29.03.1933
Efri deild: 37. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (1436)

122. mál, kaup eða leigu á síldarbræðslustöð

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég skal ekki mæla móti þessari till. á þessu stigi málsins, og álít rétt, að hún sé skoðuð í n. En í sambandi við þær upplýsingar, sem hv. flm. gaf, vil ég taka það fram, að ég hefi talað um þetta mál við framkvæmdarstjóra ríkisbræðslunnar á Siglufirði og einnig mann úr stjórn verksmiðjunnar, og töldu þeir varhugavert að taka verksmiðju dr. Pauls á leigu, nema með þeim skilyrðum, að heitið væri að setja í stand vélar verksmiðjunnar, og að leigusali bæri ábyrgð á öllum þeim bilunum, sem fyrir kynnu að koma yfir sumarið. Það er svo með þessa verksmiðju, að hún hefir ekki verið rekin síðastl. 1-2 ár, og hafa fagmenn sagt mér, að vegna þessa sé nákvæmt eftirlit mjög aðkallandi, og gæti aðgerð orðið nokkuð dýr. — En um lýsis- eða olíugeyminn, sem hv. flm. talaði um, er það að segja, að hann er sízt of stór nú fyrir síldarbræðslu ríkisins eina. Hann er ekki stærri en svo, að það verður að fá skip um miðjan síldveiðitímann til þess að tæma hann, svo að verksmiðjan verði ekki að stöðvast. Til þess að bæta úr þessu, hefir nú verið ákveðið að byggja nýjan geymi fyrir síldarbræðslu ríkisins. En ef báðar verksmiðjurnar væru reknar þarna sameiginlega, gæti farið svo, að kaupa yrði tunnur undir olíuna, en það er miklu dýrara en að nota geyma. Mér er það ljóst, að það er talsverður vandi fyrir stj. að hafa heimild sem þessa. Alltaf geta orðið stórtöp á rekstri slíkra verksmiðja. Og það, sem gerir aðstöðuna sérstaklega erfiða, er það, hvað l. um síldarbræðslustöð ríkisins eru ófullkomin. Þar hefir ekki verið hægt annað en að viðhafa þá aðferð að nota undanþáguheimild 1. til þess að kaupa síld af sjómönnum. Þetta getur verið mikil áhætta fyrir stj., þó að vel hafi tekizt með síldarbræðslu ríkisins t. d. síðastl. sumar. —Ég veit ekki, hvort rétt er að binda heimildina við þessa einu síldarbræðslustöð, og held ég, að eins gott væri að hafa það óákveðið, hvaða bræðslustöð skyldi leigja. Auðvitað er eins hægt að bæta úr síldarsöluþörf sjómanna með því að taka einhverja aðra verksmiðju á leigu og held ég, að gott væri að láta heimildina vera óákveðna.