15.03.1933
Neðri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1454 í B-deild Alþingistíðinda. (1759)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Það fara að harðna deilur um þetta mál og jafnframt því skýrist það betur, hver tilgangur andstæðinganna er.

Háttv. þm. Seyðf. hefir nú í kvöld rifjað upp slíka hluti og þá, er hv. 2. þm. Reykv. sagði hér í gær. Hann taldi, að mikil mistök hefðu átt sér stað um undirbúning þessara samninga. Það kann að vera, að mistök hafi átt sér stað, en hafi svo verið, þá er þeirra fyrst og fremst að leita hjá andmælendum þessa frv. Hvers vegna risu þeir ekki upp á síðasta þingi til andmæla gegn því, að leitað væri samninga við Norðmenn, ef þeir hafa haft sama sjónarmið þá og nú? Nei, þeir hreyfðu engum mótmælum gegn því að samið væri við Norðmenn, hvorki þá né síðar meðan á samningi stóð. Þvert á móti. Á síðasta þingi greiddu þeir atkv. með till. til þál., sem ákvað það, að leita skyldi samninga við Norðmenn. Þeir heimtuðu þá ekki neitt um takmörkun á rétti Norðmanna hér við land. Nei, þeir heimtuðu, að samið yrði. Og að engin von var um, að betri samningar væru fáanlegir, sést m. a. af því, að Norðmenn segja upp gildandi samningi, þrátt fyrir öll þau miklu fríðindi, sem hv. andmælendur telja þá hafa hér. Norðmenn sýnast þó meta lítils þennan rétt, og að því athuguðu er það ljóst, að ekki var betri samnings að vænta.

Eftir að samningaumleitanir hófust, varð enginn sá dráttur á meðferð málsins, sem stjórnin hér fékk við ráðið. Hv. þm. Seyðf. segir, að aðstöðumunur hafi verið mikill, er samningar fóru fram, vegna þess að Norðmenn hafi þá verið búnir að njóta sinna hagsmuna hér við síldveiðarnar, en rétt komið að þeim tíma, er ísl. bændur þurftu að njóta gagnkvæmra hlunninda í Noregi fyrir saltkjötsframleiðslu sína, þar sem komið var fram að sláturtíð. Í þessu felst nú það tvennt, að Norðmenn hafi haft hér áður hagsmuni og einnig, að bændur hafi haft gott af kjötmarkaði sínum í Noregi, eins og líka er rétt. En þegar hv. andmælendur tala um þetta nú, þá er öllu snúið við. Þá segir hv. 2. þm. Reykv., að þessi samningur sé gagnslaus fyrir bændur, því atvinnurekstur þeirra sé orðinn svo óarðvænlegur, að þeir geti ekki lifað af honum hvort sem er. Og ennfremur er talað eins og Norðmenn hafi hér engin réttindi haft eftir fiskveiðalöggjöfinni og samningunum 1924. Svona er farið niður í jörðina á einum stað og komið upp á öðrum.

Þessum samningum var flýtt svo sem í okkar valdi stóð. Og það er óhætt að segja, að þeir gengi fljótt, ef borið er saman við það, að samningsumleitanir höfðu staðið tvö ár, áður en niðurstaða fékkst 1924. Og ég vil benda á, að engin kúgun átti sér stað í sambandi við samningsgerðirnar, hvorki þá eða nú. Það er rétt, sem hv. þm. G.-K. sagði, að það, sem réð úrslitum, var velvild og löngun til þess, að þessar tvær þjóðir færu ekki í hár hvor annarar, eins og svæsnir fjandmenn.

