29.05.1933
Neðri deild: 86. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2898 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það eina, sem komið hefir fyrir mitt ráðuneyti í þessu máli, er kæra frá Vínarborg, sem send hefir verið gegnum utanríkisráðuneytið, um, að í Vín séu seld þjóðhátíðarfrímerki með grunsamlega lágu verði. Strax og þessi kæra barst hingað, fyrir tveim mánuðum, var bréf sent til Vínarborgar gegnum utanríkisráðuneytið, þar sem óskað var upplýsinga um tilefni þessarar kæru, og jafnframt, að rannsókn væri látin fram fara, ef um sakir væri að ræða. Nú alveg nýlega hafa þær fréttir borizt þaðan, að íslenzk-danski sendiherrann hafi lagt fram kæru í þessu máli og að kriminel rannsókn sé þegar hafin í málinu. Þetta er þá allt það, sem ég get upplýst í máli þessu á því stigi, sem það nú er.