31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

1. mál, fjárlög 1934

Frsm. fyrri kafla (Ingólfur Bjarnarson):

Það mun þegar vera liðinn réttur hálfur mánuður síðan fjvn. skilaði brtt. sínum við fjárlagafrv. Má því segja, að það sé ekki vonum fyrr, að þessi 2. umr. byrjar. Ég skal fyrir mitt leyti ekki tefja það með löngum málflutningi fyrir hönd fjvn., að henni megi ljúka sem fyrst.

Frá starfi n. hefir verið skýrt í nál. og mun ég endurtaka fátt, sem þar er sagt, læt nægja að vísa til þess. Niðurstaðan af starfi n. er sú, ef brtt. hennar verða samþ., að tekjuhalli á sjóðsyfirliti frv. verður fullar 16 þús., í stað þess að samkv. frv. eins og það kom frá hæstv. stj. er áætlaður tekjuafgangur rúmar 350 þús. Þegar á þetta er litið, virðist árangurinn af starfi n. ekki hafa orðið sem beztur, enda skal ég fúslega játa, að n. hefði kosið hann betri. Hinsvegar vil ég benda á, að skakkaföll þau, sem frv. virðist hafa orðið fyrir í meðferð n., eiga aðallega rót sína að rekja til þess, að n. sá sig nauðbeygða til þess að gera till. um lækkun teknanna, er nema 475 þús. kr., sem er um 125 þús. kr. hærri upphæð en tekjuafgangurinn var í frv. Þrátt fyrir þessa tekjulækkun lítur n. svo á, að teflt sé á fremsta hlunn með tekjuáætlunina og hún sé ekki eins varleg og oftast áður, miðað við þær horfur, sem blasa við framundan. Ef það er athugað, hvernig ríkistekjurnar hafa reynzt undanfarinn tíma, kemur það í ljós, að á árunum 1926—1931 hafa þær orðið að meðaltali 14,6 millj. á ári. Þrjú síðustu árin nema þær 16 millj. að meðaltali, en síðasta árið, 1931, eru þær komnar ofan í 15,2 millj. Tölur þessar hefi ég tekið eftir endurskoðanda ríkisins og vænti því, að þær séu fullkomlega ábyggilegar. Samkv. skýrslu fjmrh. í byrjun þingsins um afkomu síðastl. árs er svo að sjá, að tekjurnar hafi reynzt 1932 11,1 millj. En sú upphæð er þó ekki sambærileg við þær upphæðir, sem ég nefndi fyrr, vegna breyttrar reikningsfærslu nú síðasta ár. Það ár eru tekjur af ríkisstofnunum, t. d. pósti og síma, aðeins taldar nettó, í stað þess, sem þær voru áður taldar brúttó, og nemur sú skekkja, að mér skilst, um 2,1 millj. Hefðu þá tekjurnar, reiknaðar á sama hátt og áður, numið 1932 um 13,2 millj., sem er um 2 millj. lægra en næsta ár á undan, og er það stórfelld lækkun teknanna, sem kemur þar fram á einu ári.

Í fjárl. þeim, sem nú gilda, eru tekjurnar áætlaðar 10,6 millj., en í fjárlagafrv. fyrir 1934 eru þær áætlaðar 11,5 millj. Þetta þykir n. allt of hátt áætlað, og leggur því til, að tekjuáætlunin verði færð niður um 475 þús. Mun þrátt fyrir það vera í hæsta lagi. Eins og hv. þm. er kunnugt, hefir allmikill tekjuhalli orðið síðastl. ár, meðfram vegna lækkandi tekna, því það hefir reynzt erfitt að þrýsta niður útgjöldunum til jafnvægis á móti tekjurýrnuninni. Þannig varð tekjuhallinn t. d. síðastl. ár um 21/4 millj. kr., þegar teknar eru inn- og útborganir ársins í heild. Nú má að vísu vænta þess, að útkoma þessa árs verði betri en síðastl. árs, m. a. sökum þess, að fjárl. þ. á. munu vera meira en 1 millj. kr. hagstæðari hvað útgjöldin snertir en næsta ár á undan. Þó er þess varla að vænta, að fullt jafnvægi náist, nema þá með auknum ríkistekjum, eins og talað hefir verið um raunar, en lítið bólar á ennþá.

