31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

1. mál, fjárlög 1934

Sveinbjörn Högnason:

Það sýnist gagnslítið að standa hér upp og halda ræðu yfir tómum stólunum. En þar sem ég á hér nokkrar brtt., þá verð ég víst að tala fyrir þeim yfir auðum stólum hv. þm. í þeirri von, að þeir geti flutt einhver skilaboð, þegar hinum hv. þm. þóknast að setjast í þá.

Ég hygg, að öllum hv. þm. sé ljóst, að öllum kröfum um aukin útgjöld fyrir ríkissjóð verður að stilla í hóf svo sem unnt er. Ég viðurkenni fyllilega þá viðleitni, sem fram hefir komið hjá hv. fjvn., að draga úr útgjöldum öllum eftir því sem frekast er fært. Hinsvegar get ég ekki farið af því, að mér finnst, að n. hafi þar gengið inn á villigötur, og þá fyrst og fremst að því er snertir styrk til listamanna og andlegrar starfsemi. Mér virðist, að eftir till. n. eigi mjög að skera við neglur sér styrk til þeirra manna, sem ekki hafa við neitt að styðjast nema styrk úr ríkissjóði, og þurfa hvað mest einhverrar hjálpar frá því opinbera. En svo vill hv. n. láta vera kyrra í fjárl. nokkra menn, sem eru svo vel launaðir, að engin ástæða virðist til að veita þeim ár eftir ár styrk til að inna af hendi störf, sem eru samfara embættum þeirra. Þar á ég fyrst og fremst við þá liði, sem ég flyt brtt. við ásamt hv. 1. þm. Skagf. Það er XXX. og XXXII. brtt. á þskj. 296. Í fyrri till. er lagt til að fella niður styrkinn til Guðmundar Finnbogasonar. Ég geri ráð fyrir, að þetta sé mætur maður, og er ekki nema gott, að unnið sé að slíkri bók, sem hann er styrktur til, en ég verð samt að álíta, að eins og nú standa sakir sé ekki brýn nauðsyn til að veita honum þennan styrk. Þessi maður hefir við sæmileg laun að búa, eftir því sem gerist hjá okkur, og því álít ég ekkert sjálfsagt að borga sérstaklega fyrir það, þótt hann vinni aukalega að útgáfu einhverrar bókar.

Sama er að segja um 32. brtt. Ég skal fúslega viðurkenna, að þessi maður, Hannes Þorsteinsson, er mætasti maður. En það stendur alveg eins á um hann eins og Guðmund Finnbogason. Í fjárl. er ætlazt til, að honum sé veittur 1600 kr. styrkur, og alltaf með sömu „clausulu“ og nú. En ég hygg, að á þessum tímum sé engin sérstök ástæða til að veita þessum tiltölulega vel launaða embættismanni svona aukastyrk, þó að hann vinni að einhverjum ritstörfum.

Það er alkunnugt, að nú eru uppi mjög háværar kröfur um það, að minnka útgjöld ríkissjóðs og lækka laun embættismanna ríkisins svo sem fært er. Það hafa einnig verið borin fram skattafrv. um að taka ofan af hæstu laununum og verja því fé til að styrkja þá, sem mest mæðir á. Ég er fyllilega sammála öllum slíkum till. og hugmyndum. Og það er einmitt í samræmi við það, sem ég ásamt hv. 1. þm. Skagf. flyt till. um, að þessir persónulegu styrkir verði látnir niður falla að þessu sinni.

En þótt ég beri þessar till. fram, þá álít ég sjálfsagt að styrkja menntamenn, og þá fyrst og fremst þá, sem sízt mega vera án styrks hins opinbera. Á ég þar fyrst og fremst við efnilega námsmenn við erlenda skóla, sem eru langt komnir með nám sitt. Ég hefi því ásamt hv. samþm. mínum flutt brtt. á þskj. 296, XXII. um að veita ungum manni slíkan styrk. Alþingi hefir áður kunnað að meta hæfileika þessa manns og veitt honum nokkurn fjárstyrk. Teldi ég illa farið, ef nú ætti að fara að kippa að sér hendinni, þegar honum liggur mest á og komið er að úrslitaþrautinni, því að hann hyggst að ljúka námi á þessum vetri. Þar sem þessi maður hefir tvisvar áður fengið styrk frá Alþingi, þá veit ég, að hann er öllum hv. þm. svo kunnur, að óþarfi er að fara um hann fleiri orðum.

Þá á ég brtt. á þskj. 306, III. Er þar lagt til að veita Sínu Ásbjörnsdóttur leikfimikennara 1500 kr. utanfararstyrk, og til vara 1200 kr. Ég veit, að hv. þm. hafa skilning á því, hve mikill þáttur í uppeldisstarfseminni leikfimi- og íþróttakennslan er, og er því fé vissulega vel varið, sem ríkið leggur fram til þeirra mála. Þessi kona, sem hér sækir um utanfararstyrk, hefir í mörg ár stundað íþrótta- og leikfimikennslu við ágætan orðstír, eftir því sem kunnugir segja. Hún hefir í 7 ár stundað leikfimikennslu við gagnfræðaskólann „Flensborg“ í Hafnarfirði, og ennfremur í Íþróttafél. Reykjavíkur og síðan 1928 hefir hún kennt leikfimi við miðbæjarskólann í Reykjavík.

Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa upp ummæli skólastjóra miðbæjarskólans, þar sem þessi kennari hefir starfað, og sömuleiðis ummæli forseta Í. S. Í. Sigurður Jónsson skólastjóri segir á þessa leið:

„Sína Ásbjörnsdóttir hefir kennt stúlkum leikfimi hér í skólanum síðan 1928. Er hún að mínu áliti ágætur leikfimikennari og hefir stundað starf sitt með samvizkusemi, síðan hún tók við því. Miðbæjarskólanum Rvík, 3. marz 1933.

Sig. Jónsson skólastjóri“.

Forseta Í. S. Í. farast þannig orð: „Samkvæmt beiðni er mér ljúft að votta það, að frú Sína Ásbjörnsdóttir fimleikakennari hefir í tæp 10 ár haft á hendi fimleikakennslu hér í Reykjavík og einnig í Hafnarfirði við góðan orðstír.

Þar sem hér á landi eru enn fáir fimleikakvenkennarar, er nauðsynlegt málefnisins vegna, að þessum fáu fimleikakennurum kvenna sé hjálpað á allan hátt. Og bezt verður það gert með því að styrkja þá til þess að geta fylgzt sem bezt með öllum nýungum á þessu menningarsviði. En þar sem flestir fimleikakennarar vorir eru fátækir af fé, verða þeir oftast að leita til þess opinbera um fjárstyrk, og skiptir þá miklu máli, að þeir fái umbeðinn styrk.

Frú Sína Ásbjörnsdóttir fimleikakennari hefir aldrei áður leitað styrks hjá hinu opinbera, en nú hefir hún í hyggju að fara til Þýzkalands næsta sumar til framhaldsnáms, og vil ég því hér með leyfa mér að mæla hið bezta með þessari fjárbeiðni hennar til háttv. fjárveitinganefndar.

Með vinsemd og virðingu.

Ben. G. Waage“.

Ég hygg, að það orki ekki tvímælis, að hér sé um að ræða einn af þýðingarmeiri þáttum uppeldisstarfseminnar, sem nauðsynlegt sé fyrir þjóðina, að lögð sé rækt við. Þá vænti ég og, að ekki deili brotum um það, að hér sé um verðugan umsækjanda að ræða. Umsækjanda, sem fyllilega sé þess verður að fá þennan litla styrk.

Þá á ég VI. brtt. á þskj. 306, við 17. gr. 10, að við aths. bætist: „og til Péturs Sigurðssonar 3500 kr.“. Ég hygg, að flestum hv. þdm. sé maður þessi kunnur fyrir starfsemi sína. Hann hefir ferðazt um landið og haldið fyrirlestra um bindindismál og siðferðismál. Þessu starfi hans mun sennilega bezt lýst í umsókn hans sjálfs til Alþingis, þar sem hann segir: „Ég hefi leitazt við af fremsta megni að beita áhrifum mínum til heilla þeim menningaratriðum, sem ekki verður deilt um, og öll sönn þjóðleg þrif hljóta að grundvallast á, svo sem: heilbrigðum hugsunarhætti, drengskap, sannsögli, bindindi og andlegu heilbrigði“. — Þeir, sem hlustað hafa á fyrirlestra þessa manns, eru allir á einu máli um það, að hann hafi mjög holl og siðbætandi áhrif á menn, jafnframt því sem hann starfar mjög ötullega fyrir bindindisstarfsemina. Ég er því ekki í minnsta vafa um, að ef þessum hluta af styrk stórstúkunnar yrði varið á þennan hátt, þá myndi hann sízt koma að minna gagni eða hafa minni áhrif fyrir bindindisstarfsemina í landinu heldur en á þann hátt, sem miklum hluta hans er varið nú. Eins og kunnugt er, lætur stórstúkan allmikinn hluta hans ganga til útgáfu blaðs, sem ég þekki ekki að sé neitt sérstaklega útbreitt og talið er að hafi frekar lítil áhrif. En fái Pétur Sigurðsson tækifæri til þess að halda fyrirlestra um þessi mál, þori ég að fullyrða, að áhrif hans myndu vega upp á móti mörgum blöðum af bindindisblaðinu Sókn, a. m. k. á þeim stöðum, sem ég þekki bezt til. Ég hefði að sjálfsögðu frekar kosið að fá alveg sérstakan styrk til þessa manns, en vegna þess ástands, sem nú ríkir í fjármálunum yfirleitt, sá ég mér ekki fært að fara fram á það, heldur tók þessa leið, til þess að auka ekki á útgjöld ríkisins, að leggja til, að honum yrði veittur styrkur af þessum lið fjárl.

Lýk ég svo máli mínu í trausti þess, að þessar skýringar mínar megi nægja til þess að hv. þdm. sjái sér fært að greiða atkv. með brtt. mínum.