16.04.1932
Neðri deild: 53. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

1. mál, fjárlög 1933

Pétur Ottesen:

Ég á ásamt hv. 2. þm. Skagf. fjórar brtt. við fjárlagafrv. nú við þessa umr. Við höfum ekki sett við þessar till., að þær væru frá minni hl. fjvn., en þær eru þó allar um atriði, sem ágreiningur varð um í n., þannig að meiri hl. var þeim andvígur. Allar þessar till. eru um niðurfærslu á gjaldaliðum, og mundi lækkunin nema, ef allar till. yrðu samþ., um 100 þús. kr., eða nánar tiltekið 103 þús. kr.

Fyrsta till., sem við flytjum, er niðurfærsla á gjöldum til toll- og löggæzlu. Samkv. lögum frá 1930 eru nú í fjárlfrv. áætluð 70 þús. kr. útgjöld í þessu augnamiði, og ég skal taka það fram, að þessi upphæð er að öllu leyti viðbót við það, sem veitt er til toll- og löggæzlu í landinu samkv. lögum frá 1917. Ég verð að segja það sem okkar skoðun, að þótt þessar 70 þús. kr. yrðu lækkaðar niður í 30 hús., eins og við förum fram á, þá er ekki annað hægt að sjá en að mjög sé sómasamlega séð fyrir þessum hlutum. Ég geri ráð fyrir því, að bent verði á, að af þessari lækkun leiði of mikla skerðingu á þeim starfskröftum, sem að þessu vinna, einkum hér í Reykjavík. Ég vil í því sambandi benda á það, að til skamms tíma, eða til ársins 1929, tóku lögregluþjónar Reykjavíkur drjúgan þátt í tolleftirlitinu hér, jafnframt lögreglueftirliti á götum bæjarins. Þá munu lögregluþjónar bæjarins þó ekki hafa verið fleiri en 14, en síðan hefir þeim verið fjölgað um helming, eða upp í 28. Ég held að það sé hin mesta óhagsýni í því að nota ekki starfskrafta lögregluþjóna bæjarins að einhverju leyti við tolleftirlitið; þetta fellur að ýmsu leyti mjög vel saman við hið eiginlega starf þeirra, lögreglueftirlitið. Það er því ærin ástæða til eins og nú er erfitt með allar greiðslur, og svo líka með hliðsjón af því, hvað lögreglulið bæjarins er nú fjölmennt orðið, að hagnýta nú starf þessara manna við tollgæzluna eins og áður var, og draga þar með verulega úr þeim útgjöldum, sem af tolleftirlitinu leiðir fyrir ríkissjóð. það er með þetta fyrir augum, sem við álitum fært að lækka þessi útgjöld eins og brtt. okkar hendir til. Með þessu mætti spara allt að 40 þús. kr. á ári. Nú er ástandið svo, að fjvn. hefir orðið að grípa til ýmissa ráða, til þess að draga úr útgjöldum ríkissjóðs, enda er sú nauðsyn nú svo brýn, að fram hjá henni verður ekki komizt, svo framarlega sem nokkur tiltök eiga að vera á því, að halda búskap ríkissjóðsins á réttum kili. Að öðrum kosti er stefnt að því, að ríkissjóður geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Þegar svona stendur á, verður að grípa til hinn ýtrustu ráða, eins og till fjvn. að ýmsu leyti ber með sér.

