04.04.1933
Neðri deild: 44. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (1073)

16. mál, varnir gegn því að næmir sjúkdómar berist til Íslands

Vilmundur Jónsson:

Mér er kunnugt um, að þetta frv. hefði gengið fram alveg ágreiningslaust, ef einn maður missti ekki nokkuð af tekjum sínum við lögfestingu þess. Það er lítið atriði til að gera úr mikinn ágreining, þegar annarsvegar er um að ræða nauðsynlegar endurbætur á sóttvarnarlögum landsins.

Ég vil fyrst víkja nokkrum orðum að ræðu hv. 3. þm. Reykv. Hann taldi, að ég hefði gert of mikið að því, að endurskoða heilbrigðislöggjöfina. Ég veit ekki betur en að það sé sameiginlegt álit allra þeirra, sem þar á kunna bezt skil, og a. m. k. hefir sú skoðun lengi verið uppi í Læknafélaginu, að löggjöf þessa þyrfti að endurskoða frá rótum. Löggjöfin, sem hér er um að ræða, er um 30 ára gömul, og það er hár aldur á lögum. Það er líka misskilningur hjá þessum hv. þm., að réttara sé að fella nauðsynlegar breytingar inn í yfirgripsmikil gömul lög, með sérstökum lögum, en að semja lagabálkana um og bera þá fram í heilu lagi. Sú aðferð gerir einmitt málin einfaldari og ljósari yfirlits, bæði fyrir löggjafana og síðan fyrir almenning.

Annars minntist hv. 3. þm. Reykv. ekki á neitt, sem hann væri óánægður með í hinni nýju heilbrigðislöggjöf, sem samþ. hefir verið eða er nú á döfinni, nema þá breyt., sem felst í þessu frv., að færa á sóttvarnareftirlitið með aðkomuskipum í sama horf hér og tíðkast hvarvetna í nágrannalöndunum: að tollvörður fari fyrst út í skipin, ábyrgðin hvíli yfirleitt á skipstjóra, en í vafa atriðum öllum sé þó kallað á lækni til rannsókna og úrskurðar.

Þessi skipun var hér á áður og reyndist vel. Hinsvegar hefir eftirlitið samkv. lögum frá 1923 ekki náð tilgangi sínum að neinu leyti betur, en aftur orðið skipunum til verulegra tafa og bakað þeim tilfinnanlegan kostnað að óþörfu.

Hv. 3. þm. Reykv. þótti undarlegt. hve gott samkomulag hefði orðið um frv. hér á þingi. Það er víðar en hér á þinginu, sem gott samkomulag hefir orðið um það. Ég get nefnt einn aðila enn, sem er mér sammála um öll höfuðatriði þess, og það er sjálft Læknafélag Íslands. Hv. þm. minntist á lítilsháttar skoðanamun um læknamálefni á milli mín og Guðm. Hannessonar próf. Þessi skoðanamunur er nú raunar minni en margur hyggur, og kemur a. m. k. þessu máli ekkert við. Um það er enginn skoðanamunur okkar á milli. Ég held m. a. s. að mér sé óhætt að fullyrða, að einmitt próf. Guðm. Hannesson hafi minnzt á það við mig að fyrra bragði, að hann vildi láta afnema læknisskoðunina eins og hún er nú framkvæmd, og víst er um það, að fyrrv. héraðslæknir í Rvík hefir látið þá skoðun í ljós við mig að fyrra bragði. Steingrímur Matthíasson hefir fyrir löngu fordæmt eftirlitið eins og því er fyrir komið samkv. lögunum frá 1923 og kallað það hlægilegt kák. Hefir hann sagt, að ég mætti bera sig fyrir því, að sú skoðun sín væri óbreytt enn. Og fleiri merka lækna gæti ég nefnt, sem líta hér öldungis eins á.

Rétt er, að ég geti þess, að ég hefi ekki skjallega í höndum umsögn Læknafél. um frv. Ég sendi því öll heilbrigðismálafrv. mín, sem liggja fyrir þinginu og hefi fengið umsögn þess um þau öll nema þetta eina frv., sem mun stafa af því, að stjórnin treysti sér ekki til að mæla á móti ákvæðunum um skipaskoðunina, en kunni ekki við að mæla beinlínis með þeim, af því að félagið er starfsmannafélag og frv. snertir einmitt að þessu leyti persónulega hagsmuni eins eða fleiri meðlima þess. Formaður félagsins hefir hinsvegar, eins og ég gat um áður, tjáð mér, að hann væri persónulega samþykkur þessum ákvæðum frv. Þá má geta þess, að læknadeild háskólans hafði frv. til umsagnar. Engin mótmæli bárust þaðan gegn því. Að vísu hliðraði deildin sér hjá að láta í ljós álit sitt um hið umdeilda atriði, skipaskoðunina, með því að um stjórnarfarslegt atriði væri að ræða, en ekki fræðilegt, en persónulega og hver í sínu lagi drógu háskólakennararnir enga dul á, að þeir álitu breytinguna sjálfsagða og á fullum rökum byggða.

