31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

1. mál, fjárlög 1934

Jörundur Brynjólfsson:

Ég á nokkrar brtt. við þennan kafla fjárl., sem ég hefi leyft mér að bera fram, enda þótt ég fúslega viðurkenni, að horfur til tekjuöflunar fyrir ríkissjóðinn séu allt annað en álitlegar. En það er nú þannig ástatt með flestar þessar brtt., að bak við þær stendur brýn þörf og mikil nauðsyn þeirra manna, sem hlut eiga að máli. Skal ég stuttlega gera grein fyrir þessum brtt.

Fyrsta brtt. er á þskj. 296, XXIII., um 1000 kr. styrk til Guðmundar Jónssonar frá Stokkseyri til að ljúka vélfræðinámi í Þýzkalandi. Þetta er mjög efnilegur maður, sem um nokkurt skeið hefir stundað vélfræðinám í Þýzkalandi og hlotið ágætan vitnisburð. Nú vantar hann aðeins eins árs nám til þess að verða fullnuma í sinni mennt. Hann er mjög myndarlegur maður, verklaginn og atorkusamur í hvívetna, og sá vitnisburður og þau próf, sem hann hefir tekið, bera honum hið bezta vitni. Hinsvegar er fjárhagur hans svo þröngur, að hann getur ekki annað en horfið frá námi, ef honum kemur enginn styrkur. Venzlamenn hans eru því miður ekki svo efnum búnir, að þeir geti lagt honum lið, og sakir þess leitar hann nú enn á ný til Alþingis um hjálp. Ég hefi þá trú, að landið og atvinnuvegir þess uppskeri ríkulega vexti af þessum styrk, ef Alþingi veitir hann, svo maðurinn þurfi ekki að hætta námi fyrir fjárskort.

Þá er í sömu brtt. lagt til að veita Árna Skúlasyni 1000 kr., eða til vara 800 kr. styrk, til þess að ljúka trésmiðanámi í Kaupmannahöfn. Hann hefir stundað mublusmíði hér heima með ágætum vitnisburði, en hefir verið á skóla í Höfn síðastl. sumar og hlotið ágætis vitnisburð. Hann hefir nú, eða bróðir hans fyrir hans hönd, sent Alþingi umsókn um þennan styrk. Fylgja umsókninni umsagnir frá forstöðumanni skólans á Friðriksbergi og sömuleiðis frá forstöðumanni annars skóla. Ljúka þeir báðir upp einum munni um það, að hann sé prýðilega efnilegur og álitlegur nemandi. Ég hirði ekki að lesa þessi meðmæli, en hv. þm. er velkomið að sjá þau; þau eru hin ýtarlegustu og beztu. Ég álít nú, jafnvel þó þröngt sé í búi, að þá sé sjálfsagt að rétta hjálparhönd slíkum efnismanni, sem er að búa sig undir lífsstarf sitt, sem full ástæða er til að ætla, að geti haft góð áhrif á hagi þjóðarinnar. Það er ekkert eins þýðingarmikið eins og það, að manna þá sem bezt, sem eiga að verða öðrum til fyrirmyndar, og er það ekki hvað þýðingarminnst á verklega sviðinu. Ég teldi því fara mjög vel á því, ef Alþingi sæi sér fært að styrkja þessa tvo menn.

