29.05.1933
Efri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í D-deild Alþingistíðinda. (2430)

195. mál, Þingvallaprestakall

Einar Árnason:

Mér virðist ekki laust við, að það kenni nokkurrar keppni í þessu máli, og hafa umr. hnigið allmikið í þá átt. Er þó sennilega það kapp jafnvel meira heldur en ennþá hefir komið upp á yfirborðið. Ég vil ekki blanda mér inn í þær kappræður, sem hér hafa farið fram. Mér er málið ókunnugt að því er til þess kemur, hvað á bak við það liggur. Mér er ókunnugt um, hverjar óskir hlutaðeigandi söfnuðir kunna að hafa um þetta efni.

Því hefir verið haldið fram í þessum umr., að prestsþjónusta Þingvallasókna væri óforsvaranleg eins og henni er nú fyrir komið. Ég ætla, að það hafi ekki við fullkomin rök að styðjast. Ég hygg, að þjónusta Þingvallasókna sé ekki óforsvaranleg fremur en víða annarsstaðar úti um land, þar sem erfiðleikar eru á að hafa presta. Ég skal t. d. benda á einn stað norður í landi, Þönglabakkaprestakallið gamla. Það er ólíkt erfiðara um prestsþjónustu þar heldur en á Þingvöllum, og ég hefi ekki heyrt neinar sérstakar óánægjuraddir út af því frá sóknarbörnunum þar.

Að hve miklu leyti þetta muni spilla sálarheill hlutaðeigandi safnaða, skal ég ekkert segja um. En ég hefi ekki verulega trú á því, að það sé aðalatriðið, sem á bak við till. liggur.

Ég er hræddur um, að sitthvað persónulegt sé á bak við í þessu máli, sem ekki beinlínis hefir komið fram. En það er aukaatriði; hitt er aðalatriði, hvaða gagn er hægt að hafa af því, að slík þál. verði samþ. Ég álít, að hv. flm. nái ekki tilgangi sínum, jafnvel þó hún verði samþ. eins og hún er, því ég hygg, að það sé ómögulegt fyrir stj. að framkvæma það, sem fram á er farið, nema með því að ná samkomulagi við þá menn, sem þingið hefir skipað til umsjónar með friðun Þingvalla. Lögin um friðun Þingvalla eru nokkuð skýr í því efni, að Þingvallanefndin hefir sjálf öll umráð yfir jarðeignum ríkisins á þessu svæði. Þess vegna finnst mér það mjög vafasamt, að gagn sé af samþykkt þessarar till. Ég geri ráð fyrir því, að þingið vilji nú eins og fyrr halda fast við friðun Þingvalla út af fyrir sig, en láti það ekki sérstaklega til sín taka, hvort prestur væri þar eða ekki. Aðalatriðið er, að friðunin haldist. Með þessu er ég ekki að segja, að friðun Þingvalla geti ekki haldizt, þó prestur sé þar. En um þetta allt þarf að semja. Út af þessu vil ég leyfa mér að bera fram rökst. dagskrá í þessu máli, sem hljóðar svo:

Í því trausti, að samningar takist með ríkisstjórn og Þingvallanefnd um prestssetrið á Þingvöllum og afnot þess, enda sé friðun Þingvalla að engu spillt, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.