29.05.1933
Efri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í D-deild Alþingistíðinda. (2439)

195. mál, Þingvallaprestakall

Jón Baldvinsson:

Mér lízt nú ekkert á að svo stöddu, að samkomulag muni fást um þetta prestsskipunarmál milli hæstv. stj. og Þingvallanefndar. (Atvmrh.: Samningarnir þurfa ekki endilega að fara fram hér í þessum sal!). Nei, auðvitað ekki, en nú eru kosningar væntanlegar og nýtt þing kýs menn í nefndina, og ekki er unnt að ganga að því vísu, að það verði sömu mennirnir og nú sitja í henni.

Hæstv. ráðh. þóttist ná sér niðri með því að vitna í 1. frá 1907. En í framkvæmdinni hefir verið gerð talsverð breyt. á skipun þessara 108 prestakalla síðan. Ennfremur hefir Alþingi með 1. frá 1927 ætlazt til, að prestur væri ekki á Þingvöllum, með því að setja þau skilyrði um Mosfellsprestakall, sem á hefir verið minnzt í umr. Þar kemur vilji þingsins fram. Það er því ekki nema eðlilegt, að Þingvallaprestakall standi óveitt, þegar þingið er búið að láta þann vilja sinn í ljós, og búið er að sjá prestakallinu fyrir þjónustu nágrannaprests. En það getur komið annar þingvilji, sem vill annað. En hann er bara ekki til enn. Þá verður að breyta l. um friðun Þingvalla um yfirráð staðarins og annað slíkt, sem í þeim l. felst.

Þá ætlaði ég að segja fáein orð við hæstv. dómsmrh. (JakM: Var þm. ekki að tala við hann?). Það var nú svo lítið, en nú þykir mér meiru skipta, að hann heyri mál mitt, þegar ég vík að rétti Þingvallanefndar. (Dómsmrh.: Getur hann aldrei haldið ræðu, nema ég sé við!). Það er svo margt að athuga við þennan hæstv. ráðh., og hann er viss með að segja, að hann hafi ekkert um þetta heyrt, ef hann er ekki við.

Þingið hefir sett þau 1., að ekkert jarðrask megi gera á Þingvöllum. Síðan kemur í 4. gr.:

„Hið friðlýsta land skal vera undir Vernd Alþingis og æfinleg eign íslenzku þjóðarinnar“.

Og í 5. gr.:

„Þingvallanefnd, skipuð þrem alþingismönnum, hefir fyrir hönd Alþingis yfirstjórn hins friðlýsta lands og annara jarða í ríkiseign, sem til eru greindar í 2. gr. Þingvallanefnd skal kosin með hlutfallskosningum í sameinuðu Alþingi í lok hvers þings eftir nýafstaðnar kosningar, í fyrsta skipti á þingi 1928“.

Þetta eru sterk ákvæði. Þingið skilur þetta mál út úr öllum öðrum málum og lætur sérstaka n., sem það sjálft kýs, fara með umráð yfir húsum, jarðeignum og öllum byggingum þarna. Nú veit ég, að hæstv. ráðh. kemur með sinn lestur á l. og segir, að hvergi standi þar „hús“. (Dómsmrh.: Ætli það ekki!). Þetta er alveg eftir honum að vera með þessa smásmugulega og naglalegu útúrsnúninga, eins og „prokuratorar“ tíðka, þ. e. a. s., þeir smærri og lélegri; en góðir lagamenn fara eftir eðlilegum skilningi laganna, og þar er n. eftir skipun Alþingis veittur þessi óskoraði réttur, að ráða yfir jarðeignum, húsum og öllum byggingum, sem heyra undir byggingarnefnd. Ég er sannfærður um, að enginn virkilega góður lögfræðingur leggur annan skilning í þetta ákvæði.

Hæstv. ráðh. sagði m. a. áðan, sem ég vona, að hann standi við: Stjórnin hlýtur að hafa heimild til að ráða, hvaða gestir eru þarna. — En í orðalaginu og framsögu orðanna var veila, þar sem hann segir: „stjórnin hlýtur“ o. s. frv., og þetta þýðir, að hann er í raun og veru sannfærður um, að stj. hefir ekki þetta vald. En hann vill gjarnan leggja vald sitt sem víðast. En ekki skil ég, að ríkisstj. vilji halda þessu til streitu, þótt henni þyki æskilegt að hafa valdið. En ég vona, að það verði samkomulag milli stj. og Þingvallanefndar, hverjir gestir megi þarna vera, og treysta mætti, að ríkisstj. tæki ekki aðra en þá, sem Þingvallan. telur sæmilegt, að þar dvelji sem gestir landsins.