Þá á ég aðra brtt. á sama þskj., rómv. tölul. 37., um að veita 2500 kr. styrk til Sambands sunnlenzkra kvenna, til þess að halda uppi námskeiðum fyrir húsmæður og húsmæðraefni. Eins og kunnugt er, er Sunnlendingafjórðungur sá eini af fjórðungum landsins, sem engan húsmæðraskóla á. Frá hálfu þess opinbera hefir því harla litlu verið varið til húsmæðrafræðslu í þessum landsfjórðungi. Hinsvegar hafa verið í hinum fjórðungunum öllum reistir húsmæðraskólar, og meira að segja tveir í Norðlendingafjórðungi. Ég vík nú ekki að þessu af því, að ég sé að telja þetta eftir, heldur til þess að sýna fram á þörfina fyrir Sunnlendingafjórðung í þessu efni. Nokkrar áhugasamar konur hafa nú bundizt samtökum til þess að vinna fyrir þetta mál, og hafa þær gengizt fyrir námskeiðum allvíða á Suðurlandi hin síðari ár. Takmark þeirra er vitanlega það í framtíðinni að stofna til húsmæðraskóla fyrir Suðurland, en nú hefir kreppan sorfið svo fast að félagsskap kvennanna, að þær skortir fjármuni til þess að geta haldið áfram sinni kennslustarfsemi. Ég vænti því, þegar þörfin er svo brýn sem ég nú hefi lýst, en hinsvegar ekki meira fé um að ræða, þá daufheyrist Alþingi ekki við þessari styrkbeiðni, sem sannarlega er það minnsta, sem Alþingi getur í þessu skyni gert fyrir Sunnlendingafjórðung.

Þá flyt ég ásamt tveimur öðrum hv. þm. brtt. við 16. gr., XL., um að veita úr ríkissjóði 3300 kr. til þess að greiða til Búnaðarbanka Íslands sem vexti og afborganir af viðlagasjóðslánum þeirra málaranna Ásgríms Jónssonar og Jóns Stefánssonar, er þeir fengu til byggingar fyrir nokkrum árum. Þegar þeir tóku þessi lán, bjuggust þeir við að verða svo efnum búnir, að þeir gætu staðið straum af þessu. Síðan hefir kreppan skollið yfir, og það er eðli hennar að koma hvað fyrst og hvað þyngst við þá, sem lifa á þessháttar atvinnu. Menn spara fyrst við sig kaup á listaverkum o. þ. h. Það er því sýnilegt, að þessir menn hafa ekki peninga til að borga þessi lán til viðlagasjóðsins, enda þótt þeir hafi allan vilja á því. Þeir hafa boðizt til að láta listaverk upp í þessar greiðslur, en stofnunin hefir ekkert upp úr slíkum munum. Nú er hér um að ræða stofnfé Búnaðarbankans, sem hann hefir vitanlega gert ráð fyrir að fá. Ég teldi því vel farið, ef Alþ. vildi hlaupa undir bagga með þessum mönnum. Hér á í hlut annarsvegar merk stofnun, en hinsvegar góðir listamenn. Upphæð lánanna beggja er 26 þús. kr., sínar 13 þús. á hvorn. Þetta má skiptast niður á 11 ár, og verður þá um 3300 kr. á ári. Auk þess sem lagt er til með brtt., að málararnir endurgreiði ríkissjóði framlög sín með listaverkum eftir sjálfa sig, þá gæti þetta jafnframt skoðazt sem viðurkenning til þeirra sem listamanna, til þess að greiða götu þeirra með að standa straum af sínum byggingum, og þyrfti þessi fjárveiting þá síður að snerta tilfinningar þeirra, heldur en ef skuldirnar hefðu ekki verið greiddar lánsstofnuninni. Ég vænti því, að hv. þd. taki þessari brtt. með velvilja.

