22.03.1933
Neðri deild: 33. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1513 í B-deild Alþingistíðinda. (1793)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Það er örstutt aths. Hv. þm. Ak. sagði, að ég vissi eins vel eða betur en nokkur annar, að sala á síld í land væri í framkvæmd alveg hið sama og söltunarleyfi. Ég vil nú spyrja hv. þm., á hverju hann byggir þetta? reynslunni byggir hann það ekki. Hv. þm. veit, að undanfarin ár hafa Norðmenn samkv. fiskiveiðalöggjöfinni haft heimild til að selja í land 500—700 tn. af skipi, eftir veiðiaðferð. Það gerir 100—150 þús. tunnur eftir skipaafla Norðmanna hér við land. Ef landsöluleyfi samningsins er sama sem söltunarleyfi, þá hefði eins mátt nota ísl. leppa áður, eins og nú eftir þessum samningi. En reynsla síðustu ára mælir þessu í gegn. Norðmenn munu aldrei hafa saltað meira hér á landi en þeir gerðu 1927, og þá munu þeir hafa saltað 32 þús. tunnur. (Rödd af þingbekkjum: Hvernig veit hv. þm., að það er ekki meira?). Íslenzkar skýrslur sýna það. Ég held, að þær séu frá forseta Fiskifélagsins. Ég hefi þess vegna það að segja um málið, að ef ég veit þetta manna bezt, þá verða aðrir að beygja sig undir þann dóm minn, að ég hefi af mikilli reynslu ályktað það, að þetta ákvæði muni ekki verða misnotað. Enda er ekki hægt að misnota það, nema fyrir þjónustu íslenzkra ríkisborgara. Hverjar getsakir, sem ég vil gera Norðmönnum í þessu efni, þá vil ég ekki gera Íslendingum þær getsakir, að þeir ljái lið sitt til slíkra óþrifaverka.

Þá þótti hv. þm. Ak. ég vera óbilgjarn í ádeilu minni, þegar ég í fyrri ræðu minni sagði, að mér þætti það stappa nærri rakafalsi, að telja, að Norðmenn með þessum samningi öðluðust aðstöðu til að salta í landi 150—200 þús. tunnur, til samkeppni við Íslendinga. Ég geri þá grein fyrir þessari ákæru minni á hendur þeim mönnum, sem slíkum rökum hafa beitt, að þeim hefði borið að koma með þær staðreyndir, sem liggja í augum uppi. — Hv. þm. vill færa orðum sínum stað með þeim rökum, að ef samningarnir verða samþ., þá sé hægt, með sérstakri tollalöggjöf, sem hann sjálfur stingur upp á, að loka glompunum á fiskveiðalöggjöfinni. En einmitt þetta, að hv. þm. talar um, að þessi löggjöf eigi að loka glompunum á fiskveiðalöggjöfinni, — einmitt það sannar, að það er þeim glompum, sem þarf að loka, jafnt hvort sem þessi samningur verður samþ. eða ekki. Og í þessu liggur það, að veilan er hjá okkur í ákvæðum fiskveiðalöggjafarinnar, en ekki sérstaklega í þessum samningi. Enda er það vitaskuld á valdi Íslendinga að loka þeim glompum og samþ. löggjöf, þó að samningurinn verði samþykktur. Hitt er annað mál, að ef við förum þá leið, þá væri ekki viðfelldið að samþ. samninginn, því að það væri að fara aftan að Norðmönnum í þessu efni. Deilan á millj hv. þm. og mín er raunverulega ekki önnur en sú, að mér hefir ekki þótt hann taka það nógu skilmerkilega fram, að ljóðurinn á okkar ráði liggur í þeirri veilu, sem er í ákvæðum fiskiveiðalöggjafarinnar, og kemur ekki þessum samningi við. Þetta vil ég, að menn viðurkenni. Hitt má gjarnan segja, að þær glompur, sem þarna eru, séu svo stórar, að það verði að byrgja þær, og ef svo er, þá verðum við að fella samning inn. Ég álít hinsvegar að dómur reynslunnar sé sá, að okkur stafi ekki veruleg hætta af þessum glompum. En ef hin nýja reynsla verður önnur, þá ættum við að taka málið til yfirvegunar, og þó að ég álíti, að þessi hætta sé ekki mikil, og ég sjái hina miklu nauðsyn bænda til að halda opnum þeim kjötmarkaði, sem til þessa hefir verið í Noregi, enda þótt ég í dag sé þessa hugar, þá býst ég við, að ef ég sé nýja og aukna hættu, sem stafaði af fiskveiðalöggjöfinni, þá muni ég hallast á sveif með þeim, sem vilja loka glompunum á fiskveiðalöggjöfinni, enda þótt það kostaði það, að kjötmarkaður okkar í Noregi lokaðist með því. En ég vil ekki gera það fyrr en fengin er reynsla, sem er gagnstæð hinni fyrri reynslu í þessu efni, en ekki er ástæða til að gera ráð fyrir, að svo komnu.