28.03.1933
Efri deild: 36. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1555 í B-deild Alþingistíðinda. (1824)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Jón Baldvinsson:

Hv. 1. landsk. hóf sína ræðu með því að ávíta stjórnina fyrir það, hvernig henni hefði tekizt um meðferð þessa máls, að láta það ekki fyrst koma fyrir lokaðan fund í Alþingi áður en það var gert opinbert, eins og oft er gert með slík mál sem þetta. Ég ætla nú ekki að ávíta stjórnina fyrir þetta, en ég ætla að ávíta hana fyrir það, hversu lengi hún dró það, að gera almenningi kunnugt efni þessa samnings, það er að segja þá hlið, sem fjallar um fríðindi Norðmanna hér við land og snertir hagsmuni ísl. sjómanna. Það var þegar á síðastl. hausti kunnugt, hvað það var, sem Norðmenn vildu fyrir Íslendinga gera, hvaða tollívilnanir þeir buðu á ísl. saltkjöti og fyrir hve mikið vörumagn, en hin hlið samningsins var Íslendingum hulin, og það undarlegasta við þá leynd, sem höfð var um hlunnindi Norðmanna hér við land, var það, að það eiga að hafa verið þeir, sem báðu, að þessu yrði haldið leyndu, réttindunum, sem þeir fengu. Maður skyldi halda, að eðlilegra hefði verið, að Norðmenn hefðu viljað láta frekar þegja um þau hlunnindi, sem þeir veittu Íslendingum. Það er óneitanlega eðlilegra, að þeir hefðu talið sér það meiri greiða, en þetta á að hafa verið alveg öfugt. — Þegar svo stjórninni loks þóknaðist að birta samningana er komið langt fram á þing. Það er liðinn meira en mánuður af þingtímanum, þegar samningurinn er borinn fram í frv.formi.

Þegar leið að þingi, leit flokksstjórn Alþýðuflokksins svo á, að óhæfilegt væri að slíkt stórmál og þetta, sem jafnmikið snerti atvinnu fjölda manna á þann hátt að takmarka hana stórlega, væri látið liggja í þagnargildi og ekki kunngert þjóðinni. Þess vegna gerði flokksstjórn Alþýðuflokksins þá kröfu til fulltrúa síns í utanríkismálanefnd, að hann birti það, sem hann vissi um efni samninganna. Þetta var gert ekki síður fyrir það, að komin var vitneskja hingað til lands um að allmargir menn í Noregi hefðu þegar í höndum skrifleg skjöl með innihaldi samningsins og væru farnir að hefja undirbúning á síldarútgerð hér við land á komandi sumri 1933, til þess að nota sér þau fríðindi, sem samningarnir munu veita. Þetta var jafnvel komið svo langt, að útgerðarmönnum hér varð kunnugt um það, að gegnum þá menn hér á landi, sem ekki hafa keypt síld af skipum í mörg ár, var þegar í byrjun þings farið að bjóða ísl. síld í Svíþjóð fyrir miklu, miklu lægra verð en við getum veitt hana fyrir og miklu lægra en síld var seld þar í fyrra. Þetta var nú í því landi, þar sem okkar bezti markaður er. Hér gat ekki verið um aðra síld að ræða en þá, er leggja ætti hér á land vegna aukins réttar norskra veiðimanna hér við land.

Þegar um svo þýðingarmikið stórmál var að ræða sem þetta, var það stórkostlega vítavert af stjórninni að birta ekki samningana til þess að þeir menn, sem samningarnir áttu að bitna á, bæði útgerðarmenn, sjómenn og verkamenn, gætu ráðið ráðum sínum og komið fram með uppástungur um það, að bæta bændum á annan hátt þann halla, sem þeir kynnu að verða fyrir, ef samningurinn yrði felldur og saltkjötsmarkaðurinn í Noregi lokaðist.

