04.04.1933
Neðri deild: 44. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (1080)

16. mál, varnir gegn því að næmir sjúkdómar berist til Íslands

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það er náttúrlega engin þörf fyrir mig að gera ágreining út af þessu við hv. frsm. Hann viðurkennir, að það sé rétt að bæta bæjarlækninum upp eftir þeim upplýsingum, sem hafa komið fram. (StgrS: Gæti verið rétt). Þá er bara um það að ræða, hvernig eigi að gera það, en það er bara aðferðarspursmál, sem ekki þarf að vera að deila um hér. Hann hafði misskilið dálítið það, sem ég sagði viðvíkjandi bótunum til læknisins. Ég vil miða þær við meðaltal undanfarinna ára og vil taka tillit til, hvað verði mikið, sem hann hefir upp úr skipunum hér eftir. Það er ekki mín meining, hvað hann mundi hafa eftir skipakomu næstu ára, heldur hvað hann hafi skv. þessum l., ef af þeim verður, svo það er um þennan mismun að ræða; en hér er eitt atriði, sem er óvíst um, og það er, hverjar tekjur læknirinn kemur til að hafa framvegis, þegar þessi l. eru komin í gildi. Ég get vel ímyndað mér, að þær verði talsverðar, því að ég býst við, að það verði ekki svo sjaldan, sem læknis verði vitjað til aðkomuskipa þrátt fyrir ákvæði frv., og á þennan eina hátt er hægt að bæta þetta upp með sanngirni. Einmitt vegna þess er erfitt að taka nokkuð fram um hans laun og hvernig þau skuli ákveðin. Enginn getur sagt um, hve mikil þau eru, fyrr en reynslan hefir skorið úr, og að það sé óvenjuleg aðferð að taka úr þessum sjóði, sem myndaður er til að hægt sé að hafa þessa skoðun, það sé ég ekki. Úr því að sjóðurinn er myndaður fyrir það fé, sem fellur til, þá finnst mér ekki nema eðlilegt, að úr þeim sjóði sé bætt upp þeim manni, sem verður fyrir barðinu, ef læknisvitjunin fellur burt. Ég þarf svo ekki að fjölyrða meira um þetta.