12.04.1932
Neðri deild: 49. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1305 í B-deild Alþingistíðinda. (921)

21. mál, geðveikrahæli

Pétur Ottesen:

ég þarf ekki að hafa mörg orð út af andmælum hæstv. dómsmrh. Ég hefi áður gert grein fyrir því, hvernig málið horfir við. Hér er um það að ræða að fella niður lagaákvæðið um það, hvað sveitarfélögin eiga að greiða með sjúklingum á Gamla-Kleppi. Hinsvegar hefir reynslan orðið sú um dvalarkostnað sjúklinga á Nýja-Kleppi, að lægsta gjald, sem sveitarfélögin hafa orðið að greiða, er kr. 3,50 á dag fyrir hvern sjúkling, í stað kr. 1,50 á hinum spítalanum, og nemur þessi hækkun 730 kr. á ári fyrir sveitarfélögin. Liggur í augum uppi, hver áhrif þessi hækkun daggjaldanna hefir á afkomu þeirra sveitarfélaga, sem þarna eiga sjúklinga, og sum ef til vill fleiri en einn, og af þessum ástæðum bárum við hv. 1. þm. Árn. fram brtt. okkar, og sömuleiðis hafa þeir hv. þm. Ísaf. og hv. þm. Seyðf. tekið undir þetta með sinni brtt., enda er verið að stefna sveitarfélögunum í bláberan voða fjárhagslega, ef á að fara að færa yfir á þau svona mikinn þunga af hælisdvöl þessara sjúklinga. Ráðsmaðurinn á Nýja-Kleppi hefir og upplýst það í fjvn., að daggjöldin eru þar allt of há, því að það hefir ekki verið hægt að innheimta þessar upphæðir hjá sveitarfélögunum, og taldi hann því nauðsynlegt að breyta þessu. Virðist sjálfsagt að byggja á þessari reynslu ráðsmannsins, sem gerst veit um það, hvernig gengið hefir að innheimta þessi þau meðlög, auk þess sem það er nauðsynlegt að tryggja það áfram með lögum, að sveitarfélögin verði ekki verr úti en þau hafa orðið undanfarin ár. Og þegar litið er til þess, að meðlag sveitarfélaganna er 547,50 kr. á ári með sjúklingum á Gamla-Kleppi, þar sem þó daggjaldið er ekki nema 1,50 á dag, en hámarkið hinsvegar 400 kr. um aðra sjúklinga, sem sveitarfélögin eiga fyrir að sjá á almennum sjúkrahúsum, skv. 66. gr. fátækralaganna, verður ekki sagt, að verið sé að ganga á ríkissjóinn með brtt. okkar, því að með þeim er einmitt skemmra gengið í þessu efni en er um aðra sjúklinga. — Hv. 2. þm. Skagf. benti á það, að ef til vill væri réttast að láta þessi ákvæði 66. gr. fátækralaganna einnig ná til geðveiku sjúklinganna, og eins og hv. þm. Ísaf. tók fram, var þetta líka tekið til athugunar, er við sömdum brtt., en að þessi leið fremur var farin, var eingöngu gert vegna ríkissjóðs, eins og hv. þm. Ísaf. einnig tók fram, og okkur þótti eftir atvikum nógu langt gengið, ef það væri tryggt, að sveitarfélögin yrðu ekki verr úti en þau hafa orðið til þessa. Ég held því enn, að rétt sé að samþ. þessa brtt., enda verður hér ekki nema um bráðabirgðákvæði að ræða, þar til sett verða sérstök geðveikralög, en þegar að því kemur, að sett verði almenn löggjöf í þessu efni, mætti fella það inn í þau endanlegu lög, að ákvæði 66. gr. fátækralaganna skuli einnig ná til þessara sjúklinga.