02.05.1933
Efri deild: 61. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1859 í B-deild Alþingistíðinda. (2658)

80. mál, dýralæknar

Frsm. (Pétur Magnússon):

Það hefir verið bent á það, bæði af hv. 3. landsk. og af hv. þm. Snæf., að dýralæknunum væri mjög misskipt og mislangt á milli þeirra. Þessu verður ekki neitað. En það er skiljanlegt, þar sem dýralæknunum hefir verið ákveðið setur á þeim stöðum, þar sem nautgriparæktin er mest. Þetta er eðlilegt og rétt, þar sem ég hygg, að það sé aðallega með sjúkdóma í nautgripum, sem leitað er læknis. Auðvitað efast ég ekki um, að þegar koma upp farsóttir í sauðfé, eins og lungnapest og þess háttar, þá sé til þeirra leitað og þeir geri sínar ráðstafanir. En þótt einstöku kind veikist, þá borgar sig ekki að leita læknis, því að kostnaðurinn við það verður í flestum tilfellum meiri en nemur verði kindarinnar. En auk þessa þykir það nauðsynlegt af heilbrigðislegum ástæðum að láta kýrnar vera undir eftirliti dýralæknis, þar sem mjólkin er seld. Talað hefir verið um að bæta úr þeirri eklu, sem er á dýralæknum, með því að koma upp námsskeiðum, og er ég samþykkur því, að vert sé að taka þetta til athugunar. Þykir mér líklegt, að á mörgum svæðum landsins væri hægt að bæta úr þörfinni á þennan hátt. En á þeim stað, sem hér er rætt um, — í Árnessýslu — getur slíkt ekki komið að notum. Nautgriparæktin er að verða aðalatvinnuvegur í Árnessýslu og miklum hluta Rangárvallasýslu, og þetta fer í vöxt vegna þeirra framkvæmda, sem gerðar hafa verið hin síðari ár, bæði miklar áveitur í Árnessýslu, sem vonandi leiða til aukins heyfengs, og einnig með stofnun mjólkurbúanna er stefnt að aukningu mjólkurframleiðslunnar. Ég tel því, að það séu alveg næg rök, sem færð hafa verið fyrir því, að fullkomin þörf sé fyrir að fá dýralækni á þetta svæði. Það hefir verið talað um, að ekki væri í samræmi við þá stefnu, sem nú er ríkjandi, að vera að fjölga embættum. Það er rétt, að í þessu árferði er leiðinlegt að fjölga embættum, en þó því aðeins leiðinlegt, að þau séu óþörf. En um það er ekki að ræða hér, því að brýn þörf er á stofnun þessa embættis.