02.06.1933
Sameinað þing: 9. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í D-deild Alþingistíðinda. (2459)

199. mál, réttur alþingismanna til að athuga fylgiskjöl með reikningum ríkisins

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Hv. l. landsk., sem var nú að bera fram þessa dagskrártill., veit ekki mikið, hvað gerist í verkamannafélögunum hér í bænum. Hann taldi, að það hefði engan veginn verið ágreiningslaust, að þeim fáu varalögreglumönnum, sem í félögunum voru, var vikið þaðan. En það er vitað og hefir líka komið fram í blöðunum, að það var samþ. á fjölmennum fundum í einu hljóði, ekki eitt einasta atkv. var greitt á móti. Það er heldur ekki rétt, að þeir hafi haldið lög félagsins, því að þeir hafa iðulega reynt að brjóta kauptaxta og aðrar samþykktir félagsins, og það þykir ríkisstj. víst svo veglegt verk, að sjálfsagt sé að veita því vernd. En annars væri það mjög æskilegt að fá það skýrar fram tekið hjá hæstv. dómsmrh. og hv. 1. landsk., sem er form. Sjálfstfl., hvort þessar reglur gildi aðeins um mig, eða hvort þær gildi um allan Alþfl., eða alla flokka eftir því, sem hæstv. ráðh. sýnist. Það er hættulegt að vísa máli eins og þessu frá, að afleiðingum óyfirveguðum. Eftir því þarf þá ekki annað en að ráðh. segi: „Ja, þessum manni gengur ekki gott til, hann vill ekki fá að sjá þetta vegna almenningsheilla“, og í þessum málum er hann þá sjálfur dómari um það. Í hvert skipti, sem honum kynni að koma það illa að þurfa að sýna fylgiskjölin, þá getur hann neitað. Það er svo dæmalaust að ætla sér að vísa þessu máli frá, að ég get ekki annað en lýst yfir fyrirlitningu minni á þeim hugsunarhætti, sem liggur bak við það.