22.04.1933
Neðri deild: 55. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1807 í B-deild Alþingistíðinda. (2231)

154. mál, áveitu á Flóann

Tryggvi Þórhallsson:

Aðaltilefnið til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var það, að ég vildi koma með samskonar brtt. og hv. 1. þm. Árn., sem veitt hafa verið afbrigði fyrir. Mér finnst það sjálfsagt mál, úr því að það er meining n., að ríkið eigi að kosta það, sem gert er ráð fyrir með þessum 1., að það eigi þá að standa í 1., og þarf ekki að taka það fram, að ómögulegt er af ríkinu að leggja kostnað af framkvæmdum á slíkum l. sem þessum á herðar Búnaðarfélags Íslands. Nú hefir hv. 1. þm. Árn. borið fram till. um þetta, og ég vildi einungis leggja áherzlu á, að sú brtt. hans verði samþ.

En úr því að ég kvaddi mér hljóðs, vildi ég segja örfá orð til viðbótar. Það er ekki um það að villast, að hér er á ferðinni vandasamt og stórt mál, og það hefir í framkvæmdinni verið viðurkennt að því leyti, að það hefir verið skipuð sérstök n., sem starfað hefir á milli þinga og borið hefir fram till. um það, og ég hygg, að n. hafi þar innt af hendi mikið og myndarlegt starf. En ég vildi láta koma fram þá skoðun mína, að ég tel, að það sé bæði óvanaleg og lítt forsvaranleg afgreiðsla, að landbn. kemur fram með svona gagngerðar brtt. ekki fyrr en við 3. umr., og þær komu fram svo seint, að það þurfti að leita afbrigða til þess, að þær mættu komast að. Ég álít, að um svo vandasamt mál geti það tæpast talizt verjandi afgreiðsla að láta svona róttækar og víðtækar brtt. ekki koma fram fyrr en við 3. umr., og það með afbrigðum, svo að mjög lítill tími hefir verið til þess að átta sig á þeim.

Eins og kom fram í ræðu hv. 1. þm. Árn., þá er ekki verulegur ágreiningur um þetta. En ég vildi skjóta því fram, að það er einn liður, sem ekki hefir komizt inn í frv., en verður að mínu viti að fá afgreiðslu á þessu þingi. Með þessu frv. er einungis gert ráð fyrir að ráðstafa þeim peningum, sem beint hafa farið til áveitunnar, en það er annar liður, um peningana, sem farið hafa til rjómabúsins, sem ég get fallizt á, að ekki eigi að vera í þessu frv. En ég verð að leggja áherzlu á það, að löggjöf um það og ráðstöfun fari fram á sama þingi sem gerð er ráðstöfun um þetta. Ef til vill er það meining hæstv. ráðh. að láta það koma fram í sambandi við annað frv., sem er hér á ferðinni.

Ég verð svo að lýsa ánægju minni yfir því, að horfur eru á, að löggjöf verði sett um þetta og afgreiðsla fáist á því; einungis hefði ég talið betra, að það hefði borið að á viðkunnanlegri hátt en með þessari afgreiðslu landbn.