05.04.1933
Neðri deild: 45. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (1353)

87. mál, bættar samgöngur við Austfirði

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Það hefir orðið nokkur dráttur á afgreiðslu till. þessarar hjá samgmn., meðfram vegna þess, að hún hefir orðið að leita fyrir sér um möguleika til að fá framgengt óskum þeim, sem í till. felast, bæði hjá Eimskipafél. Ísl. og skipaútgerð ríkisins, um fyrirkomulag þeirra auknu ferða, sem helzt gætu komið til greina og bætt samgöngur við Austfirði á næsta sumri og hausti. N. viðurkennir, að brýn þörf sé á því að gera það, sem hægt er, til þessara samgöngubóta, án stórfellds kostnaðar. Nú undanfarið, og þó einkum síðastl. ár, hefir verið það sleifarlag á samgöngunum við Austfirði, að ekki má við una. N. álítur, að ráðstafanir megi gera til þess að bæta nokkuð þessar samgöngur á næsta sumri og hausti án tilfinnanlegs kostnaðarauka. Forstjóri Eimskipafél. Ísl. telur, að takast megi að fullnægja að nokkru leyti þeirri ósk, sem fram kemur í till., með því að fjölga viðkomum skipa félagsins á Austfjörðum að haustinu og án þess þó að hagga að mun áætlun þeirri, sem þegar hefir verið birt fyrir skipin. Lík þessu eru svör þau, sem skipaútgerð ríkisins hefir gefið. Þess vegna virðast mér góðar horfur á því, að takast megi að lagfæra samgöngur þessar án verulega aukins kostnaðar.

Við þetta tækifæri vil ég leyfa mér að minna hv. þdm. á þær háværu raddir, bæði á undanförnum þingum og á þessu þingi, um milljónaframlög frá ríkissjóði til þess að bæta úr atvinnuþröng og erfiðleikum fólks í verstöðvum og kaupstöðum landsins. Þessar óskir hafa af eðlilegum ástæðum fengið litla áheyrn, með því að efnin hefir skort til þess að fullnægja þeim. En samtímis þessu, eða næstliðinn og yfirstandandi vetur, hefir borizt svo ríkulegur fengur af sjávarafla á Austfjörðum, að nægja mátti öllu þurfandi fólki í landinu, ef skilyrði hefði ekki skort og vinnandi hendur til að notfæra þessar auðlindir. Svo miklar og stöðugar göngur af síld hafa verið þar þessa tvo vetur, að nær takmarkalaust hefir mátt veiða stundum, en aðeins örlítið af þeirri veiði hefir verið hægt að hagnýta, aðeins fáar þús. tunnur af valinni síld til söltunar hefir tekizt að senda á erlendan markað, og sumt þó svo seint — vegna flutningatregðu —, að lítið lið hefir að orðið, en meginhluti veiðinnar hefir verðlítill eða verðlaus orðið, enda hefir veiðin oft verið vanrækt þegar sjáanlega var engin von um sölu.

Öllu öðru fremur hefir skortur hentugra skipa og samgangna valdið því, að þessi sjávargjöf hefir reynzt svo svipul. Nær engin tök hafa verið á því að koma síldinni kældri eða ísvarinni til Englands, vegna samgönguleysis. Það eina skip, Lagarfoss, sem hefir skrölt í förum til Austfjarða, verður alls eigi notað til slíkra flutninga, enda viðkomur þess þar fáar. Þetta framantalda er dálítil mynd af því, hvernig samgönguleysið er við Austfirði og hversu lamandi einangrun þar er. En með þeim ráðstöfunum, sem hér er leitazt við að gera, má þess þó vænta, að einhver bót fáist.

Þegar á þessum vetri voru gerðar lítilsháttar tilraunir til þess að koma ísvarinni síld frá Austfjörðum á útlendan markað, en fyrsta tilraun fór svo, að varan reyndist skemmd, þegar þangað kom, vegna þess að nota varð skip, sem fyrst varð að fara til Reykjavíkur með síldina og þaðan til útlanda.

Allir, sem við sjó búa, munu skilja, að það er enginn búhnykkur, og sízt á þessum krepputímum, að láta ónotuð þau auðæfi hafsins, sem boðizt hafa svo örlátlega undanfarna vetur og sem lítt hafa nýtzt, vegna vantandi samgangna. Ég vænti, að hv. þdm. sýni málinu svo mikinn skilning, að till. þessi verði samþ.

Að síðustu vil ég benda á það, að n. leggur til, að till. verði orðuð upp þannig, að ljósar sé tekið fram í henni, hvað fyrir þeim vakir, sem hlut eiga að máli, og hvernig n. álítur hentast að koma þessum samgöngubótum fyrir. Þessi umorðun á till. er gerð með hliðsjón af undirtektum þeirra aðilja, sem n. hefir borið sig saman við, og vænti ég þess, að hv. þm. geti fallizt á orðabreyt. þessa.