Ég ætla þá að víkja að sögu þessa máls í stórum dráttum. Í júlímánuði 1922 samþ. Stórþing Norðmanna tollhækkun á kjöti úr 10 aurum upp í 25 aura. Þegar þess er gætt, að íslenzka kindakjötið mun hafa verið eitthvert hið ódýrasta, sem til Noregs fluttist, þá verður ekki annað sagt en að okkur raunverulega hafi verið settir verri kostir en öðrum þeim þjóðum, sem fluttu kjöt til Noregs. Í skýrslum um þetta mál er því að vísu haldið fram, að aldrei hafi sérstaklega verið talað um íslenzka kjötið, en þess er heldur ekki getið í skýrslu um þetta mál, að nefndur hafi verið kjötinnflutningur frá öðrum löndum, er tollurinn kæmi niður á, þó að slíkt megi vel vera fyrir því. Ég er nú ekki trúaður á, að þessi tollur á íslenzka saltkjötinu hafi verið samþ. alveg „óvart“, eða að það hafi aðeins fallið sjálfkrafa undir tollákvæðin, en hafi ekki verið hugsað fyrirfram af Norðmönnum, allra sízt þegar kjöttollsmálið var undirbúið í tollanefnd Stórþingsins, sem varla hefir getað verið ófróð um innflutning saltkjöts frá Íslandi til Noregs.

Það er a. m. k. víst, að Norðmönnum hefir verið það ljóst við endurtekna hækkun á tollinum árið 1923, að hún næði einnig til íslenzka saltkjötsins, og að tollurinn kom þyngra niður á þeim þjóðum, sem ódýrasta kjötið fluttu til Noregs, en í þeim flokki var íslenzka kjötið, einkum þar sem sendimenn Íslands höfðu vakið máls á þessu atriði, og eftir því, sem Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri segir, að „allir Norðmenn“, sem hann hafi talað við, hafi viðurkennt, „að tollurinn á íslenzka kjötinu sé ósanngjarn samanborið við verðmætið“.

Eftir þessa „ósanngjörnu“ tollaálagningu fer þó þrisvar sinnum fram hækkun á kjöttollinum, þannig að um áramót 1923 er tollurinn kominn í 631/3 eyri á kíló.

Allan þennan tíma, sem Norðmenn eru að hækka tollinn á kjöti, sem kemur þyngra niður á Íslendingum en líklega flestum þeim þjóðum, er kjöt fluttu til Noregs, eru Íslendingar að reyna samninga við þá, en árangurslaust allt þangað til í maí 1924, og hafði þá fengizt lækkun á kjöttollinum um 25 aura, úr 63 aur. á kílóið niður í 38 aura.

Það, sem Íslendingar létu á móti, var nokkur tilslökun á framkvæmd fiskiveiðalöggjafarinnar frá 1922, og lofað var af Íslendinga hálfu að framkvæma hana með mjög miklum velvilja gagnvart Norðmönnum. Það má máske eftir atvikum telja, að ekki hafi tekizt afleitlega fyrir okkur samningarnir við Norðmenn 1924, þótt lengi stæði á því að fá þá fram. Einkum ef þeir eru bornir saman við árangur þann, sem orðið hefir af samningum þeim, sem gerðir voru á síðastl. ári við Norðmenn og hér liggja fyrir til umr.

Á þeim árum seldum við nær allt útflutningskjöt okkar til Noregs, og nam sá útflutningur mörgum millj. króna, en allur útflutningur Íslendinga af saltkjöti til Noregs árið 1932 nemur tæpum 700 þús. krónum, og er þó í því innifalið andvirði c. 5000 tunna af kjöti frá árinu 1931, en útflutningurinn alls árið 1932 er talinn að vera 13300 tn.

