04.04.1933
Neðri deild: 44. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (1084)

16. mál, varnir gegn því að næmir sjúkdómar berist til Íslands

Vilmundur Jónsson:

Ég kann ekki við að heyra hæstv. dómsmrh. segja tvisvar, að á þinginu í fyrra hafi verið ákveðin laun yfirlækna landsspítalans. Ég ætla, að þingið hafi aldrei ákveðið neitt um laun þeirra. Það var gerður samningur við þá af landsstj. fyrir 2—3 árum, en af þinginu hafa laun þeirra ekki verið ákveðin.

Úr því að ég stóð upp, get ég ítrekað það, sem ég hefi sagt, að það er engan veginn lítill trafali, sem siglingar hér við land hafa af þessu lækniseftirliti, sem svo oft er óþarft. Ég man það, síðan ég var héraðslæknir á Ísaf., að þá kom oft fyrir, að skip biðu eftir mér heila og hálfa daga. Stundum var ég í læknisferðum, e. t. v. í öðrum fjörðum. Í önnur skipti var ég við læknisverk uppi í sjúkrahúsi eða ég sat yfir sængurkonum. Þetta gerist auðvitað ekki eingöngu þar, heldur líka víða um land, og þegar hægt er að losa siglingarnar við þennan óleik og kostnað af sóttvarnareftirlitinu því að skaðlausu, er skylt að gera það.