29.05.1933
Efri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í D-deild Alþingistíðinda. (2443)

195. mál, Þingvallaprestakall

Jón Baldvinsson:

Ég kann ekki við þær hnútur, sem hv. 6. landsk. kastaði í ræðu sinni að umsjónarmanninum á Þingvöllum, því að hann hefir marga kosti til að bera. Hann er algerður bindindismaður og reglusamur í bezta lagi. Hann er og skógfræðingur, og því sérstaklega vel til þess fallinn að annast skóginn. (HSteins: Er hann sérfræðingur í því?). Um mjög langt skeið var hann m. a. einn af undirmönnum Koefod-Hansens og hefir þekkingu í bezta lagi, svo að þeir kostir gera það að verkum, að sjálfsagt er, að hann sé þarna umsjónarmaður.

Út af ræðu hæstv. dómsmrh., sem var eintómur útúrsnúningur frá upphafi til enda, þar sem hann reynir að misskilja l. og snúa út úr þeim. Þrátt fyrir það, að Alþ. hefir falið 3 alþm. að hafa yfirstjórn Þingvalla þá kemur ráðh. og spyr, hvort Þingvallanefnd ráði yfir Valhöll og sumarbústöðunum, sem byggðir hafa verið. Það er þannig, að n. hefir ákveðið, og hefir heimild til þess, að leigja lóðir undir sumarbústaði og ákveða teikningarnar á tilsvarandi hátt og byggingarnefndin í Rvík. Þetta er vald n. yfir húsunum, en af því að ráðh. var í þessu sambandi að minnast á Þingvallabæ, sem er eign ríkissjóðs og undir stj. Þingvallanefndar, þá er það ekki sambærilegt, því að eftir að n. hefir leyft einhverjum manni að byggja þarna, þá hefir hún ekki vald til að segja, að Magnús Guðmundsson megi ekki fá að gista hjá þessum manni eða ráða því, hverjir eða hvaða maður eru teknir þar til gistingar í sumarbústaðinn; ekki er heldur hægt að ráða því, hverjir koma í gistihúsið, úr því einu sinni hefir verið veitt leyfi til að reka gistihús á Þingvöllum. Nefndin hefir ráðið því, hvar gistihúsið var sett. Þetta er einstakra manna eign; landið er leigt úr Brúsastaðalandi, og veit ég ekki annað en að ábúandinn þar — sé fullkomlega samþykkur þeim samningum og skilmálum, og innan næstu daga mun koma skriflegur samningur frá honum um þetta. Hinsvegar hefir Þingvallanefnd full umráð yfir Þingvallabæ og er af Alþ. sett yfir hann. Þetta vald n. er frá Alþ., og ríkisstj. getur ekki tekið það af henni, hvernig sem dómsmrh. leggur sitt lagavit fram í að snúa út úr l.