Þó að því skuli ekki neitað, að mjög mikil þörf sé fyrir íslenzka bændur að halda markaði fyrir íslenzka kjötið í Noregi, þá er nú orðið um ekki hærri fjárhæð að ræða en svo, að ekki væri ókleift að bæta bændum hallann við að missa markaðinn fyrir kjötið í Noregi, heldur en að setja í hættu síldarútveginn, þar sem um er að ræða miklu hærri fjárhæðir en andvirði alls þess kjöts, er nú er von um, að flytja megi til Noregs til sölu þar, en það sem út er flutt af síldarafurðum árið 1932, er sem hér segir:

Saltsíld ..... fyrir kr. 4484810

Síldarlýsi .... — — 1576710

Síldarmjöl ... — — 1288080

eða samtals kr. 7349600

Samningurinn á þskj. 118 um viðskiptamál milli Íslands og Noregs, er forsrh. hefir flutt og ætlazt til, að samþ. verði af þinginu, skjalfestir þá velviljuðu framkvæmd á fiskiveiðalöggjöfinni, sem Norðmönnum var heitið 1924, en auk þess stórfelld aukin hlunnindi Norðmönnum til handa og norskum atvinnufyrirtækjum á Íslandi. Í umr. um þetta frv. hafa verið talin þau hlunnindi, sem Norðmenn öðlast með samningi þessum, og því lýst ýtarlega. Skal ég því aðeins lauslega minnast á hin helztu þeirra. Í þessum samningum er það tekið fram, að réttur Íslendinga eftir honum skuli fara minnkandi ár frá ári, og það eftir uppástungu okkar eigin manna, en hin auknu réttindi Norðmanna skuli haldast þrátt fyrir það. Þetta er sá rauði þráður í þessum samningi, og verður ekki annað sagt en að það sé minnkun fyrir Íslendinga að hafa gert annan eins samning og þetta.

Norðmenn fá leyfi til þess að bæta veiðarfæri sín á íslenzkum höfnum. Ef ráða má af líkum, þá mun það vera ætlun Norðmanna, að allar viðgerðir veiðarfæra og hirðing þeirra í landi sé unnin af skipshöfnunum sjálfum, enda beinlínis veitt til þess lagaheimild. Nú mun sú reglan með ísl. síldveiðiskip, að þegar þau þurfa að láta gera við veiðarfæri sín, þá séu þau látin til þeirra manna í landi, sem hafa viðgerðir veiðarfæra að atvinnu, eins og mun vera á Siglufirði og Akureyri. Enda munu ísl. skipshafnirnar hafa samninga um þetta. Hvað myndi nú stj. gera, ef vinnustéttir þær, sem hlut eiga að máli, legðu bann við afgreiðslu norsku skipanna, nema þeir fylgdu í þessum efnum íslenzkum venjum á síldarstöðvunum! Mundi hún ekki senda ríkislögreglu til þess að vernda „vinnufúsa“ Norðmenn við bætingar neta sinna?

Norðmenn fá leyfi til þess að selja í land meira af síld en áður, þó tekið sé aðeins aukningin eftir skýringu ísl. stj. og samningsmannanna, en sú aukning nam 200—500 tunnum á skip.

Norðmenn hafa greinilega blekkt samningamenn okkar með „móðurskipunum“ svo nefndu, því veiðiskip, sem nota þau, eiga að hafa minni réttindi en hin. Norðmönnum mun hafa reynzt „móðurskipa“-útgerðin svo dýr undanfarið, að þeir vilja gjarnan hætta við það, enda segir og svo í aths. við 6. gr. frv. Norðmenn hafa því alls ekki kært sig um nein réttindi handa „móðurskipunum“, sem þeir segjast sjálfir vilja leggja niður. Og það virðist eiginlega svo af aths. við samninginn, að Íslendingarnir séu hróðugir af því að hafa ekki getað troðið neinum hlunnindum „móðurskipunum“ til handa upp á Norðm., að þeim nauðugum. Má af þessu nokkurnveginn marka, að Norðmenn hafa fengið allt það, sem þeir vildu, úr því þeir komust nauðulega hjá að þiggja það, sem þeir vildu ekki.

Þá eru „fríhafnir“ Norðmanna á Íslandi. Sum norsk blöð, er hingað hafa borizt, kunna sér ekki læti yfir þessum nýju auknu réttindum, er Norðmenn öðlast hér á landi. T. d. blað þjóðernissinna, „Tidens Tegn“, talaði í raun og veru um þetta eins og að Norðmenn fái nú aftur í sínar hendur réttindi á Norðurlandi, er þeir hafi áður haft, og að nú muni norsk framtakssemi geta notið sín þar aftur, eins og verið hafi áður en Íslendingar þrengdu kosti þeirra með löggjöf.

