16.05.1933
Neðri deild: 75. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1872 í B-deild Alþingistíðinda. (2682)

80. mál, dýralæknar

Frsm. minni hl. (Pétur Ottesen) [óyfirl.]:

Ég skal út af því, sem hv. þm. sagði um reynslu þeirra þarna austur frá, að meðalið við lungnaormaveiki hefði komið að litlu liði vegna þess, að ekki varð nógu fljótt náð í dýralækni (SvbH: Ekki að eins miklu liði), benda á reynslu í mínum hreppi í þessu efni. Þannig var, að í fyrravetur bar þar töluvert á þessum kvilla í sauðfé á nokkrum stöðum fyrir utan Skarðsheiði. Við höfðum heyrt talað um þær tilraunir, sem Jón Pálsson dýralæknir hefir verið að gera í þessu efni á Austurlandi, og reyndum að fá dýralækni, en hann sendi mann, því að sjálfur hafði hann ekki tíma til að koma til okkar. Þessi maður kenndi okkur handtökin við barkasprautunina. Við tvísprautuðum svo hverja kind í hreppnum. Reynslan af þessu var sú, að þessi kvilli varð engu minni í vetur eða vor heldur en í fyrra, en hafði á sumum bæjum ágerzt.

Þetta spursmál um garna- og lungnaormaveiki er því að mínu áliti algerlega óleyst, þrátt fyrir þær tilraunir, sem gerðar hafa verið, enda þótt þær hafi sumstaðar kannske komið að einhverju liði. Þess vegna er jafnmikil nauðsyn á því, að hafizt verði handa um það, að faglærður maður í þessum sökum verði látinn gera ýtarlegar tilraunir til að finna bót við þessum kvilla.

Allir, sem hér hafa talað, hafa lýst því yfir í sambandi við hina rökstuddu dagskrá mína, að þeir viðurkenni réttmæti hennar — sem ég er mjög ánægður yfir —, en að þeir hinsvegar ætli að fella hana við þessa umr. Ég get náttúrlega ekki ráðið neitt við það, þótt hún verði felld, en. mér þykir vænt um að hafa fengið þessa viðurkenningu fyrir réttmæti hennar. Ég er alveg jafnsannfærður, þrátt fyrir þessar umr., um það, að þegar litið er á hagsmuni landbúnaðarins í heild, þá yrði með því að samþ. till. mínar, ef eftir þeim yrði farið, stefnt til miklu meiri gagnsemi fyrir landið í heild, eins fyrir sveitirnar austanfjalls sem annarsstaðar, heldur en þótt dýralæknum yrði fjölgað, eins og frv. gerir ráð fyrir.

Þó að dýralæknirinn, sem hér situr í Rvík, hafi mikið að gera hér — því verður náttúrlega ekki neitað —, þá virðist mér samt, að starfsemi hans í þarfir landbúnaðarins hafi verið miklu meiri fyrir austan fjall heldur en í næstu sveitunum hér í kringum Reykjavík, enda fannst mér hv. 1. þm. Árn. taka undir þetta með mér.