Það er fjarstæða að tala um, að öllu lækniseftirliti með aðkomuskipum verði lokið, ef frv. nær samþ. og verður að lögum. Lækni á aðeins ekki að kalla til, þegar það liggur í augum uppi, að á því er engin þörf. En í hvert einasta skipti, sem nokkur grunur leikur á að eitthvað sé varhugavert, á að kalla á lækni. Það á ekki að ómaka lækni í öllum tilfellum, eins og nú er gert að skyldu, jafnvel þegar selveiðaskip kemur norðan úr íshafi eftir tveggja til þriggja mánaða útivist og án þess að nokkur sótt hafi komið upp í því. Slík skip og önnur, sem líkt stendur á fyrir, eru látin bíða jafnvel tímum saman algerlega að þarflausu eftir lækni, sem ef til vill er í ferð eða önnum kafinn við störf, sem ekki verður hlaupið frá. Annað eins á engan rétt á sér, með því að það veitir heldur alls ekki þá auknu tryggingu, sem til er ætlazt, og er jafnvel þvert á móti ekki laust við að vera hættulegt, vegna þess, að þegar læknir er kallaður e. t. v. í 9 tilfellum af 10 öllum vitanlega að þarflausu, þá er hætt við, að hann hafi ekki fullan andvara á sér í þau fáu skipti, sem nauðsyn væri á nákvæmri skoðunargerð. Ég þekki þetta af eigin reynd. Sjálfur hefi ég verið læknir þar sem allmikið var um siglingar, og aðeins í örfá skipti var ástæða til að kalla á mig til þessa eftirlits. Flestar ferðirnar voru farnar fyrir siðasakir einar, og fyrirfram vitað, að svo væri. Þetta hefi ég bent á í grg. frv., og hefði hv. 3. þm. Reykv. vel mátt taka eftir því.

Nokkuð er til í því, sem hv. þm. Vestm. gat um, að fyrir sérstaka staðhætti í Vestmannaeyjum má vel vera, að erfiðleikum sé bundið að hafa það fyrirkomulag, sem frv. gerir ráð fyrir. Þó hygg ég, að það þurfi ekki að koma að sök, því að vitanlega er útgerðarmönnum heimilt að hafa gamla fyrirkomulagið, ef þeim þykir það hagkvæmara og tilvinnandi. Það er erfitt og dýrt að fara út í skip í Vestmannaeyjum og skipstjórar mega auðvitað alltaf eiga á hættu, ef þeir kalla fyrst á sóttgæzlumann en ekki lækni, að þeir þurfi að gera tvær ferðirnar. En ekkert er hægara fyrir skipstjóra eða útgerð en að leggja svo fyrir, að læknir sé alltaf látinn koma með sóttgæzlumanni út í skipið, og það mundu og flestir gera, ef það reyndist borga sig betur fyrir þá. Ég vil biðja menn að taka vel eftir því, að í þessu frv. er ekkert, sem bannar, að kallað sé alltaf á lækni. Annars skal ég geta þess viðvíkjandi Vestmannaeyjum, að mér hafa borizt kvartanir þaðan um, að þetta lækniseftirlit, eins og því nú er fyrir komið, sé til tilfinnanlegs trafala samgöngum þar. Læknirinn geri sér auðvitað að skyldu að fara út í hvert einasta skip, og neiti mönnum um far með sér, þó að vita megi, að um enga hættu sé að ræða. Ég segi þetta ekki lækninum til lasts. Hann mun skoða það skyldu sína að haga eftirlitinu þannig. En eins og hv. þm. Vestm. sagði, þá getur skipt um veður á einni klst., og getur það komið hart niður á fólki, ekki síður með því fyrirkomulagi, sem nú er haft, en með hinu, sem frv. gerir ráð fyrir.

