10.05.1932
Sameinað þing: 8. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1333 í B-deild Alþingistíðinda. (982)

22. mál, útvarp og birting veðurfregna

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

ég ætla aðeins að taka undir það með hv. sjútvn. Nd., að það virðist ekki ástæða til þess að sækja það mál fast, að ríkið taki á sig nokkuð af kostnaðinum við að taka á móti og birta veðurskeytin í sjávarþorpum landsins. Það getur varla verið stormál fyrir hinn ágæta kaupstað Norðfjörð og hið mikla þorp Akranes, að fá þarna 50 kr. á ári. Það er vitanlega sjálfsagt að sækja það fast, að þorpin fái veðurskeytin, en hitt held ég að skipti litlu máli, hvort þessar 50 kr. fylgi með. Ríkið leggur það mikið í kostnað við að útvega veðurskeytin, við veðurskráningu og útsendingu skeytanna og allt, sem því til heyrir, að ég tel ekki ósanngjarnt, þó að þeir, sem skeytanna eiga að njóta, þurfi að taka á móti þeim og birta þau á sinn kostnað. (PO: Útsendingu skeytanna borga menn með útvarpsgjaldinu). Ég verð að biðja hv. þm. að afsaka það, að ég heyrði ekki, hvað hann sagði, en það skiptir e. t. v. ekki miklu máli.

Eftir því sem mér skilst, eru það ekki nema örfáir staðir á landinu, sem með frv. eru skyldaðir til að taka á móti veðurfregnunum. Langflestir eru látnir sjálfraðir um, hvort þeir nota sér þær eða ekki.

þetta fimmtíu króna mál ætti ekki að vera neitt stórmál hér í Sþ. Og þótt segja megi, að ríkissjóð munaði ekki mikið um þennan kostnað, þá finnst mér svo eðlilegt, að sveitarfélögin beri hann, að annað komi ekki til greina.