26.05.1933
Neðri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1198 í B-deild Alþingistíðinda. (1278)

66. mál, lögreglumenn

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson): Þetta frv. er flutt af stj. og er nú búið að ganga í gegnum Ed. Afdrif þess þar urðu þau, að það var samþ. með 12:1 atkv., en 1 greiddi ekki atkv. Það er því auðséð, að í Ed. var gott samkomulag um þetta mál. Ég skal ekki fara langt út í það að rekja tildrögin til þess, að þetta frv. er fram komið. En ég skal þó benda á það, að það, sem sérstaklega varð til þess, að málið kom fram, voru þær óeirðir, sem urðu hér 9. nóv. síðastl. Ég tel mig ekki þurfa að lýsa þeim óeirðum. Það er svo kunnugt mál. Eftir þær óeirðir var lögregla bæjarins að mestu leyti óstarfhæf sökum meiðsla.

Það hefir líka borið á því, að beitt hafi verið ofbeldi, t. d. brottflutningi manna og þeim bönnuð dvöl á vissum stöðum. Einnig urðu hér nokkrar óeirðir 7. júlí síðastl., og fyrir skömmu var lagt bann við afgreiðslu skips á Akureyri, og í Vestmannaeyjum var tekinn út fangi með valdi fyrir fáeinum dögum. Lítur út fyrir, að tilgangurinn hafi verið sá að hindra það, að nokkur réttarhöld gætu farið fram.

Það er auðséð, að ef á að halda uppi ríkisvaldi í landinu, þá getur þetta ekki gengið óátalið, og það verður að finna ráð til þess, að fyrirbyggja slíkt, því það er auðvitað fyrsta skylda ríkisvaldsins að halda uppi lögum og fyrirskipunum, sem það sjálft hefir sett.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir í þeirri mynd, sem hv. Ed. afgreiddi það, er nokkuð öðruvísi en þegar það kom frá stj. Meginbreyt. er sú, að það er látið ná til allra kaupstaða, og get ég ekki séð annað en að það sé mikil bót. Það hefir líka komið fram ósk um þetta frá einstökum kaupstöðum, t. d. Akureyri, eftir þetta afgreiðslubann á skipum, sem ég nefndi áðan.

Mér virðist frv. eins og það kom frá Ed. vera fullnægjandi og get lýst því yfir, að það er ekki af minni hálfu óskað neinna verulegra breyt. á því. En ég skal ekki neita því, að það geta verið einstök atriði, sem mætti breyta, en ég kem ekki auga á neitt sérstakt.

Nú er liðið mjög að þinglokum. Ég geri ráð fyrir, að þinginu verði lokið í næstu viku, og þess vegna ber nauðsyn til þess að hraða þessu máli.

Fari það til n., sem ég geri frekar ráð fyrir, þá verður það fjhn., því þar var það í Ed. og samkv. þingsköpum eiga mál að vera í sömu n. í báðum d.

Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að jafnaðarmenn eru á móti þessu frv. Mér er kunnugt um ýmsar af mótbárum þeirra, en ég vil ekki fara að svara þeim fyrir fram og læt það bíða þangað til hv. frsm. þess flokks hefir mælt á móti frv. En ég vil bara segja það, að ég er sannfærður um það, að ef jafnaðarmenn væru sjálfir í stjórninni, mundu þeir verða fyrstir manna til að krefjast löggjafar eitthvað í áttina við það, sem hér er. Verði þessu andmælt mun ég sýna fram á, hvernig jafnaðarmenn fara að annarsstaðar, þar sem þeir eru við völd.

Ég skal líka taka það fram af hálfu stj., að það verður að sjálfsögðu viðhöfð hin ýtrasta sparsemi og þarf enginn að óttast það, að eytt verði meiru fé, heldur en nauðsyn krefur.

Að endingu vil ég leyfa mér að óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. að þessari umr. lokinni.