Þá sýnist mér ekki betur horfa með jöfnuð á fjárlfrv. fyrir 1934. Að sjálfsögðu má þó komast lengra um sparnað útgjaldanna en þar er gert, ef samhugur hv. þm. væri fyrir hendi í því efni. En hvort svo er, sker reynslan brátt úr við atkvgr. þá, sem fyrir liggur. Reynist svo, að áhugi sé hjá hv. þm. um lækkun útgjaldanna, mun fjvn. hafa hug á að bera fram við 3. umr. frekari sparnaðartill. Eins og nú horfir um fjárhag ríkisins, þá hefir fjvn. talið það skyldu sína og óhjákvæmilega nauðsyn að sporna á móti nýjum útgjöldum, jafnvel þó að til nytsemda horfi, og fella niður af frv. ýmsa liði, er hún telur ekki hafa rétt á sér eins og ástandið er nú. Það er því undantekning, að n. hefir lagt til að hækka framlög til vegagerða lítið eitt, og er það gert sérstaklega með það fyrir augum, að sú ráðstöfun yrði einskonar atvinnuleysishjálp. Og ég býst við, að óhjákvæmilegt verði að ganga lengra inn á þá braut, áður en til fulls er gengið frá frv.

Horfurnar eru þá þessar, að verði till. n, samþ., þá er tekjuhallinn á frv. 16 þús. króna. Tekjurnar eru þó að dómi n. áætlaðar í fyllsta lagi, ótaldar allar útgjaldaheimildir, er felast í frv., og ekkert til að mæta þeim útgjöldum, sem bætast kunna í frv. í meðferð þingsins, né heldur til að mæta þeim ófyrirséðu útgjöldum utan fjárlaga, sem alltaf hljóta að koma fram, meiri eða minni, eftir sérstökum lögum og þar fyrir utan, sem fjáraukalög hvers árs bera ljósast vitni um og sízt verða venju minni á krepputímum. Nú er það svo, að fram eru komnar hér í hv. d. brtt. til útgjalda frá ýmsum þdm., er nema samtals 1 millj. 352 þús. En einnig till. til sparnaðar, er nema 26—500,00. Útgjaldaaukningin yrði því, ef till. þessar yrðu samþ., 11/3 millj. kr. Auk þessa eru till. um ábyrgðarheimildir, er nema 1½ millj. Ég hefi viljað gera tilraun til að skýra, hvernig málið lægi fyrir, svo hv. þd.m. gætu haft það til hliðsjónar, þegar að því kemur að taka ákvörðun um, hvort fært sé að bæta miklu af fyrirliggjandi útgjaldabeiðnum í frv., sem nema, eins og ég tók fram, samtals um 11/3 millj.

Skal ég svo víkja nokkrum orðum að brtt. þeim, sem n. flytur við þennan kafla frv., er ég á að mæla fyrir, og er þá fyrst að snúa sér að tekjubálknum.

Fyrsta brtt. lýtur að því að lækka stimpilgjaldið um 25 þús. kr., úr 425 þús. niður í 400 þús. Ef litið er á reynslu undanfarinna ára þá hefir gjald þetta reynzt nokkuð jafnt. Meðaltal 6 síðustu áranna er 415 þús. kr., en síðastliðið ár nam það ekki nema 411 þús., og með hliðsjón af því sýndist n. sjálfsagt að lækka áætlun þá, sem fyrir liggur.

Næsta brtt. er um, að áfengistollurinn verði lækkaður um 50 þús., úr 500 þús. niður í 450 þús. Um þennan tekjulið er það að segja, að hann hefir reynzt mjög breytilegur eftir árferði. Að meðaltali hefir hann numið 6 síðastl. ár, að undanteknu árinu sem leið, 608 þús. En 1932 er hann aðeins 457 þús. Að sjálfsögðu hefir kreppuástandið afarmikið að segja gagnvart þessum tekjustofni. Þorði n. því ekki, eftir að hafa borið sig saman við forstjóra áfengisverzlunarinnar, að gera ráð fyrir, að hann myndi reynast næsta ár meiri en 1932, og leggur því til, að hann verði lækkaður um áðurgreindar 50 þús.

