04.04.1932
Neðri deild: 42. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (905)

21. mál, geðveikrahæli

Vilmundur Jónsson:

Viðvíkjandi fyrirspurn þeirri, sem beint hefir verið til mín, vil ég taka það fram, að fyrsta tilefnið til þess, að þetta frv. var flutt, var það, að nauðsyn þótti til, að daggjöld beggja spítalanna á Kleppi yrðu samræmd. Í grg. frv., sem er samin af mér, er um þetta sagt á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Liggur fyrir að samræma daggjöldin á báðum spítölunum, og er engin ástæða til að hafa þau mishá eftir því á hvorum þeirra menn eru vistaðir. En hitt gæti verið nauðsyn, að hafa sérstaklega lag daggjöld fyrir þá, sem sýnt er um, er þeir hafa verið um stund á spítalanum, að eru með ólæknandi sjúkdóm og líklegir til að liggja þar árum saman“.

Ég býst við, að ef frv. verður samþ. og þó ekkert verði frekara gert, þá verði tilhögunin þannig — eða a. m. k. er það mín meining —, að fyrir þá sjúklinga, sem þar eru og ólæknandi virðast, verði krafizt mjög lágra daggjalda, ekki meira en 1,50 á dag. Þessa er ekki hvað sízt þörf fyrir þá hreppa, sem verða að kosta á þessum spítölum fleiri en einn sjúkling í einu, og rísa þeir yfirleitt ekki undir hærri daggjöldum. Að þessu vil ég fyrir mitt leyti vinna.

Aftast í grg. frv. er tekið fram, að nauðsyn geti verið á því að setja heildarlöggjöf um öll sjúkrahús landsins. Á öðrum lögum er einnig mjög mikil nauðsyn, en það eru sérstök geðveikralög, þar sem ákveðin yrði réttarstaða geðveikra manna, svo og skyldur og réttindi þjóðfélagsins gagnvart þeim. Ég þori ekki að lofa því, en mig langar til að undirbúa lög um bæði þessi efni, ef ekki fyrir næsta þing, þá hið næstnæsta.

Ef það hætti tryggilegra mætti flytja þáltill. um sanngjarna upphæð daggjalda þurfalinga á Kleppi. Mér skilst, að það sé vilji þingsins, bæði efri og neðri deildar, að daggjöld þessara sjúklinga fari ekki fram úr 1,50 á dag, eða verði í báðum deildum eins og þau eru nú á gamla spítalanum. Enda mælir engin sanngirni með því, að þeir, sem verða fyrir því að þurfa að láta sjúkling dvelja fremur á annari deild spítalans en hinni, ef til vill af hending og gegn ósk sinni, borgi fyrir það margfalt gjald.