Þá á ég loks eina brtt. enn á sama þskj., XLI, um að veita úr ríkissjóði 12393 kr. til Búnaðarbankans sem fullnaðargreiðslu á viðlagasjóðsláni læknisbústaðarins í Grímsneshéraði. Þegar ráðizt var í að kaupa jörð og reisa læknisbústað fyrir Grímsneshérað, þá voru þeir tímar, að hvorttveggja, jörðin og byggingin, kostaði mikið fé. Eftir ýtarlegum skýrslum, sem Alþingi voru sendar um þennan kostnað, mun hann hafa verið um 45 þús. kr. samtals. Af þessari upphæð mun ríkissjóður hafa greitt 8 þús. kr. með tveim greiðslum, fyrst 3 þús. og síðar 5 þús. kr. Eins og sjá má á þessum upphæðum, er þetta ekki nærri því sá hluti, sem venjulega hefir verið greiddur úr ríkissjóði til læknisbústaða. Það mun venjulega hafa verið um 1/3 kostnaðar, en hvað sem því líður, þá er nú svo ástatt fyrir þeim fámennu og fátæku hreppum, sem þarna eiga hlut að máli, að þeim er greinilega ofvaxið að greiða þessa skuld. Á læknisbústaðnum hvílir nú liðlega 32 þús. kr. skuld, og auk þess þarf að gera þar óhjákvæmilegar umbætur, sem áætlað er, að muni kosta 10 þús. kr. Það er óhjákvæmilegt að gera slíka viðgerð á læknisbústaðnum. Það er því þannig ástatt um þessa fjármuni, að læknishéraðinu er alveg um megn að greiða þá. Það eitt, sem hægt er að gera, ef þingið vill ekki sinna þessari ósk héraðsins, er, að þessi eign verði tekin af þeirri stofnun, sem hefir tryggingu í henni, og þá er þannig ástatt, að barna er ekkert læknissetur. Og það held ég að sé, ekki einungis fyrir hlutaðeigendur heldur einnig fyrir það opinbera, einhver lakasta lausnin, sem gæti orðið í þessu máli. Ég ætla líka, að hv. þm. sé það ljóst, að það er þannig ástatt um byggðir landsins, að þó menn til skamms tíma hafi nokkurnveginn getað staðið straum af fjármunalegum skuldbindingum, þá er það orðið þeim ofvaxið nú. Og það er því miður þannig útlitið, að ekki er sjáanlegt, að á næstunni lagist það mikið, að menn geti risið undir þeim byrðum, sem hafa verið að skapast undanfarin ár og hafa fram að þessu vaxið fremur en hitt. Ég hirði ekki að drepa á fleiri atriði úr þessu ýtarlega erindi. Ég ætla, að ég hafi drepið á það helzta, sem máli skiptir, og ég vænti þess af hv. dm., að þeir daufheyrist ekki við slíkri ósk sem þessari, sem vissulega er ekki borin fram af öðrum ástæðum en knýjandi nauðsyn þeirra manna, sem hlut eiga að máli.

Þá á ég loks eina brtt. á þskj. 306,V., um að greiða Búnaðarbanka Íslands eftirstöðvar af viðlagasjóðsláni til áveitunnar á Miklavatnsmýri, 10800 kr. Þetta mál hefir komið nokkrum sinnum fyrir þingið og menn þekkja sögu þess svo, að ég hirði ekki um að rekja hana. En þetta fyrirtæki var frá byrjun mislukkað, og það þýðir ekki nú að fara að rekja það, af hvaða ástæðum það var. Nokkur not höfðu menn af þessu fyrirtæki, en þó komu fyrir mörg ár, sem engin not voru af áveitunni. Þegar Flóaáveitan var lögð, fengu nokkrir bændur á þessu svæði vatn frá Flóaáveitunni og hafa því áveitu á engi sín frá henni og verða að standa straum af þeim skuldbindingum, sem því eru samfara.

Þessi upphæð snertir því eingöngu fáa menn, og það segir sig sjálft, að með aldri fyrirtækisins muni það ekki gefast betur en fyrr, svo ekki er hægt að hafa nein veruleg not af því. Hér er því eins og með fyrra erindið, sem ég var að ljúka við að skýra frá, að menn ráða alls ekki við greiðslu þessarar upphæðar. Hinsvegar er það mjög tilfinnanlegt fyrir Búnaðarbankann, ef það verða mjög mikil vanhöld á fjármununum, sem honum voru áskapaðir, þegar hann byrjaði starfsemi sína. Þingið reyndi fyrir nokkrum árum að gera leiðréttingu í þessu máli. Í fjárlfrv. 1929, í 22. gr., er heimild veitt af þingsins hálfu fyrir stj. að færa niður áveituskuldir, eftir því sem um semdist. En framkvæmd í þessu máli hefir engin orðið. Hér er því um nokkurskonar endurveitingu að ræða. Og þar sem nú svo er ástatt um þessa upphæð, þá vænti ég þess, að þingið muni ekki daufheyrast við því að láta þessa fjármuni í té. Ég ætla, að hv. dm. sé það alveg ljóst, þar sem um svona löguð mál er að ræða og engin von er um greiðslu, hvað nærri sem gengið er að mönnum, að ekki sé rétt að daufheyrast við slíkum óskum.