Þá er 3. brtt. n. um að lækka tóbakstollinn um 50 þús. kr. Meðaltal þessa tolls er síðustu 7 árin tæp 1180 þús., og hefir hann heldur farið hækkandi þetta árabil fram að síðastl. ári, en þá reynist hann ekki nema 1046 þús. Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að sýnilegt er, að vegna tóbakseinkasölunnar, sem kom til framkvæmda í ársbyrjun 1932, hefir innfl. 1931 orðið óeðlilega hár, en að því skapi minni 1932. Þykir því ekki rétt að miða tollinn 1934 við þá útkomu, en hinsvegar óvarlegt að áætla hann hærri en meðaltal hins umgetna árabils, þegar líka ennfremur þess er gætt, sem forstjóri einkasölunnar fullyrti, að kreppan hafi þó nokkur áhrif á kaup tóbaksvaranna. Leggur n. því til, að tollur þessi verði færður úr 1200 þús. niður í 1150 þús. Býst hún þó við, að áætlunin muni verða í hæsta lagi, ef kreppan heldur áfram.

Fjórða brtt. er um, að annað aðflutningsgjald lækki úr 150 þús. niður í 100 þús. Þetta hefir verið traustur tekjustofn fram að síðastl. ári. Meðaltal hans hefir verið um 220 þús., þar til árið sem leið, að hann nær ekki nema 91 þús. Að hann hefir farið svona mjög niður, er að mestu vegna innflutningshaftanna. Fjvn. byggir því till. sína um að lækka þennan lið á því ástandi, sem nú er. Með því að áætla hann 100 þús. er hann þó hærri en hann hefir reynzt síðastl. ár.

Þá er 5. brtt. fjvn. um að vörutollurinn sé færður niður um 100 þús., úr 1,3 millj. niður í 1,2 millj. Tollur þessi er mjög breytilegur, sem fer eðlilega eftir árferði. Þannig nam hann t. d. árin 1929 og 1930 um 2 millj. kr., en síðastl. ár ekki nema 1,2 millj. N. telur ekki varlegt að áætla meiri tekjur af honum 1934 en hann reyndist síðastl. ár, eða 1,2 millj.

Sjötta brtt. er um að færa verðtollinn niður úr 1,1 millj. niður í 1 millj. Það er töluvert erfitt að gera sér ljósa hugmynd um, hvað þessi tekjuliður muni reynast. Rakni eitthvað fram úr því ástandi, sem nú er, má telja víst, að tekjur af honum aukist frá því, sem þær eru nú. En síðastl. ár hafa þær reynzt mjög mismunandi, enda hefir tekjuákvæðum hans verið breytt dálítið. Síðastl. 7 ár hefir meðaltal hans reynzt um 1550 þús. kr. Hæst komst hann 1930; þá nam hann 2 millj. 337 þús., 1931 var hann 1540 þús., en síðastl. ár reyndist hann ekki nema 760 þús., eða tæplega 1/3 af því, sem hann var fyrir 2 árum. Lækkun þessi stafar að mestu af innflutningstakmörkununum, sem koma mjög hart niður á þær vörur, sem tollur þessi hvílir á. Þá hefir almenningur líka sparað mjög kaup á verðtolluðum varningi, t. d. álnavöru. En það getur naumast orðið nema um tiltölulega takmarkaðan tíma, sem hægt er að spara kaup á þeirri vöru jafnmikið. Þá hafa verzlanir líka gengið mjög á birgðir sínar hvað vörur þessar snertir síðastl. ár. Það er því sýnilegt, að tollur þessi muni heldur hækka frá því, sem hann var síðastl. ár, að óbreyttu því ástandi, sem nú er.

Leggur n. því til, að hann verði áætlaður 1 millj. árið 1934, og er það þó hærra en hann reyndist síðastl. ár.

