12.04.1933
Efri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1663 í B-deild Alþingistíðinda. (1928)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Bjarni Snæbjörnsson [óyfirl.]:

Eins og ég tók fram í gær, þá er ég í þessu máli það bjartsýnn, að ég held, að þó að við samþ. ekki þennan samning og búum þá sendimennina betur út frá þingsins hálfu, þá muni samt sem áður verða samkomulag um samning við Norðmenn, sem er betri og hagstæðari í okkar garð en þessi er. Ég álít sem sé, að interessur Norðmanna, bæði hvað verzlun og siglingar snertir hér við land, séu miklu fleiri en þessi ívilnun um kjöttollinn, sem við fáum. Þess vegna tel ég það engan skaða, þótt við segjum upp samningnum. Og um hitt atriðið, sem hv. 1. landsk. drap á, að stj. geri þetta að fráfararatriði, vil ég segja það, að því trúi ég alls ekki fyrr en ég heyri það frá henni sjálfri. Ég er heldur ekki eins bjartsýnn og hv. 1. landsk. að halda að þessum samningi verði sagt upp eftir t. d. eitt ár. Hæstv. ráðh., sem tók hér til máls í gær, lét svo um mælt, að eftir nokkur ár væri það sín trú, að Íslendingar vildu gera samning aftur, til þess að fá hækkað kjötútflutningsmagnið til Noregs. Það sýnir, að ekki er meining hans að koma því þannig fyrir, að kjötútflutningurinn til Noregs hverfi. — Hv. 5. landsk. sagði, að ef þessi samningur yrði að 1., gilti hann sennilega næstu ár og hvernig vill hann svo leysa Ísland frá þeim samningi? Jú, hann vill leysa það á þá lund að koma á ríkiseinkasölu með síld, og ég tek þetta sem slæman fyrirboða. Hann er áhrifamikill maður innan flokks hér í d., og allir vita, að hv. 2. landsk. er meðmæltur slíku fyrirkomulagi og þá kemur sama bölvunin fyrir aftur, sem létt var af í fyrra. Þetta gerir það að verkum, að mér finnst sjálfsagt að vera á móti samningnum eins og hann er nú.

Úr því að ég stóð upp, langar mig til að víkja ofurlítið að hv. 2. þm. Árn., sem mér virtist segja, að ég hefði farið rangt með orð hans, en það er ekki rétt. Ég skrifaði upp eftir honum, af því að mér þótti það svo einkennilegt, en það kemur auðvitað stundum fyrir, að það kemur stundum lítið eitt út úr honum, sem hann vildi ekki hafa sagt eða a. m. k. öðruvísi en hann vildi sagt hafa. Hann sagði: „Norðmenn hafa brotið flest ákvæði í veiðilöggjöfinni og vaðið hér uppi“. Ég veit ekki, hvort þetta er nægilegt til þess að sýna fram á, hve torvelt verður að framkvæma landhelgisgæzluna vegna frekju Norðmanna. Ennfremur sagði hv. þm.: „Þjóðin verður að reyna samningana til þess að geta risið upp sem einn maður, ef illa reynist“. Þetta er eitt af rökunum fyrir því að samþ. samninginn. Það er alveg sama og t. d. ef einhver maður væri álitinn vitskertur, væri sjálfsagt að setja hann fyrir banka og láta hann framkvæma allan þann óskunda, sem hann gæti, til þess að þjóðin gæti séð, að hann væri vitskertur.