Um aðrar brtt. ætla ég ekki að fara að fjölyrða. Ég álít, að það sé ekki ástæða til þess. Hinsvegar get ég sagt það, þó það sé almennt sagt og eigi ekki beinlínis við, þar sem nú á að ræða um einstakar gr., að ég mun aðhyllast flestar till. fjvn., og ég vil sérstaklega láta í ljós þá skoðun mína viðvíkjandi tekjuhliðinni, að þar hafi n. einmitt farið mjög hyggilega að ráði sínu. Við ættum sízt hér á þingi að hafa á móti því, að tekjuhliðin sé varlega áætluð, því það er hvort sem er aldrei hægt að gera ráð fyrir útgjöldum eins nákvæmlega og þau reynast, og þá er tryggasta leiðin til þess að bjargast sæmilega að áætla tekjurnar varlega. Og hver sem tekur sér fyrir hendur að athuga nákvæmlega áætlanir fjárl., tekjur og gjöld og útkomu hvers árs, mun sannfærast um, að það, sem bezt hefir bjargað okkur, er einmitt, að þingið hefir lengstum sýnt mikla varfærni í því að áætla tekjur. Ég álít þess vegna mjög illa farið, ef sá háttur væri tekinn upp að áætla tekjurnar mjög óvarlega, því það er enginn vafi á því, að ef sýndur væri stórkostlegur tekjuafgangur, þá mundi frv. verða til þess að ýta undir menn að samþ. útgjaldatill., og útkoman verða því í rauninni verri hvað fjárhaginn snertir.

Það er aðeins einn liður í till. fjvn., sem ég vildi minnast lítilsháttar á. Það er 38. tölul., við 15. gr. N. leggur til, að þessi liður, til útgáfu þjóðsagna Sigfúsar Sigfússonar, verði felldur niður. Ég skil mjög vel afstöðu fjvn. í þessu efni, að hún hefir lagt til að fella niður það, sem frekast er fært. Og það má máske segja um þennan lið, að það sé ekki mikið tjón í því fólgið, þó hann sé felldur niður, en hinsvegar verð ég að segja það viðvíkjandi slíkri vinnu og elju, sem sýnd er með þessu þjóðsagnasafni, að það er mikils um það vert. Og þó segja megi, að hver þjóðsaga kunni ekki að vera merkileg, þá eru innan um mjög merkilegar sagnir. Ég álít, að einna sízt megum við grípa til þess að skerða andlega starfsemi meðal þjóðarinnar. Íslendingar eiga vissulega það margar og merkilegar minningar, að þeir ættu seinast að grípa til þess að deyfa andlegt líf meðal þjóðarinnar. Okkar sagnir og sögur hafa máske verið einhver sterkasti þátturinn fyrir þjóðina til þess að halda við tungunni og menningunni og að hún ekki missti kjarkinn í lífsbaráttunni.

Þó þessi maður, Sigfús Sigfússon, hafi ekki lagt óskaplega mikið af mörkum í þessu skyni, þá er það mjög merkilegt starf, sem hann hefir gert, og innan um í safni hans eru mjög merkilegar greinar, sem munu á sínum tíma þykja mjög mikils verðar. Og það eitt má þó um starfið segja, að maðurinn hefir sýnt fádæma atorku og þrautseigju með því að leysa það verk af höndum, sem hann hefir gert. Þetta er umkomulaus alþýðumaður, sem hefir orðið að lifa á því, sem hann hefir innunnið sér, og það verk, sem hann hefir leyst af höndum, er stórvirki, þegar lítið er á þá aðstöðu, sem hann hefir átt við að búa.