31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

1. mál, fjárlög 1934

Jón Auðunn Jónsson:

Ég á nokkrar brtt. á þskj. 296 og skal fara um þær nokkrum orðum.

Hin fyrsta er sú, að hækkað verði tillag til byggingar barnaskólahúsa utan kaupstaða um 2000 kr. Í fjárl. þessa árs er enginn styrkur til slíkra skóla. En vitanlegt er, að mikil þörf er fyrir þann styrk. Það er þegar búið að byggja nokkuð af skólahúsum án styrks, og önnur eru í undirbúningi og fleiri bíða eftir því, að eitthvað rætist úr með lögmæltan styrk. Einn af þeim stöðum, sem þannig er ástatt um, er Vestur-Aðalvík í Norður-Ísafjarðarsýslu. Þetta er mjög afskekkt hérað. Að sækja skóla til Aðalvíkur er afskorið. Það er 1 klst. sjóferð frá Sæbóli að Látrum og skólahúsið á Látrum rúmar ekki fleiri nemendur en þar eru nú, og því ekki hægt húsnæðis vegna að bæta við nemendum þar, þó hörnum væri komið fyrir í Látraþorpi. Þorpsbúar í Vestur-Aðalvík hafa safnað 2000 kr. til skólabyggingar og hreppurinn tryggt það, sem á vantar. Strandar því aðeins á því að fá lögmælt tillag, 1/3 kostnaðar, úr ríkissjóði. Fyrir því er þessi till. flutt. Það, sem fram á er farið í henni, er, að tillag ríkissjóðs til barnaskólahúsi sé í fjárl. hækkað úr 15000 kr. í 17000 kr.

Næsta brtt. mín við fjárl.frv. er um það, að Sigurði Kristjánssyni, fyrrum barnakennara, verði endurgreitt úr lífeyrissjóði barnakennara það fé, sem hann hefir greitt í sjóðinn, þó án vaxta. Maður sá, sem hér um ræðir, hefir nú látið af barnakennslu og hyggst ekki munu taka þann starfa upp aftur. Hann var barnakennari frá 1911 til 1929, að tveimur árum undanskildum, sem hann var veikur. Greiddi hann lögboðið iðgjald í sjóðinn öll þau ár, samkv. 1. frá 1911. Till. fer fram á, að hann fái þetta fé endurgreitt án vaxta. Slíku hefir aldrei verið neitað. Ein slík till. hefir nú komið fram frá fjvn. Vona ég því, að hv. dm. setji ekki þennan mann hjá, en samþ., að hann fái endurgreidda þá upphæð, er hann hefir greitt í sjóðinn, en sjóðurinn njóti vaxtanna af henni. Sleppur viðkomandi maður, sem engan styrk hefir hlotið úr sjóðnum, því ekki skaðlaus. En hann situr þó við sömu kjör og aðrir, ef hann fær þessa endurgreiðslu.

Þriðja brtt. mín er sú, að ríkissjóður ábyrgist 60 þús. kr. lán fyrir h/f Djúpbátinn til bátskaupa. Hér er um endurveitingu að ræða, því heimild til þessa hefir staðið í fjárl. síðustu þriggja ára. En vegna þess að félagið hefir ekki talið sér fært að kaupa nýjan bát, hefir ábyrgðarheimildin ekki verið notuð til þessa. Ég fer fram á, að hún verði endurnýjuð, því vera má, að félagið sjái sér fært að kaupa nýjan bát á næsta ári. Þörfin fyrir það er brýn, því bátur sá, sem nú er notaður, fullnægir á engan hátt þörfum þessa héraðs, þar sem staðhættir eru svo, að allir flutningar, bæði fólks- og vöruflutningar, fara fram sjóleiðina.

Þá er loks LVII. brtt. á sama þskj. Er þar einnig um ábyrgðarheimild að ræða fyrir 200 þús. kr. láni til Hólshrepps til byggingar raforkustöðvar. Hér er á vissan hátt um endurveitingu að ræða. Þessi ábyrgðarheimild stóð í fjárl. 1931 og 1932, en féll niður úr fjárl. yfirstandandi árs, vegna þess að engar líkur voru fyrir hendi um, að ábyrgðin yrði notuð nú í ár. Nú mætti svo fara, að ábyrgðarheimildin yrði notuð á næsta ári, og fyrir því er farið fram á, að hún verði sett í fjárl. Þarna hagar sérstaklega vel til um byggingu rafstöðvar. Eftir skýrslu, sem Steingrímur Jónsson rafmagnsstjóri hefir látið Alþingi í té, er aðstaða til rafstöðvarbyggingar þarna hin ákjósanlegasta. Ekki er fullvíst, að þessi heimild verði notuð, þótt hv. þd., sem ég vona að hún geri, samþ. hana. Hv. d. er óhætt að samþ. þetta, því hún má treysta því, að ekki verði í þetta fyrirtæki ráðizt, nema sjáanlegt sé, að það verði til stórra hagsbóta.