Eftir að hafa athugað allnákvæmlega reikninga póstmálanna fyrir síðastl. ár og átt samtal við póstmálastjóra um horfurnar fyrir árið 1934, sýndist n., að tekjurnar séu of hátt áætlaðar sem svarar a. m. k. 100 þús. kr. í fjárlagafrv. er ekki áætlaður neinn rekstrarhalli á póstsjóði, en árið sem leið hefir þessi halli orðið fullar 100 þús. kr., og er ekkert sem bendir til þess, að sá halli verði minni á næsta ári. Ef sömu ákvæði um innflutningshöft gilda, sem nú eru, eins og við er búizt, þótti n. sýnt, að rétt væri að lækka áætlun 3. gr. A. I. um 100 þús. kr. Þar af leiðir, að breyta þarf nokkrum liðum 3. gr. til samræmingar við það. Þá eru laun samkv. 3. gr. A. II. 1. a. vantalin í frv. um 10 þús. kr., sem n. gerir till. um að leiðrétta.

Fleiri till. hefir n. svo ekki gert við tekjubálkinn, en ég vil þó geta þess, að eftir að hún skilaði sínum brtt. hafa henni borizt upplýsingar um það, að tekjur af vélsmiðju ríkisins mundu vera áætlaðar allt of háar, en þær eru í frv. áætlaðar 25 þús. kr. Síðastl. ár hefir hún sama sem engar tekjur gefið, og nú eru þær horfur, að verksmiðjan fái mjög lítið til að vinna, svo það eru ekki líkur til, að hún gefi teljandi tekjur árið 1934. Hinsvegar skal ég geta þess, að n. hafa einnig borizt upplýsingar um aðrar ríkisstofnanir, sem líkur eru til, að gefi af sér meiri tekjur en áætlað er, t. d. tóbakseinkasalan, svo ætla má, að þar vinnist upp fyllilega það, sem á hann að vanta frá vélsmiðjunni.

Þá eru 11., 12. og 13. brtt. n., sem fela í sér lækkun á nokkrum gjaldaliðum, sem eiga að greiðast í dönskum kr., en umreikn. í frv. í ísl. kr. með gengi 115. Leggur n. til að lækka þessa liði, vegna gengislækkunar dönsku krónunnar, sem varð eftir að frv. var samið. Þessir liðir eru: 1) Vextir af dönskum lánum, sem lækka um rúmlega 17 þús. kr. 2) Borðfé konungs, sem lækkar um 9 þús. kr., og 3) meðferð utanríkismála, sem er lækkað um 1800 kr., samtals um 28 þús. kr. N. er að sjálfsögðu ljóst, að gengið getur breytzt, en hinsvegar þótti henni sjálfsagt að miða við það gengi, sem nú er á dönsku krónunni.

Þá er 14. brtt. aðeins afleiðing af þeirri breyt., sem gerð var í fyrra á læknishéraði Reykjavíkur, en raskar á engan hátt þeirri skipan, sem nú er um þessa hluti.

N. hefir lagt til með 15. brtt., að styrkur til Lúðvíks Nordals, kr. 1000, falli niður. Þessi styrkur mun hafa verið veittur sem uppbót fyrir læknisstörf hans í Árnessýslu, en nú er þessi læknir ráðinn við spítalann á Reykjahæli og hefir þar sæmileg laun. Þótti því n. sjálfsagt, að styrkur þessi félli niður, enda mun læknirinn sjálfur líta svo á, að það sé réttmætt.

16. brtt. er um það, að burt verði felldur utanfararstyrkur til héraðslækna. Fjvn. sá sér ekki fært að mæla með þessari fjárveitingu, þótt hún hinsvegar játi, að utanfararstyrkir til lækna eigi mestan rétt á sér af utanfararstyrkjum. En n. tók þá stefnu að skera niður alla utanfararstyrki að þessu sinni. Varð hún því að láta styrki til læknanna fylgjast með, enda þótt hún teldi þá einna þarfasta.

