09.03.1933
Neðri deild: 20. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í D-deild Alþingistíðinda. (1339)

68. mál, innflutningsleyfi fyrir sauðfé

Tryggvi Þórhallsson:

Ég tel rétt, að till. fari í n., áður en hún verður afgr. úr d., enda þótt aðeins sé um að ræða áskorun á stj. um að láta fara fram rannsókn á málinu. Ef þetta verður samþ. svo sem hv. flm. flytur það, verður að líta svo á, sem þingið vilji stíga sporið eins stórt og hann.

Ég hefi fylgzt með skoðunum manna á þessu máli. Fyrir 4-5 árum hefði engum manni dottið í hug að bera fram þetta mál á svona víðtækum grundvelli, því að svo minnisstæð var mönnum þá hættan af gin- og klaufaveiki.

Ég álít það réttan meðalveg að leyfa innflutning á skepnum í ákveðnum tilgangi, svo sem nú er, en svo mikil hætta er hér á ferðum, að ekki er ráð að láta einstaklinga hafa þann innflutning með höndum. Á ríkið að hafa hann í sinni hendi eða þá Búnaðarfél. Íslands.

Hv. þm. talaði um háværar kröfur utan af landi í þessa átt. Búnaðarfél. hefir, að því er mér er kunnugt, aðeins fengið 2 slíkar óskir, og er önnur þeirra mjög lítið rökstudd. Hitt er rétt, að þegar kreppa er og slíkt vandræðaástand sem nú, þá leita menn fastar á eftir einhverju, sem úr geti bætt. Er rétt að taka tillit til slíks, en má þó ekki ganga út á hættulegar brautir. Er það allt of mikil hætta að láta þetta í hendur einstaklingum. Ætti alls ekki að leyfa innflutning á fé, nema þegar sérfræðingar álíta það rétt, en þá á það að vera í höndum stj. og Búnaðarfél. Íslands.

Tilraunir þær, er gerðar voru í sumar með skozku hrútana, hafa mætt meiri örðugleikum en búizt var við. Hafa áföllin orðið meiri en gert var ráð fyrir í fyrstu. Helmingurinn af hinum útlendu gimbrum reyndist ófrjóar nú fyrsta veturinn. Hafa þannig orðið mikil vonbrigðin á þessu sviði.

Ég álít till. um innflutning á karakúlafé rétta, enda fer hún fram á, að innflutningurinn sé í höndum ríkisins. Vildi ég láta vísa till. til landbn.