Ég verð að játa, að þegar ég tók fyrir að endurskoða þessa löggjöf, þá leiddi ég ekki svo mjög hugann að því, þótt nokkrir læknar, að vísu ekki mjög margir, yrðu fyrir lítilsháttar fjárhagslegum skaða af þessari breytingu. Ég áleit og álit enn, að það megi ekki skipta máli í þessu sambandi. Þegar á að setja l. fyrir almenning, má ekki líta á það, þótt nokkrir embættismenn bíði af því dálítinn halla. Annað mál er það, að ef embættismaður verður fyrir tilfinnanlegum halla, eins og t. d. héraðslæknirinn í Rvík óneitanlega verður í þessu tilfelli, að stj. líti til þess, og bæti honum það upp, eftir því sem unnt er. Ég hefi þá trú, að með góðum vilja heilbrigðisstj. verði ekki vandkvæðum bundið að hlynna svo að þessum eina lækni, að hann megi vel við una. Sérstaða hans er mjög áberandi, þar sem praksis hans er takmörkuð með lögum, sem ekki á sér stað um aðra héraðslækna. Mætti bæta honum þetta upp með því að fá honum önnur nauðsynleg störf og án þess að það þurfi að kosta sóttvarnarsjóðinn nokkuð verulegt, og ætti raunar alls ekki að kosta hann neitt. En því fer fjarri að aðrir læknar eigi kröfur á ríkið, ef þessi 1. verða samþ. Ég játa raunar ekki, að héraðslæknirinn í Rvík eigi eiginlega kröfu til uppbótar, heldur aðeins nokkra sanngirniskröfu, vegna þess hve skipaskoðunin er mikill hluti af tekjum hans, og vegna þess hverjar hömlur eru á honum að stunda venjuleg læknisstörf, og verður hvorugt borið saman við það, sem á sér stað um aðra lækna.

Ég hefi heyrt því fleygt, að hafnarn. í Reykjavík hafi haft á prjónunum tillögur um aukið eftirlit með aðkomuskipum, en þær munu hafa gengið í þá átt að reisa frekari skorður við útbreiðslu kynsjúkdóma úr skipunum. Það kemur ekki þessum l. við. Við höfum sérstök kynsjúkdómalög, og þeim ætti þá að breyta, ef einhver strangari ákvæði yrðu sett hér að lútandi. Ég vil þó í þessu sambandi upplýsa hv. þm. um það, að lækniseftirlit með kynsjúkdómunum í skipum er mjög erfitt og mér er óljóst, hvernig þar má ná nokkru því, sem öryggi getur heitið, nema þá með því að hindra að meira eða minna leyti farmenn og jafnvel farþega frá að hafa samneyti við land. Menn geta verið með hættul. smitandi kynsjúkdóma, þótt lækni sé ómögulegt að komast að því með venjulegri rannsókn. Þarf iðulega til þess blóðrannsókn, sem tekur langan tíma, jafnvel marga daga. En ef slík ákvæði væru sett í lög, hvort sem það væri í 1. um varnir gegn því, að næmir sjúkdómar berist til landsins eða í kynsjúkdómalögin, væri það ekki í samræmi við það, sem tíðkast með erlendum þjóðum og yrði þess vegna óvinsælt af þeim og sennilega óframkvæmanlegt.

Ég vil taka það fram, að það fer fjarri, að ástæða sé til, að við höfum hér á landi miklu strangari fyrirmæli um sóttvarnir en gilda erlendis. Í raun og veru erum við betur settir í sóttvarnarlegu tilliti en flestar aðrar þjóðir. Skip, sem hingað koma frá hættulegum stöðum erlendis, koma að jafnaði við á höfnum í nágrannalöndunum, þar sem þau eru vandlega skoðuð, og má segja, að hið hættulegasta grugg sé síað frá áður en hingað kemur. Þessi l., sem hér er stungið upp á, eru engu að síður mun strangari en í flestum nágrannalöndunum, ef ekki öllum, og má þar vel við una.

Loks skal ég geta þess, að við nánari athugun ber ég nokkurn kviðboga fyrir því, að til 1. jan. 1934 — en þá er 1. ætlað að ganga í gildi — reynist of stuttur tími til þess undirbúnings, sem hafa þarf undir framkvæmd þeirra. L. þarf að þýða á ýms tungumál og útbýta þeim til annara ríkja. Vildi ég því með leyfi, hæstv. forseta, bera fram skrifl. brtt. við seinustu gr. frv. þannig, að lögin öðlist gildi 1. júlí 1934. Þetta þing kann að dragast lengi, og liggur jafnvel í loftinu, að því verði frestað, En ef því yrði frestað til hausts, er stuttur tími til að leysa af hendi þýðingarnar og dreifa 1. þangað, sem þeim á að dreifa.