29.03.1933
Efri deild: 37. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í D-deild Alþingistíðinda. (1437)

122. mál, kaup eða leigu á síldarbræðslustöð

Flm. (Bjarni Snæbjörnsson) [óyfirl.]:

Ég vildi aðeins segja fáein orð viðvíkjandi ræðu hæstv. dómsmrh. Það er auðvitað, að eitthvað þarf að gera við stöðina, þar sem hún var ekki starfrækt síðastl. ár. En ég hefi fyrir mér umsögn manns, sem hefir gætt vélanna í þessari stöð, um það, að þær séu í ágætu lagi. Þegar ég talaði við forstjóra síldarbræðslu ríkisins, var hann ekki í vafa um, að vélarnar í verksmiðju dr. Pauls væru í góðu lagi, en hann áleit, að þurrkofnarnir þyrftu kannske aðgerðar við. En ég vorkenni stj. ekkert að búa svo um leigusamninga, að stöðin verði í leigufæru ástandi í vor.

Hvað olíugeyminn snertir, þá var forstjórinn á því, að engin vandræði yrðu af því, þó að skipið, sem tæmir hann, yrði látið fara fleiri ferðir, og kæmi þá ekki til þess, að nota þyrfti tunnur. Það má vera, að hæstv. dómsmrh. hafi rétt fyrir sér í því, að ekki sé æskilegt að binda heimildina við ákveðna stöð, því að hugsanlegt er, að eigendur hennar notuðu sér þá sérstöðu og krefðust hærri leigu en annars. En því var þessi stöð tekin fram í till., en ekki einhver önnur, að hún liggur svo ágætlega fyrir sameiginlegan rekstur hennar og ríkisbræðslunnar. Ég sé ekki svo mikla áhættu fyrir ríkissjóð í þessum framkvæmdum og hæstv. dómsmrh. Áhætta ríkisins á rekstri síldarbræðslustöðva verður ekki meiri, þó að þessi stöð sé tekin með, en hún er nú þegar. Og með því fyrirkomulagi að reka stöðvarnar saman yrði kostnaður við rekstur þeirra ábyggilega miklu minni en hann yrði af því að reka stöðvarnar sitt í hvoru lagi.

Ég vona, að hæstv. stj. taki vel í þetta mál, þar sem líka hæstv. forsrh. lét þau orð falla í umr. um norska samninginn, að sjálfsagt væri að kosta kapps um það, að sem mest síld verði tekin í bræðslu hér á landi.