Þá er 17. brtt. aðeins töluleiðrétting. Þá kemur nú að nokkrum till. n. um ný framlög til vega. Það kann nú að þykja nokkur mótsögn í því að bæta við útgjöldum þessum jafnframt því, sem lagt er til að fella niður ýmsa útgjaldaliði, og það þótt um þarfa hluti sé að ræða. En þessar brtt. byggjast fyrst og fremst á því, að ýms héruð hafa orðið allmikið útundan um opinberar framkvæmdir, en almenningi hinsvegar mikil nauðsyn að geta fengið vinnu við þær sem atvinnubótahjálp. Fyrir þessu er gerð nokkur grein í nál., og ætla ég, að hv. þdm. hafi kynnt sér það, sem þar er sagt, og leyfi mér að vísa til þess. Þessi framlög til vega ganga vitanlega mjög skammt í því að bæta úr atvinnuleysinu, en miða þó sem sagt í þá átt, og má geta þess, að í sumum sýslum eru þetta einu framlögin til þjóðvega á þessu ári. Ég vil geta þess, að vegamálastjóri hefir upplýst n. um, að ef vegalagafrv. það, sem nú er fyrir þinginu. nær fram að ganga, þá mundu við það allmikið aukast útgjöld til þjóðvega árið 1934. Um þessa vegakafla, sem n. ber fram till. um, að smáupphæðir verði veittar til, ætla ég ekki að fjölyrða.

Vil aðeins geta þess, að vegamálastjóri mælir með þeim öllum, endar teknar upp úr till. hans. Er fyrst að nefna Saurbæjarveginn, sem er framhald af Vesturlandsveginum, og er ætlazt til, að fyrir þessa upphæð, 4 þús. kr., verði hægt að gera bílfært lengra norður í Dalina. Er það skoðun vegamálastjóra, að þessi upphæð geri mikið gagn. Þá er Kollafjarðarvegur, sem er framhald af Steinadalsvegi, áleiðis til Hólmavíkur. Upphæð þessi er ætluð til að gera vegarkafla bílfæran út með firðinum, með því að leggja hann eftir hlíðinni, nokkru ofar en hann liggur nú. Telur vegamálastj. þessa fjárveitingu nauðsynlega.

Þá er 20. brtt., um 8 þús. kr. framlag til Fjarðarheiðarvegar. Þessi vegur hefir oft verið til umr. hér á þinginu undanfarið, en framlög til hans aldrei náð samþykki þingsins, enda í fyrstu gert ráð fyrir, að til hans þyrfti mjög háa upphæð, eða um 360 þús. kr. Þetta þótti allt of mikill kostnaður miðað við þau litlu not, sem ýmsir töldu, að verða mundi af þessum vegi, sem m. a. mundi liggja undir snjó mikinn hluta ársins. Seinna kom fram áætlun um að lækka þessa upphæð mikið, eða í 100 þús. kr. Nú er enn komið álit frá vegamálastjóra, þar sem gert er ráð fyrir, að vegasamband megi fá þarna yfir fyrir 25 þús. kr., svo að bílfært verði yfir heiðina um hásumartímann, þó þar verði vitanlega ekki góður vegur, því allbratt er á köflum. Þegar nú svona er komið, að ekki er hér orðið nema um tiltölulega litla fjárupphæð að ræða, en hinsvegar töluverða hjálp fyrir þá, sem þarna búa, og ennfremur atvinnubótavinna fyrir Seyðfirðinga, vildi n. leggja hugmyndinni lið og leggur til, að þriðjungur þessarar áætluðu upphæðar verði veittur á árinu 1934, og hefir vegamálastjóri stutt þá till. — Þá er hér í sömu brtt. lítil upphæð til Breiðdalsvegar, 3 þús. kr., sem n. hefir tekið upp eftir till. vegamálastjóra.

Þá leggur n. til að veita sín 3 þús. til tveggja vega í Skaftafellssýslu. Annar vegurinn er Suðursveitarvegur, sem nokkuð hefir verið unnið að undanfarið. Telur vegamálastjóri sérstaklega áríðandi að leggja þennan veg í sambandi við fyrirhugaða brúargerð á Kolgrímu. Hinn er Síðuvegur, sem liggur frá Breiðabólsstað austur Síðuna, og er ætlazt til, að fyrir þessa upphæð greiðist bifreiðum leiðin á mjög löngu svæði.