Hv. 2. þm. Reykv. minntist á veizluhöld úti í Noregi. Ég get nú minnzt þess með ánægju, og jafnvel einnig hv. 2. þm. Reykv., er sat í þessari sömu veizlu. En annars er þetta alveg óviðeigandi tal, sem ég vísa algerlega á bug og þarf ekki fleiri ummæli um það.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að við Jón Árnason framkvæmdarstjóri hefðum sýnt það, að Íslendingum mætti bjóða allt. Ég vil nú segja, að ef hafa mætti slík orð, þá var búið að gera það áður en við komum þangað. Samningnum hafði verið sagt upp löngu áður en við Jón Árnason vorum úti í Noregi. Og hv. andmælendur höfðu þá látið bjóða sér það, án þess að tala nokkuð um þá miklu hagsmuni, sem Norðmenn ættu hér að gæta. Þeir höfðu nú sagt upp samningnum frá 1924. Og þegar við Jón Árnason komum til Noregs, tókst okkur að koma samningaumleitunum af stað, eins og síðasta þing heimtaði, að væri gert. Það hjálpar ekki mikið í þessu sambandi að tala um hagstæðan verzlunarjöfnuð. Ég get bent á það sem dæmi frá síðustu tímum, að Þjóðverjar hafa sagt upp verzlunarsamningum við ýmsar smærri þjóðir, þrátt fyrir það, þó þær þjóðir hafi keypt meira af vefnaðarvöru frá Þjóðverjum en Þjóðverjar af þeim. Mörg fleiri dæmi eru fyrir því, að hagstæður verzlunarjöfnuður er ekki einhlítur. Það má einnig henda á, að í þessu tilfelli er það svo, að við kaupum miklu lægri hundraðshluta af framleiðslu Norðmanna en þeir gera af okkar. Þetta gerir okkur Íslendingum erfiðara fyrir í þessu efni. Annars gæti ég vel unnt hv. andmælendum þessa samnings að standa sjálfir í slíkri samningagerð, svo þeir fái að kynnast þeim erfiðleikum, sem við er að etja. Það þyrfti að koma þeim í slíkar samninganefndir. Ég sé ekki önnur ráð til þess að fá fram samvizkusamlegar umr. frá þeirra hálfu. Það sýnir ljósast, að verzlunarjöfnuðurinn dugar ekki, því Norðmenn segja upp samningunum okkur til meins. En hvað sögðu hv. andmælendur þá? Þeir sögðu ekki neitt. Þeir geyma alla sína umsögn um málið, þar til umr. um það er lokið milli Norðmanna og Íslendinga. Þá hefja þeir umr. og heimta innilokunarstefnu harðari en hér hefir áður heyrzt eða þekkzt. Áður hafði fremur heyrzt að jafnaðarmenn vildu opna fyrir útlendingum, og á síðasta þingi kom hv. þm. Seyðf. með frv. í þá átt. Og allt þeirra tal hefir áður hnigið að slíku. Þetta dæmi, sem hann tók af Frökkum, sem ekki fengu að „stationera“ hér á öldinni sem leið, er allt annars eðlis og á ekkert skylt við þetta mál. Þarf því ekki að tala um það. En það er alveg víst, að við hv. þm. G.-K. stöndum eins fast og aðrir með því að vernda réttindi landsmanna. En að loka þeim litla rétti til landsetu, sem Englendingar og aðrar vinveittar þjóðir hafa nú, það stöndum við okkur ekki við, enda slíkt aldrei orðað fyrr en nú, að herða þarf landslýðinn gegn þessu máli.

Hv. þm. Seyðf. sagði, að rétt væri að miða þessa samninga við það, að enginn innflutningur á kjöti til Noregs ætti sér stað. Þetta er rétt, og get ég verið honum þakklátur fyrir það. Skal ég einnig ganga inn á hina aðra röksemd hans, að nokkru leyti. (HG: Að þeir sæti sömu kjörum af okkar hálfu og við sætum af þeirra hálfu). Já, en við verðum að athuga það og játa, að þetta myndi koma okkur sjálfum í koll. Ef við t. d. færum að leggja toll á norsk fragtskip, þá mundum við verða að borga þann skatt sjálfir, því þá mundi ekki verða hægt að leigja eins ódýr skip frá Noregi og tíðkazt hefir. Það er enginn efi á því, að slíkt viðskiptastríð mundi leiða til verulegs tjóns fyrir báðar þjóðirnar og á ýmsan hátt. Samningurinn er miðaður við það, að báðir hafi gagn af honum, ef samþ. verður, sem ég efast eigi um, að verður gert.

Hv. þm. Seyðf. sagði, að síldareinkasalan hefði breytt allri aðstöðu Norðmanna hér á landi. En hversvegna bera þessir „verðir“ íslenzkra réttinda ekki fram frv. um útilokun, þegar einkasalan er lögð niður, slíkt og hv. þm. Ak. gerir nú? Hví vanrækja þeir þetta á annað ár og minnast ekki á það í umr. á síðasta þingi? Þá kom áhugi þeirra fram í því einu, að réttur væri við samningurinn frá 1924. Þeir sögðu ekki eitt orð um þessa hættu þá. Eru þó hv. jafnaðarmenn ekki vanir því að þegja, ef þeir halda, að þeir geti verið öðrum ósammála um einhvern hlut. En nú hrópa þeir um að verið sé að eyðileggja alla síldarútgerð. Allt er gert sem svartast. En bændum er bent á það, að þeir eigi að fá bætur fyrir þann markað, er þeir tapa. En sterkustu rökin gegn þessu eru þau, að viðreisn bænda grundvallast á því, að þeir hafi markað til að framleiða fyrir. En öllu þessu get ég þó svarað með því, að ég tek dóm Sambands ísl. samvinnufélaga fram yfir alla aðra dóma um þetta efni. Ég veit, að framkvæmdarstjóri þess á þessu sviði er allra manna dómbærastur um þetta. Frá hálfu jafnaðarmanna á þessi umhyggja þeirra að vera smyrsl á kjósendur, — sem þó aldrei verða kjósendur þeirra.

Þá hafa þessir hv. þm. fundið ráðið, og það er að sjóða bara kjötið niður! Þá þarf víst engan markað! Ég veit bara ekki, hvað þeir hugsa sér að geyma þetta niðursoðna kjöt lengi. En eflaust má taka á allri þolinmæði um afsetningu þess, því óvíst er, að það seldist allt á þessari öld.

