sem um hvorugt slíkt er að ræða og hér er gengið út í algerða óvissu, hlýt ég sem sagt að greiða atkv. móti frv.