06.03.1933
Sameinað þing: 3. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í D-deild Alþingistíðinda. (2469)

39. mál, ríkisféhirðisstarfið

Flm. (Jónas Jónsson):

Það mun vera almennt álit manna, að á þessum erfiðu tímum sé full þörf á því að færa saman kvíarnar með starfsmannahald landsins, þar sem því verður með nokkru móti við komið. Ég geri ráð fyrir því, að síðar á þessu þingi muni koma fram ýmsar till. sem fari í þessa samfærsluátt. Þar sem nú stendur svo á, að maður sá, sem gegnt hefir starfi ríkisféhirðis, hefir horfið frá því starfi, vildi ég benda á það sparnaðartækifæri, sem felst í þáltill. minni.

Svo sem kunnugt er, annaðist Landsbankinn áður fyrr féhirðisstörf ríkissjóðs, en síðar var búið til sérstakt embætti til þessara starfa. Ég álít, að sú breyt. hafi verið gerð ófyrirsynju, og mun fyrst athuga það lítillega, hvað þessi störf kosta landið nú.

Hvorki ríkisbókhaldið eða féhirðisstarfið hefir komizt fyrir í sjálfu stjórnarráðshúsinu, og hafa báðar þessar stofnanir aðsetur sitt í hinni nýju skrifstofubyggingu ríkisins. Aðalvinnan fyrir utan afgreiðsluna er bókhaldið. Við það vinna nú 2 menn með 10 þús. kr. launum samanlagt. En við gjaldkerastörfin er miklu meira mannahald. Þar er fyrst og fremst gjaldkerinn sjálfur, og þar að auki 3 konur, eða jafnvel 4. Það virðist því gert ráð fyrir, að við útborganir ríkisins séu að jafnaði starfandi 5 manns. Kostnaðurinn við þetta mannahald er um 19 þús. kr. á hverju ári. Nú er þessi kostnaður 2500 kr. lægri, sökum þess, að einn starfsmannanna er farinn burtu um stundarsakir. Hvað væri hægt að spara þarna mikið með öðru fyrirkomulagi, er ekki hægt að segja um fyrr en á reynir, en það er tvímælalaust ástæða til þess að athuga, hvort þarna þurfi allt þetta fólk. Öllum er það kunnugt, að hér í Rvík fer meginhluti allra útborgana fram um mánaðamót, 2-3 fyrstu daga hvers mánaðar, en þess á milli er fremur lítið að starfa. Og færu þessar útborganir ríkisins fram í banka, þyrftu þær ekki að vera líkt því eins umfangsmiklar og þær nú eru. Ég geri ráð fyrir því, að verði þetta starf falið Landsbankanum, muni það skapa einhverja aukavinnu þar, en samt tiltölulega miklu minni en við mætti búast.

Ég get bent á það, að miklu meiri fjárgreiðslur en þær, sem hér um ræðir, t. d. launagreiðslur frá risaverzlunarfyrirtækjum erlendis, eru afgr. þannig, að hver starfsmaður hefir sína sparisjóðsbók, svo er borgað inn í þær rétt fyrir útborgunardag, og starfsmennirnir geta þá tekið út úr þeim hvenær sem þeim þóknast. Þessu fyrirkomulagi er ekki hægt að koma við, meðan ríkisféhirðir hefir sína sérstöku skrifstofu, en ef útborganirnar væru í sambandi við banka, þá væri ekkert hægara. Sjálfsagt væri að reyna fyrst að ná samningum við þjóðbankann, en tækist það ekki, álít ég rétt að reyna við einhverja smærri banka. Mér finnst það ekki orka neins tvímælis, að reyna þurfi að gera þessa vinnu sem kostnaðarminnsta. Og samþykki hv. Alþ. það, að betra sé að hafa þarna 4-5 menn á föstum launum en að spara nokkrar þúsundir, þá er það vegna þess, að hv. Alþ. gerir sér ekki ljóst, hvað yfirstandandi kreppa er alvarleg. Nema þá að þingið líti á þessi störf sem atvinnubótavinnu! Það væri í raun og veru eina skynsamlega ástæðan, sem hægt væri að færa fram gegn till. minni.