24.03.1933
Neðri deild: 35. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1530 í B-deild Alþingistíðinda. (1805)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Héðinn Valdimarsson:

Ég veit ekki, hverskonar hátterni það er, sem þm. G.-K. er farinn að temja sér hér í hv. d. Hann hefir enga ástæðu til að vanda um við mig, því ég hefi ekkert sagt hér af því, sem gerðist á nýafstöðnum fundi utanríkismálanefndar, en hann sjálfur fer svo einmitt að segja frá því, er þar gerðist. Ef það var leyndarmál, þá er það þm. G.-K., sem hefir ljóstað því upp. Það er ekki svo, að neitt nýtt sé í því, að Íslendingar fái aukin réttindi með verzlunarsamningi. Í því er norski samningurinn ekki frábrugðinn öðrum, því allt nema nauðungarsamningar þjóða á milli veita báðum þjóðum nokkur réttindi. Það eina, sem hægt væri að segja um norska samninginn annað en aðra samninga okkar, er það, að hann veitir öðrum margfalt meiri réttindi heldur en okkur og er það óvanalegt.

Áreiðanlegt er, að við getum ekki sagt, að þjóðir, sem veita okkur beztukjara hlunnindi, hafi gert við okkur óhentugri samninga en við höfum gert við Norðmenn, og því engin ástæða til að varna þeim sömu réttinda, ef Norðmenn fengju þau, enda væri það ómögulegt eftir allra venju um beztukjarasamninga (most favoured nation treatment). Ég vil í þessu efni vitna til þess, sem Sveinn Björnsson sendiherra, sem mun hafa öllu betra vit á þessum efnum en þm. G.-K., segir út af samningunum við Norðmenn frá 1924:

„Þegar Íslendingar íhuga tilslakanir um framkvæmd fiskveiðalaganna, er ákaflega nauðsynlegt að beina athyglinni að því, að eins og samningum Íslands við önnur ríki er skipað, njóta öll önnur lönd sjálfkrafa ívilnana, sem veittar eru einhverju landi, enda þótt hitt landið framfylgi ákvæðum, sem strangari eru. T. d. njóta Norðmenn hagsmuna af þriggja mílna takmörkun á íslenzku landhelginni, enda þótt Noregur sjálfur, eftir því sem frekast er kunnugt, framfylgi gagnvart útlöndum fjögurra mílna takmörkunum“.

Ég veit ekki til, að nokkur mótmæli hafi komið fram gegn þessum skilningi, enda mun það alstaðar vera svo, að sú þjóð, sem hefir beztukjarasamninga við aðra þjóð, verður að láta þeirri þjóð í té hvaða vildarkjör, sem hún kann að bjóða öðrum þjóðum, gegn sérstökum fríðindum hjá þeim.

Ég vona nú, að þdm. séu farnir að sjá, hvaða tjón leitt getur af samþykkt samningsins fyrir okkur Íslendinga. Það er að vísu rétt, að Englendingar hafa um nokkurt áraskeið haft sömu möguleika til að stunda hér síldveiðar eins og Norðmenn, en samningurinn hefir bætt þennan möguleika fyrir þeim, með því að veita þeim meiri rétt en þeir hafa áður haft, og það svo, að það eru mikil líkindi til, að Englendingar eða Skotar taki upp síldveiði hér við land og flytji svo þá síld, sem þeir veiða hér og selja jeppum sínum í land, til Mið-Evrópulandanna, þangað sem Íslendingar eru nú að reyna að vinna markað fyrir sína eigin síld. Ég er ekki að segja, að það sé víst, að Englendingar geri þetta, en við verðum að miða við það, að svo geti farið, að þeir noti þann rétt, sem þeim er fenginn, og það er ákaflega mikið gáleysi af Íslendingum að samþ. þessi réttindi annara þjóða hér við land í því trausti, að þær noti þau ekki. Það er ekkert líklegra en að þjóðirnar noti sér þessi réttindi, enda sækjast þær þess vegna eftir þeim, og a. m. k. er ekki skynsamlegt að búast við öðru.