31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

1. mál, fjárlög 1934

Vilmundur Jónsson:

Ég á tvær brtt. á þskj. 296. Þær eru báðar svo sjálfsagðar, að eiginlega ætti að vera óþarft að mæla með þeim.

Sú hin fyrri fer fram á 5000 kr. til fjörefnarannsókna á þjóðlegum íslenzkum matvælum. Ég ætla, að engum hv. þm. dyljist, að ýmiskonar rannsóknir á þessum matvælum hefði átt að vera búið að framkvæma miklu fyrr. Við getum hæglega stuðzt við rannsóknir annara þjóða á þeim matvælum, sem eru oss og þeim sameiginleg. En við eigum okkar eigin þjóðlegu matvæli, sem vart þekkjast annarsstaðar, svo sem súrt slátur og skyr, harðfisk, hákarl, söl og fjallagrös. Menn hafa haft mikla trú á þessum matvælum og góða reynslu af þeim, en hinsvegar hefir ekkert verið gert til að rannsaka, í hverju hollusta þeirra væri fólgin, né heldur á hvern hátt væri heppilegt að matreiða þau. Hér er ætlazt til, að sérstaklega verði rannsökuð fjörefni þessara matvæla. Ég hefi snúið mér viðvíkjandi þessu með aðstoð Nielsar próf. Dungals til ágætrar rannsóknastofu í Englandi og fengið loforð um fjörefnarannsóknir þar með sömu kjörum og Englendingar njóta sjálfir. Nú stendur auk þess til, að rannsóknastofa háskólans verði endurbætt mjög á næsta ári, og er í ráði að búa hana svo út, að þessar rannsóknir geti þá farið fram hér á landi, enda virðist það sjálfsagt, ef unnt er. Ég þykist vita, að fjvn. og aðrir hv. þdm. taki eins vel í þessa brtt. og hún á skilið.

Önnur brtt. mín fer fram á, að Jónasi Kristjánssyni verði veittur 1000 kr. ferðastyrkur til að sækja læknafund í Stokkhólmi, þar sem rætt verður um hollustu og óhollustu mataræðis. Nauðsynlegt er fyrir lækna að fylgjast sem bezt með í þessum efnum. Er Jónas Kristjánsson manna tilvaldastur í slíka för og maklegur þeirrar viðurkenningar að fá lítilsháttar styrk til hennar, þar sem hann hefir einna mest íslenzkra lækna aflað sér þekkingar á þessum efnum, breitt út frá sér fróðleik um þau og ekki sízt með því að iðka hina sjaldgæfu dyggð að lifa sjálfur eftir kenningum sínum. Hann hefir ekki beðið mig um að leita styrks fyrir sig, og efast ég um, að hann kunni mér nokkrar þakkir fyrir það, en ég veit, að hann langar til Stokkhólms í þessum erindum, og að málefnið er þess virði, að það sé styrkt.

Ég vil um leið víkja lítið eitt að þeirri brtt. n. að fella niður utanfararstyrk héraðslækna. Styrkur þessi var lækkaður í fyrra niður í 1500 kr., sem má teljast hæfilegt handa einum lækni. Umsóknir um styrk þennan eru jafnan margar. Nú sækja 3—4 læknar, og eru einkum tveir þeirra mjög verðugir fyrir hann, en annar þeirra dró sig í hlé í trausti þess að hann fengi styrkinn á næsta ári. Það kæmi því hart og ómaklega niður, ef styrkur þessi yrði nú felldur niður, og vænti ég, að hv. deild greiði atkv. gegn þessari brtt. nefndarinnar.