02.06.1933
Sameinað þing: 9. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í D-deild Alþingistíðinda. (2325)

208. mál, templaralóðin í Reykjavík

Flm. (Pétur Halldórsson) [óyfirl.]:

Ég játa, að ég hefi ekki getið um nokkuð stórt atriði í málinu, og á því byggjast sennilega orð hv. þm. V.-Húnv. Ég sagði „teygja sig langt til samkomulags við templara“. Það kemur til af því, að það er aðeins nokkur hluti lóðar templara fyrir sunnan garðinn, sem kvöðin hvílir á, hér um bil 1/3; hinn parturinn er kvaðalaus, þannig að það þarf samkomulag um lóðina alla.

Þessi kvöð hefir skilyrði í för með sér fyrir ríkissjóðinn, að vísa á lóð á þeim stað, þar sem yrði sem kostnaðarminnst að flytja þetta hús á. Svo að Alþingi hefir líka skyldu við hinn aðilann um þann hluta lóðarinnar, sem kvöðin hvílir á. En þeir 2/3 hlutar templaralóðarinnar, sem engin kvöð hvílir á, verða að sjálfsögðu að fylgja með í þeim samningi, sem gerður verður. Og það var þess hlutans vegna, sem ég talaði um, að forsetar teygðu sig til samkomulags við templara um alla lóðina.