26.05.1933
Neðri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (1284)

66. mál, lögreglumenn

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég vil minna á, að ummæli þau, sem mér eru eignuð viðkomandi Hafnfirðingum, voru ekki töluð í sambandi við atvinnubótavinnu, heldur vegna ágreinings um það, hvort leyfa skyldi útlendingum að gera út togara frá Hafnarfirði. Þá vil ég einnig minna á, að bæirnir leggja fram 2/3 atvinnubótafjárins og hafa á hendi ráðstöfun vinnunnar. Er sú ráðstöfun gerð af Alþ. og eftir tillögu formanns Alþýðusambandsins. Ríkisstj. er við þessar reglur bundin af atkvæðum þm., jafnaðarmanna sem annara. Ég vil bæta því við, að engum dettur í hug, að þar sem þegnarnir kveljast af hungri, sé hægt að halda uppi friði. Bylting er óhjákvæmileg þegar svo er komið, að stór hluti þjóðarinnar þjáist á þennan hátt. Þessu þarf þingið að muna eftir og gera ráðstafanir, sem fyrirbyggja slíkt, eigi síður en að skapa varalögreglu.