Þá tala þeir um að flytja út lifandi fé. Það er nú kunnugt, að einhver stærsta hörmung, er kom fyrir landbúnaðinn á síðustu öld, var það, er útflutningur lifandi sauðfjár var bannaður 1896. Það var eitthvert stærsta áfall, sem þjóðin hefir orðið fyrir. En nú á að vera bjargráð að taka þetta upp aftur. Vel má vera að svo gæti orðið. En má ekki bara biðja um það, að við fáum að halda norska markaðinum, þar til búið er að undirbúa og koma til framkvæmdar þessum hugleiðingum. Þá er enn talað um það ráð, að leggja útilokunartoll á síldveiðarnar, sem renni í ríkissjóð og sé varið til að bæta bændum upp markaðstapið. Það er vitnað í frv., sem fram komu 1924, en um þau frv. er það að segja, að þau voru stríðsfrv. og ekkert annað. Yfirleitt er talað hér nú, af andmælendum frv. þess, er fyrir liggur, eins og bændur séu í engri hættu og sama og engin átök þurfi til að rétta þeirra hag. En ég get lofað hv. andmælendum því, að þeir skulu fá nóg tækifæri til að sýna hjálparhug sinn til handa landbúnaðinum, enda þótt hann fái að halda saltkjötsmarkaði sínum. Möguleikarnir til að hjálpa bændunum eru hreint ekki tæmdir með því.

Þá minntist hv. 2. þm. Reykv. á varalögregluna og vildi kenna landsstj. um, að hún væri til. Ég fyrir mitt leyti harma það mjög, að hún skuli þurfa að vera til. En það er sannarlega ekki stj. að kenna, að svo er, heldur þeim, sem valdið hafa óeirðum og með þeim gert hana óhjákvæmilega.

Tími sá, er ég hefi til umráða, er nú brátt ú enda. En ég ætla þó, vegna þess að þeir, sem halda fram útilokunarstefnunni og telja síldarútgerðina í hættu vegna samningsins, voru í gær að hampa því hér sem höfuðröksemd, að Siglfirðingar hefðu samþ. með öllum atkv. gegn 2, mótmæli gegn samningnum, að lesa upp skeyti, sem mér hefir borizt og dagsett er í dag. Það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Framsóknarfélag Siglufjarðar hefir á fjölmennum fundi í dag tekið norsku samningana til umr. og samþ. að lokum svo hljóðandi tillögu: Fundurinn telur norsku samningana vel viðunandi eftir ástæðum og betri en föng stóðu til og tjáir þeim mönnum, er að þeim unnu, beztu þakkir. Stjórn Framsóknarfélagsins“. Þetta var samþ. með öllum atkv. Og í dag var einnig fundur í félagi sjálfstæðismanna á Siglufirði og samskonar till. samþ. þar. Þarna hefir þá traustasta vígið, sem útilokunarmennirnir vitnuðu til í gær, fallizt á samningana. Og þegar Siglfirðingar geta fallizt á þá og allir ísl. bændur gera það slíka, þá er fyrir fáa að berjast og auðséð, að mótstaðan er ekkert annað en pólitísk spekulation.

Það er margt smátt í þessu, sem talað hefir verið um og reynt að gera númer úr af andmælendum. T. d. það, að ef skip rekur fyrir straumi eða vindi inn fyrir landhelgislínuna og getur sannað, að svo hafi verið, fái það þá að sleppa. En þetta hefir nú alltaf verið gert og á ekkert skylt við gestrisni, heldur er það einungis sjálfsagt réttlæti. Að þetta er tekið upp í samninginn, stafar einungis af því, að rétt þótti að setja fram skilmerkilega þau atriði öll, er til greina kæmu. Í stað þess er sleppt úr samningi þessum öllum óákveðnum velvilja, sem var talað um í samkomulaginu frá 1924.

Þess hefir verið getið, að ný stj. sé mynduð í Noregi, með Movinckel sem stjórnarforseta og sagt, að sú stj. styðjist við stéttir verzlunarmanna, útgerðar- og siglingamanna o. s. frv., en sé ekki bændastjórn. Hefir með þessu verið gefið í skyn, að vænlegra mundi nú að ná hagkvæmari samningum. Í sambandi við þetta vil ég gefa þá skýringu, að bændaflokkarnir í Noregi eru í raun og veru tveir. Sá, sem kallar sig bændaflokk, og vinstriflokkurinn, sem líka er skipaður bændum. Við þann flokk styðst stj. Movinckels. Og þótt ekki sé hægt að skýra það nánar, þá er það þó svo, að vinstrimenn standa að baki þessum samningi, og er hann gerður með samþ. og stuðningi þeirra.

Að síðustu vil ég segja þetta: Þeir fulltrúar ísl. sjávarútvegs, sem vilja björgun bændastéttarinnar, hefðu átt að velja viðfelldnara augnablik til að hefja sína útilokunarbaráttu heldur en einmitt það augnablik, þegar kreppan þjakar öllum. Fyrst þeir hafa ekki hafið þessa baráttu fyrr, þá ættu þeir nú að lofa bændum að komast yfir mestu örðugleikana, áður en þeir hefja sína útilokunarbaráttu. Ef þeir veita slíkan frest, þá verður slíka sú barátta minni, sem nú hefir orðið með undarlegum hætti og sem enga framtíð á fyrir sér.