31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

1. mál, fjárlög 1934

Sveinbjörn Högnason:

Ég á tvær brtt. við þennan kafla fjárl., sem ég vildi mæla fyrir með nokkrum orðum. Önnur till. er á þskj. 296, XV, þess efnis, að veittar verði 3000 kr. til Hvolsvallarvegar í Rangárvallasýslu. Flyt ég þessa till. ásamt hv. 1. þm. Rang., sem er fyrri flm. að henni en þar sem hann er ekki viðstaddur, skal ég leyfa mér að gera það með nokkrum orðum. — Fyrir nokkrum árum var lagður upphleyptur vegur yfir Hvolsvöll, en þar voru áður moldargötur, niðurgrafnar, sem voru ófærar á veturna. 1930 var þessi vegur yfir Hvolsvöll, sem ég nefndi, lagður, en þó ekki lokið með öllu, því að eftir stendur ólagður ofurlítill kafli, 1 km., heim undir Stórólfshvol, þar sem verður að fara niðurgrafnar moldargötur, sem verða ófærar og teppa þannig alla umferð þarna um, þegar klaki fer úr jörðu. Er þetta mjög bagalegt fyrir þá, sem þarna búa og þurfa að koma mjólk sinni á markað, því að þeir flutningar stöðvast alveg, eins og önnur umferð, og er þó hér um of lítilfjörlega upphæð að ræða til þess að áfram sé trassað að gera við þetta. Vegafé er að vísu af skornum skammti nú, eins og annað, og er sjálfsagt að taka tillit til þess, enda höfum við þm. Rang. stillt kröfum okkar í þessu efni mjög í hóf. Þótt rétt sé og sjálfsagt að jafna vegafénu sem jafnast milli héraðanna, sem verður nokkur styrkur í þessum framkvæmdum nú í atvinnuleysinu, verður þó jafnframt að líta á það, hvar smáupphæðirnar koma að beztum og almennustum notum. Þegar svo er ástatt, að einn lítill vegarkafli getur teppt samgöngur í heilu héraði tímunum saman og spillt þannig fyrir afurðaflutningum, svo að miklu nemur fyrir bændur, virðist sjálfsagt, að fjárframlögum til vegagerða sé fyrst og fremst beint þangað, þar sem þörfin er svo aðkallandi, ef á annað borð er lagt fram nokkurt fé til opinberra framkvæmda í landinu. Vænti ég og þess, að hv. fjvn. geti fallizt á að játa einmitt slíkar fjárveitingar sitja í fyrirrúmi, enda kemur þessi skoðun óbeint fram hjá n. í því, að hún gerir till. um að dreifa vegafénu út á meðal héraðanna, en gerir hinsvegar niðurskurðartill. viðvíkjandi öllum öðrum gr. fjárl. að kalla. Ég þykist því mega vænta þess, að hv. d. taki þessari hóflegu till. okkar vel og líti á þá brýnu þörf, sem fyrir hendi er til að fá þessa litlu upphæð til að bæta úr samgönguerfiðleikunum þar eystra.

Þá flytjum við þm. Rang. aðra brtt. við þennan kafla fjárl., þskj. 296, III, þess efnis, að Kristjáni Grímssyni lækni verði veittur 1000 kr. styrkur til framhaldsnáms í handlækningum erlendis. — Fjárhagsörðugleikarnir, sem nú standa yfir, hafa aðallega komið niður á menntamönnum og andlegu starfi í niðurskurði á fjárveitingum í þessu skyni, en þótt verklegar framkvæmdir verði að sitja í fyrirrúmi fyrir öðru á þessum erfiðu túnum, er þó varhugavert að skera við neglur sér litlar upphæðir til námsmanna, sem slíks þurfa með til að geta lokið námi, sem ella getur orðið þeim ónýtt að meira eða minna leyti. Þetta er að vísu ekki eina till. um námsstyrk, sem ég flyt að þessu sinni, því að ég er við riðinn fleiri slíkar till. við síðari kaflann, enda lít ég svo á, að ef nokkur persónustyrkur á rétt á sér, þá sé það einmitt styrkur handa námsmönnum, til þess að hjálpa þeim yfir erfiðasta hjallann á langri og erfiðri námsbraut. Eru og fáar styrkveitingar, sem borga sig eins vel fyrir þjóðfélagið eins og þessar. Þessi ungi læknir, sem hér á í hlut, er bæði reglusamur og áhugasamur í sínu starfi, og líklegur til að ávaxta vel þá hjálp, sem honum yrði veitt við nám sitt. Í fjárl. í fyrra var öðrum ungum lækni veittur styrkur til sama framhaldsnáms erlendis, enda hygg ég, að þetta framhaldsnám verði ekki numið hér á landi og að nauðsynlegt sé fyrir þá menn, sem það vilja stunda, að sigla í þeim tilgangi. Framfarirnar á þessu sviði læknisfræðinnar, eins og reyndar öðrum sviðum þeirrar fræðigreinar, vaxa óðfluga með hverju ári, sem líður, og samhliða því aukast þær kröfur, sem gerðar eru til manna þessarar menntunar. Þar sem hér er jafnframt ekki um hærri upphæð að ræða, vænti ég þess fastlega, að hv. d. líti á þessa till. með víðsýni og velvilja.