16.03.1933
Neðri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1441 í B-deild Alþingistíðinda. (1757)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Héðinn Valdimarsson:

Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh., hvort hann vill ekki fallast á, að frv. fari til n. Ég hefi heyrt, að frv. eigi að fara gegnum þingið eins fljótt og auðið er.

Málið hefir ekki komið til atkv. í utanríkismn. Er það fyrst við þessar umr., að menn hafa verulega farið að hugsa málið og ræða það. Tel ég því sjálfsagt, að málið fari í n.

Hv. þm. Seyðf. hefir svo rækilega svarað ýmsum þeim, er hér hafa talað, að ég hefi þar fáu við að bæta. Þó vil ég svara hæstv. forsrh. nokkrum orðum. Það er rangt hjá honum, að hann hafi getið um það í einkaviðtali við mig, að hann myndi segja af sér, ef samningur þessi yrði ekki samþ. Það var við umr. utan dagskrár hér í þinginu fyrir skömmu.

Ég hefi þegar vakið athygli á því, að hæstv. forsrh. leggur stöðu sína undir það, að þessir samningar, sem okkur eru þó óhagstæðir, nái fram að ganga. En við því, að stjórnarskrármálið nái framgangi, er hann ekki að leggja stöðu sína að veði. Mér skildist raunar hann vera að afsaka sig með því, að norska stj. hefði heimtað, að hann legði stöðu sína að veði við þessu. Verð ég að telja slíkt heldur óviðeigandi, og getur hver dæmt þar um sjálfur.

Utanríkismálan. er sammála um, að fiskiveiðunum beri að halda eins mjög til landsmanna sjálfra og tök eru á. En í grg. fyrir samningnum er algerlega vikið frá þeirri stefnu.

Viðvíkjandi síldarverksmiðjum Norðmanna hafa þeir hæstv. forsrh. og hv. þm. G.-K. haldið því fram, að þær hafi mátt kaupa ótakmarkað af útlendum skipum eftir samkomulaginu frá 1924. Þetta er ekki rétt. Í samkomulaginu er þessi grein:

„Þær fiskveiðastöðvar Norðmanna, sem nú eru, er heimilt að reka áfram, á meðan væntanlegt samkomulag um tolllækkunina helzt, en það sé uppsegjanlegt af beggja hálfu með hæfilegum uppsagnarfresti“.

Þarna er ekkert leyfi falið fyrir verksmiðjurnar til kaupa af erlendum skipum. Það, sem farið myndi vera eftir um þetta, eru ákvæði fiskiveiðal.

Í 9. gr. segir:

„Atvinnumálaráðherra getur veitt leyfi til þess, að eigendur síldarolíu- eða síldarmjölssmiðju, eða slíkra verksmiðja, megi nota erlend skip til þess að fiska fyrir verksmiðjur þessar til eigin nota, þrátt fyrir bannið í 2. málsgr. 3. gr. Í leyfinu, sem veita má fyrir 2 ár í senn, ber að taka fram, að það veiti ekki erlendum skipum heimild til fiskiveiða eða fiskverkunar í landhelgi, og ennfremur skal tekið fram, að leyfið falli burtu, ef skilyrði þess séu eigi haldin í öllum greinum“.

Af þessu sést, að erlendar verksmiðjur þurfa sérstakt leyfi fyrir kaupum af erlendum skipum. Ef þessari gömlu stefnu hefði verið haldið, þá hefði mátt minnka kaup þeirra smám saman, svo að þau hefðu að lokum horfið með öllu. En þó að utanríkismn. hafi haldið þessari stefnu, þá hefir hæstv. stj. ekki gert það eða samningamennirnir.

Hv. þm. Seyðf. hefir svo greinilega sýnt fram á það, hvernig allur norski veiðiflotinn á nú kost á að selja síld hingað, að ekki verður vefengt.

Ég ætla hér að minna á atriði, sem ekki mun öllum kunnugt. Kringum 1855 kom málaleitun frá Frökkum um að fá að setja upp stöð fyrir franska fiskiflotann á Dýrafirði. Þó að Frakkar byðu mikil hlunnindi gegn þessu, þá hafnaði þingið því í einu hljóði. En eftirkomendur þeirra manna, sem þá neituðu þessu, eru ekki eins vel að sér í þessu efni.

Þá sagði hæstv. forsrh., að með því að framfylgja ósanngjarnlega fiskiveiðalöggjöfinni, myndi hafa verið erfitt að ná þessum samningum við Norðmenn. Skil ég ekki þennan hugsunarhátt og þann ládeyðuskap, sem kemur fram í þessu. Hví á að gefa Norðmönnum sérréttindi hér, í stað þess að halda fram fullu jafnrétti, ekki sízt eftir að þeir höfðu fellt niður ívilnanir í okkar garð, eins og varð í sumar? En e. t. v. stafar þetta hik hæstv. forsrh. af veizlufagnaði þeim, sem hann sat í Osló. Þeir hafa sjálfsagt hugsað þar, að Íslendingum mætti allt bjóða.

Hæstv. forsrh. sagði, að kröfur verkalýðsins gengju í þá átt, að verksmiðjurnar í Krossanesi og á Raufarhöfn héldu áfram. En bæði er það, að þessar verksmiðjur hefði mátt kaupa af Norðmönnum, og eins hitt, að atvinna hefði varla minnkað mikið, þó að þeim hefði verið bannað að kaupa af erlendum skipum.

Hæstv. forsrh. þakkaði hv. þm. G.-K. fyrir þessa samninga. Hann getur ekki hafa þakkað honum fyrir þá hliðina, sem veit að kjöttollinum, því að á því máli hefir hv. þm. G.-K. ekkert vit, og var það Jón Árnason, sem fjallaði þar um. Hann hefir því eflaust verið að þakka fyrir hitt, sem veit að sjávarútveginum og þann skerf, sem hv. þm. G.-K. lagði til þeirra mála.

Mér er nú spurn: Hvers virði er þessi kjötsala til Noregs fyrir íslenzka bændur? Hún á að nema 11500 tunnum næsta ár og minnka svo ár frá ári ofan í 6000 tunnur. Kjötsalan hér innanlands er nú um 35000 tunnur. Þessi íslenzki markaður er miklu meira virði en sá norski. Og hvaða verð fá svo íslenzkir bændur fyrir kjöt það, er þeir selja til Noregs? Getur landbúnaðurinn yfirleitt byggzt á því? Auk þess er, eins og ég hefi getið um áður, ekki einu sinni tryggt, að Norðmenn kaupi kjötið fyrir núverandi verð, því að hér er búið að upplýsa það, að Norðmenn geta sjálfir fullnægt sinni kjötþörf. Lítur helzt út fyrir, að svona muni fara, því að Norðmenn framleiða nú þegar mikið kjöt.

Það, sem þyrfti að endurgreiða bændum sem skaðabætur, ef samningarnir yrðu felldir, er ekki meira en það fé, sem búið er að kosta til varalögreglunnar. Þessar 6000 tunnur gera ekki meira en 1 tunnu á hvern bónda á Íslandi. Hæstv. atvmrh. spurði, hvað ætti að gera við þessa 6000 bændur, hvort það ætti að senda þá til Eskifjarðar eða Seyðisfjarðar. Ég ætla þá að spyrja hann á móti, hvort það eigi að salta sjómenn og verkamenn niður í tunnur og senda þá til Noregs, til þess að njóta lága tollsins þar. Afleiðing þessara samninga verður aukið atvinnuleysi og tap fyrir alla þá, sem hag hafa af síldarútgerð.