Þá er síðasta till. n., sem snertir vegina um hækkun á fjárveitingu til fjallvega úr 20 þús. í 25 þús. kr. Vegamálastjóri hafði lagt til, að þessi upphæð yrði 30 þús. kr., en stj. hafði fært hana niður í 20 þús. kr. Um framlög til fjallvega má yfirleitt segja, að það fé notast vel til atvinnubóta, því lítil upphæð fer á hvern stað, enda hefir hæstv. atvmrh. mælzt til þess, að n. hækkaði þennan lið á þeim grundvelli. Með þetta fyrir augum samhliða því, að hin mesta þörf er á að hraða ýmsum þeim fjallvegagerðum, sem nú er verið að vinna að, leyfir n. sér að mæla með 5 þús. kr. hækkun á liðnum. En vill þó sumpart binda þá hækkun við framlag til Svalbarðseyrarvegar, svo hann verði akfær. Er nánari grein gerð fyrir því í nál.

23. brtt. er um það, að hækka laun aðstoðarverkfræðings vitamálastjóra úr 5200 kr. í 6160 kr. Þessa till. flytur n. samkv. beiðni dómsmrh., og er það gert til þess að færa laun þessa starfsmanns til samræmis við laun aðstoðarverkfræðings vegamálastjóra, því þessir tveir menn eiga að hafa jafnt eftir launalögunum. Þessi liður hafði fyrir vangá misfærzt; svo að hér er í raun og veru ekki um annað en leiðréttingu að ræða.

N. hefir engar brtt. gert við hinar upphaflegu till. stj. um framkvæmdir í síma-, hafnar- eða vitabyggingum, en í nál. hefir hún gert grein fyrir afstöðu sinni til símamálanna, þannig, að hún vill fylgja till. landssímastjóra að öðru leyti en því, að hún vill alls ekki samþ., að línuþráðafjölgun eigi að sitja í fyrirrúmi fyrir þeim nýjum línum, sem hann hefir þó lagt til, að lagðar verði. Vil ég f. h. n. leggja áherzlu á þetta atriði.

Þá er í nál. gerð grein fyrir því, hvernig n. leggur til, að varið verði framlagi til bryggjugerða og lendingarbóta fyrir árin 1933 og 1934, 20 þús. kr. hvort árið, eða 40 þús. kr. alls, sem veitt er gegn 2/3 annarsstaðar frá. Ég skal geta þess, að n. hefir kynnt sér það, að ekki varbúið að ráðstafa fénu fyrir yfirstandandi ár. Eru till. n. á þessa leið:

Til bryggjugerðar á Arnarstapa á Snæfellsnesi, 1/3 kostnaðar, allt að 3500 kr. Til bryggjugerðar í Grindavík, 1/3 kostnaðar, allt að 8500 kr. Til bryggjugerðar á Kópaskeri, 1/3 kostnaðar, allt að 3000 kr. Til bryggjugerðar á Djúpavogi, 1/3 kostnaðar, allt að 1500 kr. Til bryggjugerðar á Húsavík, 1/3 kostnaðar, allt að 20000 kr. Til dýpkunar hafnarinnar á Stokkseyri, ½ kostnaðar, allt að 4000. Samtals 40500 krónur.

Að öðru leyti vil ég vísa til skýrslu n. í nál. um afstöðu hennar til þessara mannvirkja og skilyrði þau, er hún taldi sjálfsagt að setja í sambandi við framlög ríkissjóðs til þeirra. En ég skal bæta því við, að fyrir n. lágu upplýsingar um þessi mannvirki og meðmæli vitamálastjóra.

Fleiri brtt. ber n. ekki fram við þennan kafla fjárl., sem ég hefi framsögu á, og læt ég því máli mínu lokið í þetta sinn. Læt að sjálfsögðu bíða að lýsa afstöðu n. til þeirra brtt., sem komið hafa við frv. frá einstökum þm., þangað til þeir hafa talað fyrir þeim.