27.04.1933
Efri deild: 57. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1753 í B-deild Alþingistíðinda. (2095)

107. mál, happdrætti fyrir Ísland

Jón Þorláksson:

Ég get ekki gert að því, þótt hv. 2. landsk. þyki það óskiljanlegt, að ég skuli vilja greiða frv. þessu atkv. og sér enga frambærilega ástæðu fyrir því, vegna þess að ég sé ýmsa annmarka á frv. Ástæðan fyrir þessu liggur þó ekki langt undan landi; hún er sú, að ég vil greiða fyrir því, að háskólinn geti eignazt hús yfir sig. Að hv. 2. landsk. telur þetta óskiljanlegt, hlýtur að grundvallast á hans eigin afstöðu til þessa máls. Ég veit, að allir þeir hv. dm., sem eru sammála mér um það, að æskilegt sé, að háskólinn verði byggður, telja þessa ástæðu fullkomlega skiljanlega.

Þá taldi hv. 2. landsk. það galla á frv., að 1. frá 1926 um heimild til að stofna happdrætti héldu gildi. En þetta er skakkt álitið hjá hv. þm. Í upphafi 3. gr. er lagt bann við, að stofnuð séu önnur happdrætti hér á landi, og þar með er sú heimild, er 1. frá 1926 veittu, með skýrum orðum afnumin. (JBald: En væri ekki viðkunnanlegra, að beint væri tekið fram, að 1. væru numin úr gildi?). Það væri að vísu ekkert á móti því, að þetta hefði staðið í frv., en ákvæði frv. eru þó nægilega skýr í þessu efni, enda mætti ávallt afnema l. frá 1926 með sérstökum l. Verði hinsvegar ekkert úr háskólabyggingu, stendur heimildin frá 1926, og má þá nota hana.

Þeir gallar, sem eru á frv., skipta ekki verulegu máli í framkvæmd 1. En þessi frágangur frv. er þó leiðinlegur og ekki samboðinn svo virðulegri stofnun sem Háskóli Íslands er, og sem eiga mun verulegan þátt í samningu þessa frv. En ég sé þó ekki, að þeir agnúar, né heldur það, sem hv. 2. landsk. sagði með tilvitnun í l. frá 1926, sé næg ástæða fyrir því að taka frv. út af dagskrá.