Við höfum nú dæmin af því, hvernig Norðmenn fara að því að helga sér lönd, með því að stunda þaðan fyrst veiðiskap og slá svo eign sinni á heil lönd, eða stór landsvæði. Ég vil vona, að ekkert slíkt sé í huga Norðmanna að því er Ísland snertir, en aðfarir þeirra í norðurhöfum benda því miður á ákveðna landvinningapólitík, og hvarflar hugur manna ósjálfrátt til þess í sambandi við þá samninga, sem hér liggja fyrir.

Þegar fiskveiðalöggjöfin var sett, þóttust Norðmenn geta haldið áfram veiðum sínum utan landhelgi og gerðu út leiðangra með stórum móðurskipum, sem tóku við veiðinni af smáskipunum og verkuðu síldina. En eins og áður er vikið að, vilja Norðmenn helzt losna við stóru skipin, enda mun hafa verið tap á þeim mörg árin, og bar margt til, sem ekki verður hér rakið, en aðalástæðan mun þó hafa verið sú, að ekki var hægt að gera síldina að eins góðri vöru eins og þegar hægt var að salta í landi eða landhelgi.

Þá er veðurfarið hér við land þannig, að stundum er stöðug austan- eða austnorðanátt á síldveiðitímabilinu; þannig hefir mér verið skýrt frá af skipstjóra, sem lengi hefir stundað síldveiðar, að í slíkri átt sé venjulega lítil veiði utan landhelgi, en sumstaðar við Norðurland þá gnægð síldar rétt innan við landhelgislínu. Í slíku veðurfari liggja norsku skipin við landhelgislínuna og draga inn fyrir, eða láta sig „reka“, eins og þeim er nú heimilt eftir samningnum, eða ekki verður talið þeim til sektar, nema það sannist, að þeir hafi vísvitandi og viljandi farið í landhelgina. Nú er það algengasta viðbára allra landhelgisbrjóta, að skip þeirra hafi rekið inn í landhelgi fyrir straumi og veðri. Ekki mundu Norðmenn vera nein undantekning frá þessu, allra sízt, þegar þeir geta sýnt það svart á hvítu, að ekki ber að sekta þá fyrir landhelgisbrot, nema þeir játi því, að hafa vísvitandi brotið landhelgislögin.

Landhelgisgæzlan var talsvert torvelduð með hinni „velviljuðu framkvæmd“ á fiskiveiðalöggjöfinni samkv. samkomulaginu frá 1924, en ég fæ ekki betur séð en að öll landhelgisgæzla sé þýðingarlítil eftir að búið er að samþ. þessi ákvæði í samningnum.

Ég veit, að því er haldið fram af meðmælendum þessa frv., að það geti ekki spillt neinu verulegu fyrir síldveiðum okkar að samþ. samninginn, því að Norðmenn hafi haft svo mikil réttindi samkv. samningnum frá 1924; en með réttindum til aukinnar sölu síldar í land af norskum skipum hefst nýtt leppmennskutímabil, eins og raunar var nokkuð byrjað þegar síldareinkasalan tók til starfa, og það veitir Norðmönnum sölurétt yfir stórmiklu af síld, saltaðri í landi, og sem er betri og útgengilegri vara en síld, sem verkuð er í skipum úti á rúmsjó.

Hin ómótmælanlegu auknu réttindi munu verða til þess að auka norska útgerð hér við land, og er þegar orðin mikill undirbúningur í Noregi að nota sér þá bættu aðstöðu, sem samningurinn veitir, þegar á næsta sumri.

Ég vil engan veginn fullyrða, að við Íslendingar höfum verið við því búnir að fylla skörðin í atvinnu verkafólks í sumum stöðum á landinu, þegar hin stranga fiskveiðalöggjöf var sett 1922. Og þessa vegna hafi komið til mála að veita undanþágur frá henni, þar sem sérstaklega stóð á. En nú er svo komið, að yfir síldveiðatímann liggur fjöldi allur af skipastólnum óhreyfður. Aðeins lítill hluti togaranna fór á síldveiði síðastl. sumar, 10 af 38. Aftur á móti fór talsvert af línubátum og mótorbátum af Suður- og Vesturlandi.

