11.05.1933
Neðri deild: 71. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í D-deild Alþingistíðinda. (1425)

190. mál, byggðarleyfi

Sveinbjörn Högnason:

Hv. þm. Borgf. vildi verja till. sína með því, að hér væri ekki um annað að ræða en það, sem framkvæmt hefði verið á ýmsum stöðum áður.

Það getur verið, að það hafi nokkuð til síns máls, að bæjarstjórnir Reykjavíkur og annara bæja hafi skorað á atvinnurekendur að taka aðeins bæjarmenn í vinnu. En það er skrítið, að slíkt skuli koma frá mönnum, sem eru að fárast yfir fjandskapnum milli sveita og bæja. Er þetta nokkuð annað en að ala á þeim fjandskap og etja mönnum út í atvinnustríð? Það hafa komið fram raddir um það í bæjarstj. Rvíkur, að bægja sveitamönnum frá þeirri litlu atvinnu, sem þeir hafa getað fengið hér. Ef Alþingi ætlar að ýta undir þessa stefnu, hlýtur að reka að því, að kaupstaðabúar geti ekki fengið atvinnu í sveitum. Myndi af þessu leiða hreint atvinnustríð, sem gæti komið óþyrmilega við kaupstaðabúa, enda þótt þeir sæki kannske ekki eins mikla atvinnu í sveitirnar og sveitabúar í kaupstaðina. Það eru ekki einungis fjárhæðirnar, sem hér koma til greina, heldur líka sú heilbrigðilega þýðing, sem það hefir fyrir kaupstaðabúa að dvelja í sveit um sumartímann, sérstaklega fyrir þá, sem versta aðbúð hafa. Er það furða, að till. skuli geta komið frá mönnum, sem kenna sig við sjálfstæði, um að taka allt atvinnusjálfstæði af mönnum í landinu.