þá er önnur brtt., sem við berum fram við 13. gr., og er um áætlaðan rekstrarhalla á strandferðaskipum ríkisins. Í frv. er gert ráð fyrir því, að hann verði 256600 kr., en þar af er fyrning 31600 kr. Eftir því, sem fyrir liggur, þá er ekki hægt annað að sjá en að gert sé ráð fyrir, að bæði skipin verði höfð í förum. Sé það tilætlunin, er það bert, að þessi áætlun er langt um of lág. Má í því sambandi benda á, að á síðastliðnu ári nam rekstrarhallinn á öðru strandferðaskipanna, því sem þó gaf stærri raun, þessari upphæð. Horfur arsins 1933 eru hinsvegar þær, að það eru litlar líkur til að rekstur skipanna beri sig betur en á síðastl. ári. Við höfum því gert till. um að lækka þennan lið um 25 þús. kr., og gerum jafnframt ráð fyrir því, að ekki sé haft nema eitt skip í förum. Er áætlunin miðuð við það, að minni rekstrarhalli verði hlutfallslega í þessari útgerð, þegar ríkið hefir ekki nema eitt skip í förum. Það má í þessu sambandi benda á það, að þegar litið er til þess gífurlega mikla rekstrarhalla, sem hefir orðið á strandferðum ríkisins og líka í strandsigling um Eimskipafélags Íslands, sem stafar af því, hvað skipin hafa haft lítið að flytja, að það var ekki heppileg ráðstöfun, þegar ríkisstjórnin keypti annað skip til strandferðanna fyrir nokkrum árum. Það hefir sýnt sig, að andmæli þau, sem þá komu gegn því, voru á fullum rökum byggð. Ég hygg, að þetta, sem við leggjum til, sé forsvaranleg áætlun um rekstrarhalla eins skips, en heldur ekki meira, ef miðað er við rekstrarhalla síðari ára.

Þriðja brtt. okkar er við 15. gr., um að ferðastyrkur til útlanda falli niður. Það er nú svo, að ef reyna á að jafna fjárl., þá verður margt að skera við neglur sér. Ég get ekki séð, að það sé neitt stór skaði skeður, þótt liður þessi falli niður í bili, eða meðan jafn erfitt árferði er og nú. Og það er alveg í samræmi við það, sem d. hefir gert. að fella niður styrk til utanferða héraðslækna. Það má kannske segja, að utanferðir þessar séu þarfar og rétt sé að veita fé til þeirra, þegar hægt er um vik. En þegar skera þarf niður fjárframlög til þarflegra hluta, svo mjög sem nú er gert, þá hygg ég, að alveg sé forsvaranlegt að spara þennan lið.

Fjórða brtt., sem ég flyt ásamt hv. 2. þm. Skagf., er við 14. lið 16. gr. frv. sá liður hljóðar um, að veittar verði 35 þús. kr. til landmælinga. Við leggjum til, að liðurinn falli niður. Áður en sambandslögin gengu í gildi höfðu Danir fengizt við landmælingar hér um nokkur ár. Þessi starfsemi þeirra féll svo niður, eins og eðlilegt var, þegar sambandslögin gengu í gildi. Nú var fyrir nokkru samið svo um, að þessi starfsemi var hafin aftur, og hefir, að ég hygg, staðið 2–3 sumur, og hefir til þess verið veitt fé í fjárlögum. Er og upphæð veitt í þessu augnamiði í fjárl. þessa árs. Er svo til ætlazt eftir þeim samningum, sem gerðir hafa verið um framkvæmd mælinganna við flotamálaráðið danska, að þessum mælingum verði haldið áfram. En þó nám það ekki vera bindandi, að þessari starfsemi sé haldið áfram óslitið. Mun því ekki vera nein hætta á, að gerð verði skaðabótakrafa, þótt þessi starfsemi verði felld niður um stund. Og með tilliti til ýmissa annara ráða til sparnaðar á fjárframlögum ríkissjóðs, sem grípa verður til á þessu þingi, þá teljum við alveg forsvaranlegt að láta þessa mælingastarfsemi falla niður um stund. Við þá skoðun er þessi till. miðuð.

Ég mun svo ekki segja fleira, nema andmæli, sem ég þarf að svara, komi fram. En að því leyti, sem ég er meðflm. að 3–4 öðrum till., þá mun ég ekki ræða þær sérstaklega, a. m. k. ekki að svo stöddu; það gera 1. flm. þeirra. Ég get því látið máli mínu lokið.