05.04.1933
Neðri deild: 45. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í D-deild Alþingistíðinda. (2506)

119. mál, stjórn varðskipanna

Björn Kristjánsson:

Ég verð að svara hæstv. dómsmrh. nokkrum orðum. Hann misskildi orð mín, þar sem hann lagði mér í munn þau orð, að ég hefði sagt, að björgunarlaun varðskipanna hefðu orðið minni fyrir það, að færri skipum varð bjargað. Þetta datt mér ekki í hug að segja. Ég sagði að samningar þeir, sem gerðir hefðu verið um björgunarlaun, hefðu verið óhagstæðari nú en áður. Þá sagði hæstv. ráðh., að björgunarlaun miðuðust við það, hve erfitt væri að bjarga. Þetta kom mér mjög á óvart. Mér hefir verið tjáð, að hin erlendu vátryggingarfélög hafi samið um að borga í 20 á dag fyrir árangurslausar björgunartilraunir, en þegar heppnaðist að bjarga skipinu, þá væru björgunarlaunin viss hluti af virðingarverði skipanna eins og þau eru þegar búið er að bjarga þeim. Samningar þeir, sem skrifstofustjórinn hefir gert fyrir þann eina togara, sem bjargazt hefir síðan hann tók við yfirstjórninni, eru okkur óhagstæðari, minni hundraðshluti af virðingarverðinu en áður var. — Það er naumast svaraverður misskilningur, að ég hafi kennt skrifstofustjóranum það, hve illa hefir gengið að bjarga strönduðum skipum. Ég veit vel, að hann er þar sjálfur hvergi nærstaddur og ræður hvorki veðri eða straumum. Það er einnig útúrsnúningur hæstv. ráðh., að ég hafi sveigt nokkuð að skipherrum varðskipanna. Ég hefi nokkurn kunnugleika af þeim báðum, og ekki annað en góð kynni.

Þá er það borgunin fyrir yfirstjórn varðskipanna. Ég sagði, að höfuðástæðan fyrir till. væri sparnaður, sem hægt væri að framkvæma án þess að yfirumsjón skipanna yrði verr af hendi leyst. Skipaútgerðin tók ekkert fyrir verk sitt, meðan hún hafði á hendi yfirstjórn skipanna, en skrifstofustjóranum eru greiddar 4000 kr. fyrir það. — Að vísu var honum greitt þetta áður, og hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði átt að beina skeytum mínum að fyrrv. ráðh. En þáltill. okkar var eingöngu miðuð við framtíðarsparnað, en ekki við liðinn tíma. Í því fólst engin ásökun, hvorki til hæstv. núv. dómsmrh. né fyrirrennara hans, fyrir það, sem liðið er, heldur áskorun um að koma þessu betur fyrir framvegis. Það var að vísu rangt, sem hann og þeir gerðu, að greiða þetta að óþörfu. En ég vildi þó ekki láta það koma fram í þessari þáltill. — Hæstv. ráðh. og aðrir hafa engin rök fært fram, er afsanna, að till. sé réttmæt. Allir þeir hv. þm., sem vilja spara óþörf útgjöld, hljóta því að vera með henni. Í þessu sambandi vil ég benda á það, að skrifstofustjórinn hefir svo há laun, að óþarft er þess vegna að láta hann hafa þennan aukabitling.

Þá sagði hæstv. ráðh., að sérstaklega þægilegt væri að ná í skrifstofustjórann, þegar aðstoðar væri leitað við björgun, hvort heldur væri á nótt eða degi. Þetta þykir mér dálítið einkennilegt. Ég hefi séð bréf frá skrifstofustjóranum til skipaútgerðarinnar, skrifað í október síðastl., að mig minnir, þar sem skipaútgerðinni er falið að annast vörzlu á nóttum, eins og áður hafði verið.

Hv. þm. Vestm. var að bera þetta saman við flotamálastjórn annara ríkja og sagði, að aðrir en ráðuneytin hefðu ekki þá stjórn þar. En vitanlega er yfirstjórn strandvarnanna okkar á engan hátt sambærileg við flotamálastjórn útlendra hervelda, svo þessi samanburður sannar ekkert.

Hv. þm. bar skrifstofustjóranum þann vitnisburð, að hann væri lipur og góðgjarn, er hans væri leitað um björgun. En hann tók einnig fram, og þótti mér vænt um það, að hinu sama hefði hann átt að mæta hjá skipaútgerðinni. Mér er kunnugt um það, að meðan hún hafði stj. varðskipanna, var mikil alúð lögð við það að leyna ferðum varðskipanna og láta þau sem sjaldnast senda loftskeyti, svo togararnir væru þess sem bezt duldir, hvar þau hefðust við, til varnaðar því, að þeir færu í landhelgina. Ég tel þetta eina af sönnununum fyrir því, að þetta starf hefði verið í góðu lagi hjá ríkisskipum og betur af hendi leyst en hjá skrifstofustjóranum. En aðalrök fyrir till. er þó sparnaður, eins og ég hefi áður tekið fram.

Ég get ekki fallizt á, að þessu máli verði vísað til stj. Ég þykist vita, að yfirstjórnin muni þá verða áfram í sama horfi og áður, en það tel ég alveg ófært.