Mér er sagt, að um 300 sjómenn hafi farið á línuveiðurum á síldveiðar héðan úr Reykjavík á síðastl. sumri og auk þess mesti fjöldi á norðlenzk skip.

En nú er það mikið vafamál, hvort þessi skip fara á síldveiðar á sumri komandi, ef norski samningurinn verður samþ. Eigendur og útgerðarmenn línubáta og mótorbáta af Vestur- og Suðurlandi hafa margir tjáð mér, að Norðmenn öðlist með samningnum svo góða aðstöðu til að keppa við síldveiðar Íslendinga, að þeir þori ekki að láta skip sín ganga á síldveiðar, vegna þess að fyrirsjáanlegt tap hljóti að verða á útgerðinni.

Þótt eins mörg skip og komast að hjá síldarbræðslu ríkisins á Siglufirði leggi þar upp afla sinn, þá ber útgerðarmönnum saman um það, að með núverandi verði á bræðslusíld sé óhugsandi, að útgerð geti borið sig, nema skipin geti saltað nokkuð af aflanum og selt með hærra verði en bræðslusíldina. En með aukinni sölu Norðmanna í land og tilheyrandi leppmennsku sé sala á saltsíld óhugsandi, nema með svo lágu verði, að eigi borgi sig útgerðin.

Þá hefir samningurinn þau áhrif, að með vaxandi stórhug Norðmanna á aukinni síldarútgerð hér við land, dvína vonir íslenzkra síldveiðimanna um atvinnu af síldveiðunum.

Samningarnir verða því óhjákvæmilega til þess, að mikill fjöldi sjómanna, sem atvinnu hefir haft á sumrin af síldveiðum, verður atvinnulaus yfir sumartímann. Hvað ætlar hæstv. stj. að gera fyrir það fólk, er þannig verður svipt atvinnu sinni bezta tíma ársins. Ætlar hún að auka svo verklegar framkvæmdir, að þetta fólk geti haft þar atvinnu?

Það væri ekki að undra, þótt vinnustéttum landsins dytti í hug að neyta máttar samtaka sinna, til þess að hindra þá útlendu menn að starfi við framleiðslu hér við land, sem tækju frá þeim atvinnu þá, er þeir hafa sér og sínum til lífsuppeldis.

Og það er ríkisstjórnin, sem beitir sér fyrir því að svipta fjölda landsmanna atvinnu sinni, minnka íslenzka framleiðslu, svo nemur mörgum millj. króna, sem minnkar aftur möguleika landsins og landsmanna til þess að kaupa sér nauðsynjar þær, er flytja þarf til landsins.

Þetta er hættan, sem vofir yfir og ríkisstjórnin og þeir, sem samþ. frv., bera ábyrgð á. Sú aukning á atvinnuleysi í landinu, sem stofnað er til með þessum samningum, er margfalt þyngri á metum í mínum augum en þau hlunnindi, sem talið er, að íslenzkir bændur fái með þeim. Og þó að ég álíti, að Norðmenn hafi borið af okkur í þessum samningum, þá er ég ekki að álasa þeim fyrir það; þeir hafa aðeins verið hyggnari og slyngari samningamann en þeir, sem við áttum á að skipa. En fyrst við höfum komið auga á, hve mikla hættu þessir samningar fela í sér fyrir okkur, þá álít ég, að það bezta, sem við getum gert, sé að fella samningana. Því aðgætandi er, að þeir veita einnig öðrum þjóðum en Norðmönnum þessi fríðindi.

Við erum lítil þjóð, Íslendingar, og verðum þess vegna að hafa vinsamleg viðskipti við aðrar þjóðir, en við verðum því fremur að hafa það hugfast að láta ekki ganga á tvímælalausan rétt okkar. Og ekki sízt, þegar aðstaða okkar til samninga er eins góð og gagnvart Norðmönnum í þessu máli.