24.03.1933
Neðri deild: 35. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1540 í B-deild Alþingistíðinda. (1811)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég vil afbiðja allar skýringar hv. þm. Seyðf. á orðum mínum um tímakaup og kjötverð. Hv. þm. fór alveg rangt með samanburð í því efni. Ég var að tala um það, hvað örðugt bændur ættu, og þeir, sem hugsa um erfiðleika vinnandi fólks í landinu, ættu líka að líta á þessa erfiðleika. Ég minntist ekki á neina kauplækkun. Eins og gripið var fram í fyrir hv. þm., mátti helzt ráða það úr orðum mínum, að ég teldi bændur þurfa að fá kr. 1.36 fyrir kjötpundið. Nú kann að vera, að þessi gamla regla hafi raskazt eitthvað, svo að hún eigi ekki við nú. En það var mál verkamanna hér í Rvík um aldamótin, að þeir væru ánægðir með það tímakaup, sem þeir gátu keypt eitt pund af kjöti fyrir. Og þetta leggur hv. þm. svo út, sem ég sé að gera kröfu til þess, að kaup verkamanna í Rvík lækki niður í 25 aura! Þetta er sambærilegt við þau önnur rök, sem hv. þm. hefir flutt í þessu máli, og er það bara eitt atriði af mörgum, sem hann fer blátt áfram rangt með. Hv. þm. sagði, að ég hefði gleymt að benda á ráðstafanir til þess að koma kjötpundinu upp í 1,36 kr. Ég man ekki betur en að hv. þm. gleymdi því líka. En það rétta mun vera, að þarna sé ekka bara um gleymsku að ræða hjá okkur. Hvorugur okkar kann óbrigðult ráð til þess. En eitt af ráðunum er að samþ. þennan samning, og það er eitt af þeim fáu ráðum, sem okkur standa til boða. Hér er um það að ræða, hvort Alþ. vill hverfa að þessu ráði. Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. að vera að koma með útreikninga um kaup sjómanna og annað slíkt sem vopn gegn samþ. þessara samninga. Þessir menn missa ekki neitt í við atvinnu, þó að samningarnir komist á. Hv. þm. G.-K. hefir flutt hér í d. góða og nákvæma útreikninga á því, hvað mikils virði af bræðslusíld gæti lokazt markaður fyrir í mesta lagi, ef samningarnir verða samþ., og er það ekki mikið. En það er langt frá því, að ríkisvaldinu sé sama um síldarútveginn, og sést það bezt á því, að nú þegar hafa miklar ráðstafanir verið gerðar af því opinbera til þess að koma fótum undir þessa atvinnugrein, án þess að hugsað væri um að ná fé þaðan handa bændum. Ég vil t. d. henda á ríkisverksmiðjuna á Siglufirði, og nú er komin fram í þinginu till. um að auka síldarbræðslu ríkisins. Ég get auðvitað ekki sagt um afgreiðslu hennar, en hún mun verða athuguð af þingi og stj. með mestu velvild. Þegar þessa velvilja þings og stj. í garð síldveiðanna er gætt, er hart, ef á að loka fyrir litla sölumöguleika fyrir kjöt íslenzkra bænda, þó að síldarútvegurinn þurfi að gefa smávegis tilslakanir.

Hv. þm. sagði, að stj. og meðmælendur samningsins flyttu nú tómar varnir og afsakanir, og sér blöskraði, hvílíkt kapp stj. legði á þetta mál. Það er rétt, að við höldum uppi vörnum, en engum afsökunum. Og það eina blöskranlega í þessu máli er kapp það, sem hv. þm. og samherjar hans hafa lagt á það, að koma þessum samningi fyrir kattarnef. Þeir víla ekki fyrir sér að vera með stórorðar fullyrðingar á þá leið, að ekki þurfi annað en að neita að samþ. þennan samning, og þá muni Norðmenn koma þjótandi og bjóða betri kjör. Allir, sem nokkuð hafa komið nálægt þessum samningum, vita, hvað slíkt er fjarstætt, — þessi samningur inniheldur þau beztu kjör, sem fáanleg voru. (HG: Beztu kjör, sem buðust!) Norðmenn mátu ekki veiðiréttindi sín hér við land meira en svo, að þeir voru mjög tregir til samninga síðastl. vor.

Hv. þm. sagðist ekki vilja standa í mínum sporum, þegar farið væri að semja við Englendinga. Ég tek undir það, að enginn er öfundsverður af því að standa í slíkum samningum. Þeir eru alltaf erfiðir, hv. þm. þekkir það af kaupdeilum og öðru slíku. En þegar það bætist við erfiðleika þá, sem alltaf eru á milliríkjasamningum, að eigin landsmenn gera allt miklu erfiðara fyrir en þarf að vera, þá er samningsstarfið sannarlega ekki öfundsvert. Hv. þm. getur að mínum dómi hætt fyrir framkomu sína í þessu máli með því að bæta yfirleitt sitt samningasiðferði. Það er óskráð regla, að draga ekki flokkspólitík inn í utanríkismál, nema það allra minnsta. Þegar um slík mál er að ræða, standa flestar siðaðar þjóðir sem einn maður, og láta flokkadráttinn falla niður.