10.03.1933
Sameinað þing: 4. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í D-deild Alþingistíðinda. (2361)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Sveinn Ólafsson:

Það má svo að orði kveða, að hv. 1. flm. till. á þskj. 37 hafi brotið skip sitt í lendingu og týnt öllum farmi. Hann hefir sem sé á síðustu stundu uppgötvað það, að tilefnið til ásökunar, sem í till. felst, er að engu orðið, og þess vegna er ekki hægt að fleyta henni áfram eftir sömu braut og ætlað var. Það, sem þó gegnir meiri furðu en þetta, er það, að hann hefir snúið sökum á hendur hæstv. dómsmrh. út af þessu slysalega strandi og snýr með dagskrá þáltill. í vantraust á hendur hæstv. dómsmrh. Það, sem fyrir liggur, er því að greiða atkv. um dagskrártill. — vantraustið — eða aðrar hliðstæðar till., er kynnu að koma fram, með því að þáltill. er að engu orðin.

Ég álít, að ef um það er að ræða að bera fram vantraustsyfirlýsingu, þá verði að koma fram veigameiri atriði til ásökunar heldur en það, að nafn ráðh. hafi verið nefnt í sambandi við einhverjar bollaleggingar um þessi jarðarkaup. Frekari röksemdir og fyllri verða að koma fram til þess að forsvaranlegt sé að samþ. dagskrána, og tilefni þessarar till. er of lítið og vafasamt til þess að byggja á því vantraust. Ég get því ekki greitt atkv. með dagskránni. Hinsvegar vil ég ekki láta neyða mig til að greiða atkv. á móti henni, og þannig að gefa óbeina traustsyfirlýsingu.

Eins og nú er ástatt verður að halda sér við það, sem fram er komið, og miða við það eitt. Ásökunarefnið er úr sögunni, og þess vegna er það eitt viðeigandi að víkja þáltill. frá með þeim rökstuðningi, að tilefnið til samþykktar sé horfið.

Í öðru lagi hefi ég það að athuga við dagskrártill. hv. 2. þm. Reykv., að hún, jafnframt því að vera vantraust á hæstv. dómsmrh., lýsir einnig sökum og vantrausti á hendur öðrum opinberum starfsmanni. Það er óneitanlega óþingleg og óvenjuleg aðferð að átelja þannig opinbera starfsmenn. Mér finnst, ef þeir hafa brotið af sér eða vanrækt skyldustörf, að þeir eigi að sæta opinberri ákæru, en þingið á ekki með þessum hætti að grípa fram í starf, sem því er ekki viðkomandi.

Af því að ég get ekki greitt atkv. með vantraustsyfirlýsingunni eins og hún er, né á móti henni, leyfi ég mér að bera fram þá brtt. við dagskrártill. hv. 2. þm. Reykv., að hún orðist svo:

Með því að mál það, sem þáltill. tekur til, er nú útkljáð án þess að koma þurfi til aðgerða Alþingis eða ríkisstjórnar, þykir ekki ástæða til að gera sérstaka ályktun um það, og tekur þingið þess vegna fyrir næsta mál á dagskrá.

Ég vil ekki tefja tímann með því að fjölyrða frekar um þetta mál og álít það ekki þess vert, að önnur þarfari mál verði látin sitja á haka.