29.05.1933
Efri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í D-deild Alþingistíðinda. (2438)

195. mál, Þingvallaprestakall

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Í lögum nr. 37 1927 segir svo: „Ef breytt verður skipun prestakalla þannig, að sókn úr öðru prestakalli verði sameinuð Mosfellsprestakalli í Mosfellssveit, þá er Mosfellspresti skylt að taka að sér prestsþjónustu í þeirri sókn“. En sú breyt. á skipun prestakalla hefir aldrei verið gerð, og það ákvæði er því ekki enn gengið í gildi. Viðvíkjandi aðstöðu nágrannaprestanna austanfjalls til þess að þjóna hinni annari sókn Þingvallaprestakalls, Úlfljótsvatnssókn í Grafningi, get ég skýrt frá því, að ég átti tal við annan þeirra nú rétt áðan um málið, og sagði hann, að læknir sinn teldi heilsufar hans ekki svo gott, að hann þyldi að taka á sig erfiðari störf en þau, sem hann þarf að gegna nú í sínu eigin prestakalli, og ég býst við, að hann geti haft á reiðum höndum vottorð um þetta efni frá lækninum. Um þann prestinn, sem þá væri næstur til að þjóna Úlfljótsvatni, Arnarbælisprestinn, veit ég það, að hann er líka orðinn mjög roskinn maður og viðbúið er, að hann geti ekki tekið að sér erfiða sókn til viðbótar við það, sem hann nú hefir. Það mun því reka að því innan skamms, að óhjákvæmilegt verður að setja prest aftur í Þingvallaprestakall, ef a. m. k. önnur sóknin á ekki að verða svipt allri prestsþjónustu.

Þá er deilan um það, hvar þessi prestur eigi að hafa aðsetur. Um „jörðina“ Svartagil verð ég að segja, að það tel ég sízt heppilegan stað fyrir prest, því að „jörðin“ er mjög afskekkt, þarna uppi í fjöllum, og er í sjálfu sér sv o léleg, að hún getur varla kallazt jörð, og litlir eða engir möguleikar eru til þess að auka gæði hennar svo að nokkru nemi. Það er alveg víst, að þangað fæst aldrei sá úrvalsmaður, sem þyrfti að koma að Þingvöllum, þar sem jörðin er eitt hið ömurlegasta fjallakot á landinu, þó að þar hafi verið reist dýrt hús, sem þó er aðeins hálfgert. Að hinni jörðinni, sem nefnd hefir verið Arnarfell, er nú mjög kreppt. Hún hefir misst flest sín gæði, og það mundi eflaust verða afardýrt fyrir stj. að byggja hana svo, að hún geti talizt sæmilegt prestssetur. Þar er svo illa ástatt, að sá maður, sem þar býr nú, ungur og dugandi bóndi, er að því kominn að flýja jörðina, vegna þess hve jarðnæðið er ónógt og lélegt. Þingvellir eru því fyrir allra hluta sakir ákjósanlegasti staðurinn. Þar eru hús, sem ríkið hefir reist fyrir 70 þús. kr. og eru að mestu ónotuð um 10 mánuði ársins. Þar er allmikið ræktað land, en áburðarvana, og enn meira land, sem hægt er að rækta og þarf að rækta, til þess að fegurð staðarins njóti sín. Þar er einn hinn elzti kirkjustaður á landinu. Þar er enn prestssetur að lögum, eins og verið hefir um margar aldir. Þar er auðvelt að hafa prestssetur án þess að friðun Þingvalla sé í nokkru spillt. Ég sé því ekki, að hér sé nokkurt raunverulegt atriði í vegi fyrir því, að samningar takist um málið. Því að enn hafa ekki nein lög verið sett um það á Alþingi, að þar megi ekki prestur vera, sem kristni var lögtekin.