27.04.1933
Efri deild: 57. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1698 í B-deild Alþingistíðinda. (2018)

98. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

Frsm. (Pétur Magnússon) [óyfirl.]:

Frv. þetta er flutt af hv. þm. Vestm. eftir ósk bæjarstj. í Vestmannaeyjum og hefir nú gengið gegnum hv. Nd. og mætti þar lítilli mótstöðu.

Hvað tekjustofna snertir, þá er Vestmannaeyjakaupstaður verr settur en aðrir kaupstaðir landsins, því að hann hefir enga aðra tekjustofna en aukaútsvörin, og í árferði eins og nú er innheimtast þau mjög illa, svo illa, að í mörgum tilfellum mun ekki vera hægt að ná þeim inn. Úr þessum örðugleikum bæjarsjóðsins er frv. ætlað að bæta, þar sem bæjarstj. er heimilað að leggja aukavörugjald á allar vörur, sem flytjast að og frá Vestmannaeyjum. Eins og nú standa sakir er vörugjaldið allhátt, og verður þessi hækkun á því gagnvart Vestmannaeyjum því óneitanlega til þess að hækka vöruverð þar, en þrátt fyrir það sá allshn. sér ekki fært að leggjast á móti málinu, sérstaklega líka þegar þess er gætt, að þessi heimild á ekki að gilda lengur en til ársloka 1935.

Eins og frv. er nú úr garði gert, myndi gjald þetta ná jafnt til þeirra vara, sem fluttar væru frá Vestmannaeyjum til annara héraða, t. d. til Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu, og einnig á vörur, sem sendar kynnu að vera til Vestmannaeyja frá þessum héruðum, til útflutnings þaðan. Að athuguðu þessu máli gat n. ekki fallizt á að heimila það, að sérstök héruð utan Vestmannaeyja yrðu skattskyld þangað. Hún telur það óeðlilegt og ekki geta komið til greina, að íbúar annara héraða verði skattlagðir fyrir það eitt, að erfitt er að ná inn útsvörum í Vestmannaeyjum. Fyrir því leggur hún til, að undanþegnar gjaldi þessu séu vörur, sem innfluttar eru til stofnana eða einstakra manna, búsettra í öðrum héruðum, eða koma frá þeim til útflutnings, enda þótt settar séu á land í Vestmannaeyjum.

Hin brtt. n. er svo lítilfjörleg, að ég sé ekki ástæðu til þess að gera hana að umræðuefni. — Vil ég svo f. h. allshn. leggja til, að frv. verði samþ. með þessum tveimur breytingum.